Hin áhrifamikla og umdeilda Margaret Thatcher, oft kölluð Járnfrúin, var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1979-1980. Hún lést árið 2013 en hefði orðið hundrað ára síðastliðinn mánudag hefði hún lifað. Stuðningsmenn hennar og aðdáendur, meðal annars á Íslandi, hafa af því tilefni mært hana mjög en eitt helsta umræðuefnið í breskum fjölmiðlum í dag hefur hins vegar verið ný bók þar sem því er haldið fram að Thatcher hafi að minnsta kosti tvisvar haldið framhjá eiginmanni sínum til 52 ára.
Thatcher, sem bar upphaflega eftirnafnið Roberts, tók upp eftirnafn eiginmanns síns Denis þegar þau giftust árið 1951. Þau voru gift allt til ársins 2003 þegar Denis lést en hann var 10 árum eldri. Hjónin eignuðust tvö börn, tvíburana Mark og Carol. Margaret var kjörin á þing fyrir Íhaldsflokkinn 1959 og varð leiðtogi flokksins 1975 og síðan forsætisráðherra frá 1979-1990 en hún lét af þingmennsku 1992.
Margaret Thatcher treysti mjög á stuðning eiginmanns síns á stjórnmálaferlinum. Hann í raun, sérstaklega á seinni hluta ferils hennar, hélt sig til baka og veitti henni stuðning eins og mun algengara var þá að eiginkonur karlkyns stjórnmálamanna gerðu og var oft hæðst að honum fyrir að vera karlmaður í slíkri stöðu. Hjónaband þeirra þótti, að minnsta kosti utan frá séð, afar traust og aldrei fréttist af því að neitt alvarlegt hefði komið upp á þeirra á milli þótt þau hafi við og við átt í deilum eins og flest önnur hjón.
Út er hins vegar komin bók í Bretlandi eftir blaðakonu að nafni Tina Gaudoin. Bókin er gefin út núna einmitt vegna þess að nú er minnst 100 ára fæðingarafmælis Margaret Thatcher.
Bókin heitir The Incidental Feminist sem þýða mætti á íslensku sem Tilfallandi femínistinn en Thatcher verður líklega seint kennd við hugmyndir femínisma en hennar ríkisstjórnir voru að mestu leyti skipaðar körlum.
Gaudoin segir að fyrra framhjáhaldið hafi átt sér stað snemma á þingferli Thatcher en það liggur ekki fyrir með hverjum það var. Hún hefur þetta eftir Jonathan Aitken, rithöfundi og presti, sem var þingmaður og lok aðstoðarráðherra Íhaldsflokksins, á árunum 1974-1997.
Tímasetningar á seinna meinta framhjáhaldinu koma ekki skýrt fram í umfjöllun breskra fjölmiðla en þó að það hafi verið á seinni hluta ferils Thatcher og mögulega þá þegar hún var forsætisráðherra. Hinn meinti elskhugi í það skiptið var, samkvæmt Aitken og fleiri heimildarmönnum, Sir Humphrey Atkins. Atkins var þingmaður Íhaldsflokksins á árunum 1970-1987. Hann gegndi einu æðsta embættinu í þingflokknum, Chief Whip, sem má einna helst líkja við stöðu þingflokksformanns á Íslandi og var síðan ráðherra Norður-Írlands mála í ríkisstjórn Thatcher frá 1979-1981. Atkins var síðan sæmdur aðalstign þegar hann hætti á þingi en hann lést 1996.
Aitken segir að líklega hafi Thatcher þótt Atkins vera myndarlegur en hann hafi aftur á móti verið vonlaus stjórnmálamaður.
Aitken og raunar annar heimildarmanna Gaudoin segja að að altalað hafi verið meðal þingmanna Íhaldsflokksins að það væri furðulegt að Atkins hafi gengið jafn vel að fá áðurnefndar stöður og aðrar sem hann fékk á stjórnmálaferli sínum, þótt hann væri engan veginn hæfur til að gegna þeim. Þess má þó geta að Atkins var skipaður Chief Whip áður en Thatcher varð flokksleiðtogi
Enn aðrir heimildarmenn fullyrða við Gaudoin að Timothy Bell, sem var ráðgjafi Thatcher, um almannatengsl, í þeim þremur kosningabaráttum þar sem hún leiddi Íhaldsflokkinn til sigurs, hafi átt í sérstöku vináttusambandi við Járnfrúna. Þetta hafi falist einna helst í að Bell snerti Thatcher iðulega á hátt sem að almennt eiginmaður hennar ætti aðeins að gera en hann hafi til að mynda oft lagt hönd sína á hné hennar þegar þau sátu til borðs í formlegum kvöldverðarboðum og það hafi Thatcher líkað vel. Bell var sæmdur aðalstign eftir að Thatcher tilnefndi hann til að hljóta slíkan heiður. Bell lést árið 2019.
Ritari hinnar opinberu ævisögu Margaret Thatcher, Charles Moore, segist hafa heyrt sögusagnir um ástarsamband hennar og Humphrey Atkins en hafi aldrei fundið neinar sannanir fyrir því.
Hann kannast ekki við frásagnir af sambandi Thatcher og Timothy Bell og segist telja ólíklegt að þær hafi átt sér stoð í raunveruleikanum.
Í bók Gaudoin er einnig fjallað um samband Denis Thatcher við fyrirsætuna og sýningarstúlkuna Mandy Rice-Davies en hún kom við sögu í hinu svokallaða Profumo-máli árið 1963 en það var mikið hneykslismál. Það snerist í stuttu máli um að John Profumo stríðsmálaráðherra í ríkisstjórn Íhaldsflokksins sagði af sér eftir að hafa logið til um ástarsamband sitt við 19 ára fyrirsætu, Christine Keeler, en hún var einnig sögð hafa átt í ástarsambandi á sama tíma við sovéskan flotaforingja. Málið skók ríkisstjórnina það mikið að Harold Macmillan þáverandi forsætisráðherra sagði af sér og árið eftir tapaði Íhaldsflokkurinn í þingkosningum fyrir Verkamannaflokknum.
Denis Thatcher og Mandy Rice-Davies fóru meðal annars í frí saman og hann sendi henni ástúðleg bréf en þau munu þó ekki hafa hafið þetta samband sitt fyrr en eftir að eiginkona Denis lét af embætti forsætisráðherra.
Hvort þau hafi átt bókstaflega í ástarsambandi virðist ekki fyllilega ljóst en í umfjöllun fjölmiðla kemur fram að í bókinni sé þetta samband þeirra kallað vináttusamband.
Í umræðum í morgunþættinum This Morning á ITV í morgun kom fram að það skyti skökku við að þessar ásakanir á hendur Járnfrúnni væru fyrst að koma fram núna og því varpað fram hvort það hafi verið með ráðum gert að kynna bókina samhliða 100 ára fæðingarafmæli Thatcher til að ýta undi sölu á bókinni.
Alan Johnson fyrrum þingmaður og ráðherra Verkamannaflokksins, sem er ekki mikill aðdáandi Thatcher sem stjórnmálamanns, var meðal gesta og taldi það draga úr trúverðugleika þessara fullyrðinga að þær kæmu fyrst fram núna. Hann minnti þó á að eini nafngreindi heimildarmaðurinn Jonathan Aitken hefði átt góð tengsl við Thatcher en hafi hún virkilega haldið framhjá í forsætisráðherratíð sinni hafi hún ekki verið fyrsti forsætisráðherra breskrar sögu til að gera það og ekki verið sú síðasta í þeim hópi.
Johnson segist efast um að þessar fullyrðingar muni hafa einhver áhrif á stöðu Thatcher í breskri sögu. Hann minnir á að engin ævisaga hennar hafi verið jafn ítarleg og eins vandlega unnin og sú sem áðurnefndur Charles Moore hafi skrifað. Segi Moore að það sé ekkert sem sanni að Thatcher hafi haldið framhjá þá trúi hann því.
Johnson segist hins vegar taka það trúanlegt að áðurnefndur Timothy Bell hafi daðrað við Thatcher þar sem hann hafi sjálfur þekkt Bell sem veitti Johnson almannatengslaráðgjöf þegar hann starfaði fyrir verkalýðshreyfinguna. Bell hafi viðurkennt fyrir sér að hafa daðrað við Thatcher en Johnson segist ekki telja það ígildi framhjáhalds.