Assad og Vladimír Pútín Rússlandsforseti eru bandamenn og var Assad veitt hæli í Rússlandi eftir að hann hrökklaðist frá völdum í fyrra.
Í frétt New York Post, sem vísar í gögn frá SOHR, kemur fram að Assad hafi verið fluttur á sjúkrahús þann 20. september síðastliðinn og var ástand hans metið alvarlegt. Hann var útskrifaður níu dögum síðar og mun vera við ágæta heilsu í dag.
Í frétt Post kemur fram að eitrað hafi verið fyrir honum á heimili hans skammt frá Moskvu, en Assad er sagður búa í glæsilegri villu þar sem hann nýtur verndar rússneskra öryggisvarða. Assad er sagður halda sig að mestu í villunni en fái oft á tíðum heimsóknir frá gömlum vinum og bandamönnum.
Í skýrslu SOHR kemur fram að ekki sé vitað hver bar ábyrgð á eitruninni og hvort markmiðið hafi verið að ráða einræðisherrann fyrrverandi af dögum. Þar segir þó að Assad hafi verið lagður inn á gjörgæsludeild einkasjúkrahúss í úthverfi Moskvu og mun hann hafa verið í lífshættu um tíma.
„Aðeins sá sem framkvæmdi þennan gjörning veit hvort markmiðið að var að ráða Bashar al-Assad af dögum eða gera rússnesk stjórnvöld tortryggileg,” segir enn fremur.
Samkvæmt heimildum, sem vitnað er til í skýrslunni, er talið að rússnesk stjórnvöld hafi ekki átt neinn þátt í eitruninni. Í skýrslunni kemur þó fram að „hugsanlegt sé að tilgangurinn hafi verið að bendla rússnesk stjórnvöld við málið“ og að sýna fram á „að Vladimír Pútín Rússlandsforseti sé ekki fær um að tryggja öryggi hans.“
Rússnesk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um málið.