Það var þann 20. maí 2012 sem Matthew ruddist inn í litla matvöruverslun í úthverfi Dallas, hellti eldfimum vökva yfir starfsmann sem var á vakt, hina 76 ára Nancy Harris, og krafðist þess að fá peninga. Eftir að hann hrifsaði seðla úr búðarkassa verslunarinnar bar hann eld að Nancy. Hún lést af sárum sínum á sjúkrahúsi nokkrum dögum síðar.
Þó að Nancy hefði slasast illa gat hún lýst útliti árásarmannsins fyrir lögreglumönnum. Árásin náðist á eftirlitsmyndavél og var Matthew handtekinn stuttu síðar. Var hann með hring Harris á sér og peninga sem hann hafði stolið úr versluninni.
Sekt hans hefur aldrei verið dregin í efa en í réttarhöldum árið 2013 játaði hann glæpinn á sig og sagðist hafa myrt saklausa konu. Hann sagðist ekki hafa verið með réttu ráði á verknaðarstund og verið nýbúin að reykja mikið magn af krakki.
Harris hafði starfað í umræddri verslun í 10 ár og bjó skammt frá henni. Hún átti fjóra syni, ellefu barnabörn og sjö barnabarnabörn.
Matthew var tekinn af lífi með banvænni lyfjablöndu og var hann úrskurðaður látinn klukkan 18:53 að staðartíma. Hann fæddist árið 1975 og leiddist snemma út á braut afbrota. Hann var handtekinn fyrir þjófnað á bíl 15 ára gamall og síðar fyrir árásir á lögregluþjóna.
Saksóknarar fóru fram á dauðadóm í málinu, meðal annars á grundvelli þess að samfélaginu stafaði hætta af honum, en verjendur hans vildu fá hann dæmdan í lífstíðarfangelsi. Þann 8. nóvember 2013 komust allir tólf kviðdómendur að þeirri niðurstöðu að Matthew ætti að gjalda fyrir glæpinn með lífi sínu.