Sonur mannsins hefur auðgast vel á viðskiptum með rafmynt. The Guardian segir að búið hafi verið að skera fingur af manninum þegar hann fannst.
„Fórnarlambið virðist vera faðir manns, sem hefur auðgast á viðskiptum með rafmynt, og lausnargjalds var krafist,“ sagði franski ríkissaksóknarinn að sögn The Guardian. Hann nefndi þó ekki hversu hás lausnargjalds var krafist.
Maðurinn var numinn á brott klukkan 10.30 á fimmtudagsmorguninn í 14. hverfinu í miðborg Parísar. Hann var á göngu þegar fjórir grímuklæddir menn gengu að honum neyddu hann inn í sendiferðabíl.
Hann var frelsaður úr prísundinni um klukkan 21 á laugardaginn. Stór lögregluaðgerð fór þá fram við hús í Esonne sem er sunnan við París. Fjórar manneskjur, á aldrinum 20 til 27 ára, voru handteknar í aðgerðinni. Fimmta manneskjan, sem er 26 ára, var handtekin nokkru síðar.
Lögreglan telur að maðurinn hefði sætt enn meiri misþyrmingum ef hann hefði ekki fundist á laugardeginum.
Þetta mannrán er það síðasta í röð mannrána á „rafmyntafólki“ í Frakklandi og nágrannaríkjunum.
Í janúar var David Balland, stofnanda rafmyntafyrirtækisins Ledger, numinn á brott ásamt eiginkonu sinni. Fingur var skorinn af Balland. Fyrirtækið hans er eitt stærsta rafmyntafyrirtæki Frakklands sem selur „veski“ til að geyma rafmynt í. Verðmæti Ledger er talið vera um einn milljarður dollara að sögn The Guardian.
Ballard og kona hans voru numin á brott frá heimili þeirra í miðhluta Frakklands og flutt á sitthvorn staðinn þar sem þeim var haldið föngnum.
Mannræningjarnir settu sig í samband við annan eiganda Ledger og kröfðust lausnargjalds í rafmynt. Hluti þess var inntur af hendi að sögn saksóknara.
Hjónunum var að lokum bjargað úr prísundinni og 10 manns voru handteknir vegna málsins.
Í desember á síðasta ári var föður rafmyntaáhrifavalds rænt í austurhluta Frakklands að sögn The Guardian. Mannræningjarnir komu heim til hans, bundu konu hans og dóttur og neyddu hann inn í bíl með sér. Þeir sendu síðan lausnargjaldskröfu til sonarins sem hafði þá samband við lögregluna. Konunni og dótturinni var fljótlega komið til bjargar en maðurinn fannst sólarhring síðar í skotti á bíl og hafði hann verið beittur líkamlegu ofbeldi.
Fólki, sem tengist rafmyntaviðskiptum á einn eða annan hátt, hefur einnig verið rænt í Belgíu og á Spáni á síðustu fimm mánuðum.