Audrey þessi var aðeins 15 ára þegar hún gekk í hjónaband og þegar hún hvarf var hún orðin tveggja barna móðir og í hjónabandi með manni að nafni Ronald Backeberg.
Það var eins og Audrey hefði gufað upp en 14 ára gömul barnfóstra fjölskyldunnar viðurkenndi síðar að þær tvær hefðu ferðast á puttanum til höfuðborgar Wisconsin, Madison, og tekið þar rútu til Indianapolis í Indiana. Þegar þangað var komið fékk unga barnfóstran bakþanka og ákvað að snúa aftur heim á meðan Audrey hélt ferð sinni áfram.
Í mörg ár reyndu starfsmenn sýslumannsins í Sauk-sýslu að finna út hvað varð um ungu móðurina en allt kom fyrir ekki. Á fimmtudag barst hins vegar óvænt yfirlýsing frá embættinu þegar greint var frá því að Audrey hefði fundist á lífi og við góða heilsu í öðru ríki.
Það var lögreglumaðurinn Isaac Hanson sem leiddi rannsóknina eftir að honum var falið málið í mars síðastliðnum. Isaac fékk það hlutverk að skoða gömul og óupplýst mál og vakti hvarf Audrey athygli hans. Hann ræddi meðal annars við vitni, fór yfir sönnunargögn og elti nýjar vísbendingar í málinu, að því er fram kemur í umfjöllun New York Post.
„Systir hennar reyndist vera með aðgang að vefnum Ancestry.com og ég gat nýtt mér það,” sagði Isaac í viðtali við WISN á föstudag.
„Að lokum fundum við heimilisfang og ég hafði samband við lögregluna á staðnum og sagði að þarna væri kona skráð sem hefði ákveðna sögu,” bætir hann við.
Fór að lokum svo að lögreglumenn knúðu dyra hjá konunni og ekki leið á löngu þar til Audrey hringdi til baka í Isaac. Hann segist hafa átt gott 45 mínútna spjall við Audrey og hún að lokum sagt honum að hún hefði flúið til að vernda sjálfa sig gegn ofbeldisfullum eiginmanni sínum.
„Hún hljómaði hamingjusöm og örugg með ákvörðun sína. Það bar ekki á neinni eftirsjá,” segir hann.
Nokkrum dögum áður en Audrey hvarf árið 1962 hafði hún lagt fram kæru þar sem hún sakaði Ronald um grófa líkamsárás. Þá er hann sagður hafa hótað að myrða hana með skotvopni.
Isaac segir að lögregla geti fullyrt að Audrey lét sig hverfa af fúsum og frjálsum vilja á sínum tíma og hún hafi aldrei verið í neinni hættu eftir að hún hóf nýtt líf. Isaac kveðst ekki vilja gefa upp í hvaða ríki Audrey býr í dag.