Gypsy Rose Blanchard var varla skriðin á þrítugsaldur þegar hún var stimpluð morðkvenndi eftir að hún var dæmd fyrir hlutdeild að morði sinnar eigin móður. Unga konan naut þó samúðar almennings eftir að í ljós kom að móðirin hafði glímt við alvarlega geðröskun sem kallast Munchausen by proxy. Í þeirri röskun felst að móðir hennar fékk útrás fyrir alvarlega athyglissýki með því að annað hvort ljúga að heiminum að dóttir hennar væri alvarlega veik eða með því að hreinlega gera dóttur sína veika.
Gypsy fékk því ekki eðlilega æsku. Henni var gert að sitja heilu dagana í hjólastól þrátt fyrir að geta vel gengið. Hár hennar var rakað af til að selja það betur að hún væri með krabbamein og auk þess var hún látin gangast undir fjölda óþarfa læknismeðferða, þar með talið aðgerðir, út af lygum móðurinnar. Hún fékk ekki að mynda félagsleg tengsl við jafnaldra sína, gekk ekki í skóla og var ekki kennt um lífið og heiminn, hvað þá um orsök, afleiðingar og siðferðisleg gildi samfélags manna.
Þegar hún kynntist dreng í gegnum netið ákvað hún að eina leiðin út úr þessari matröð væri að losna undan oki móður sinnar og sá enga aðra lausn en að fá nýja kærastan til að koma mömmu fyrir kattarnef.
Nýlega var Gypsy veitt reynslulausn enda hefur hún ítrekað lýst yfir iðrun og hefur lagt mikið á sig til að komast í gegnum áföll æskunnar og sættast við minningu móður sinnar. Á meðan hún sat í fangelsi gekk hún í hjónaband og var því vonum spennt að losna úr prísundinni til að geta gengið loks í hjónasæng.
Ekki urðu hveitibrauðsdagarnir margir því hún hefur nú örfáum mánuðum síðar krafist skilnaðar. Nú greina fjölmiðlar frá því að ástæða skilnaðarins séu venjur eiginmannsins, Ryan Anderson, sem Gypsy hafi ekki getað fellt sig við. Hann hafi til dæmis átt það til að hamstra mat, en þetta hafi valdið ítrekuðum rifrildum milli hjónanna. Heimildarmaður náinn Gypsy sagði í segir í samtali við fjölmiðla að um sé að ræða sjúka matarsöfnunaráráttu, en Ryan hafi ekki greint konu sinni frá þessari röskun áður en hún flutti inn með honum.
Þetta hafi valdið árekstrum enda stundi Ryan það að geyma mat eins og hann sé að birgja sig upp fyrir hamfarir, en þessi árátta kom illa við Gypsy þar sem hún sé minnt á móður sína. Sérstaklega hafi farið fyrir brjóstið á henni að Ryan geymdi útrunnar kælivörur í ísskápnum. Hún hafi hent því sem var útrunnið og Ryan hafi brugðist ókvæða við. Eftir viðbrögð eiginmannsins hafi Gypsy upplifað óöryggi, sérstaklega að ástand ísskápsins væri honum svona mikið hjartans mál.
Loks hafi það gert útslagið að Ryan hrýtur, nokkuð sem Gypsy hafði aldrei þurft að takast á við og gat því ekkert sofið. Eins var Ryan heitfengur en Gypsy vill sofa við kulda.
Þetta hafi því verið dauðadæmt. Eftir hrottalegt rifrildi, þar sem Ryan öskraði á konu sína, taldi hún að hann ætlaði að ganga í skrokk á sér. Þetta hafi hún upplifað í æsku af hendi móður sinnar og ætlaði ekki að upplifa aftur. Hennar fyrstu viðbrögð voru að verja sig. Hún kom sér út úr húsinu, hringdi í lögfræðing og fékk nálgunarbann gegn manni sínum. Samhliða hefur hún krafið eiginmann sinn um framfærslulífeyri og beðið dómstóla um að vísa frá sambærilegum kröfum frá Ryan.