fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Pressan

Hún var barn heimsfrægra foreldra en lífið var samfelld barátta

Ritstjórn Pressunnar
Föstudaginn 5. apríl 2024 22:00

Angie Dickinson og Burt Bacharach með dóttur sína Lea Nikki árið 1966. Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þótt hin bandaríska Lea Nikki Bacharach, sem alltaf var kölluð Nikki, væri dóttir kvikmyndastjörnunnar heimsfrægu Angie Dickinson og tónskáldsins, ekki síður heimsfræga, Burt Bacharach átti hún alla tíð afar erfitt uppdráttar í lífinu. Hún glímdi við Asperger-heilkennið sem plagaði hana mjög alla tíð hún var fyrst greind með heilkennið á fertugsaldri. Nikki náði aldrei að lifa almennilega með heilkenninu og var aðeins fertug þegar hún tók eigið líf.

Erfiðleikar Nikki voru aldrei mikið í sviðsljósinu þótti hún ætti svo fræga foreldra. Hún fæddist 1966 en foreldrar hennar höfðu gifst árið áður og var ferill þeirra beggja í miklum blóma. Burt Bacharach hafði samið mörg heimsfræg lög sem þekktir söngvarar eins og Dionne Warwick og Perry Como höfðu hljóðritað og Angie Dickinson hafði leikið í mörgum heimsþekktum kvikmyndum, til að mynda Rio Bravo með John Wayne og Dean Martin og Ocean´s Eleven með Frank Sinatra, Dean Martin og Sammy Davis Jr.

Nikki var eina barnið sem foreldrar hennar eignuðust saman og líf hennar var erfitt frá byrjun. Hún fæddist þremur mánuðum fyrir tímann og vó aðeins tæplega hálft kíló við fæðingu. Talið var fullvíst að líf hennar yrði örstutt og móðir hennar treysti sér ekki framan af til að sjá hana. Hún braggaðist þó smám saman en samkvæmt venjum á þessum tíma fengu foreldrar hennar ekki að halda á henni og hún eyddi fyrstu þremur mánuðum ævinnar í hitakassa.

Margvíslegir erfiðleikar frá byrjun

Áhyggjum foreldra Nikki af því að hún hefði hlotið heilaskemmdir var vísað á bug af læknum. Hún glímdi þó við ýmsa erfiðleika. Augu hennar sneru ekki alveg rétt sem varð til þess að hún sá alla ævi afar illa og hún byrjaði ekki að tala fyrr en hún var þriggja ára. Þegar hún var fjögurra ára byrjaði hún að safna öllu sem varð á vegi hennar jafnvel brotnu gleri, hundaskít og tómum rafhlöðum.

Þegar hún byrjaði loks að tala virtist hún afar greind og sýndi meðal annars skýr merki um að hafa erft tónlistarhæfileika föður síns.

Eftir því sem hún varð eldri varð lífið Nikki þó sífellt erfiðara. Hún var lögð í einelti og virtist einfaldlega ekki höndla það sem fæst börn á hennar aldri áttu erfitt með. Hún var send til sálfræðings en fékk þrátt fyrir það mikil skapofsaköst.

Uppeldi Nikki reyndi mjög á hjónaband foreldra hennar. Faðir hennar hélt framhjá móður hennar margsinnis og skilnaður þeirra var endanlega frágengin 1980 þegar Nikki var 14 ára.

Burt Bacharach og Angie Dickinson reyndu hvað þau gátu að ala dóttur sína upp í sameiningu eftir skilnaðinn og það var helst fyrir tilstilli hans að Nikki var send á sérstaka stofnun í Minnesota 1983.

Dvölin varð miklu lengri en stóð til

Burt sagði seinna að hann hefði talið nauðsynlegt að senda Nikki þangað svo hún yrði sjálfstæðari og yrði ekki jafn háð móður sinni. Hann hefði haldið að þetta hefði verið það besta fyrir dóttur hans en í ljós hafi komið að svo hefði ekki verið og Nikki hefði alla tíð síðan verið reið út í hann vegna þessa.

Angie Dickinson sagði síðar að geðlæknar á stofnuninni hefðu tjáð henni að Nikki yrði þar í níu til átján mánuði en dvölin varð tæplega tíu ára löng.

Hún sagði að á stofnuninni hefði verið reynt að sannfæra Nikki um að hún væri eitthvað sem hún var ekki. Henni hefði verið sagt að hún yrði að læra að keyra bíl og geta tollað í vinnu þar sem foreldrar hennar yrðu ekki alltaf til staðar fyrir hana. Það hefði endað með tveimur árekstrum þegar Nikki reyndi að keyra bíl.

Faðir Nikki sagði síðar að hann óskaði þess að einhver hefði sagt honum að það hefði ekki verið hægt að lækna dóttur hans af því sem hrjáði hana og þess vegna ætti að leyfa henni að vera eins og hún var.

Allt verður skýrara

Nikki yfirgaf loksins stofnunina 1992. Hún skráði sig í jarðfræði í háskóla en vegna þess hversu sjón hennar var slæm réð hún aðeins við að taka einn kúrs á hverju misseri og því var í raun útilokað fyrir hana að ljúka náminu.

Hún átti á þessum tíma í vaxandi erfiðleikum með að þola hljóð í háværum tækjum eins og sláttuvélum og þyrlum. Móðir hennar sagði að fyrir Nikki væru slík hljóð eins og einhver væri bókstaflega að bora inn í eyrað á henni.

Tveimur árum síðar var Asperger í fyrsta sinn bætt inn í leiðarvísi Geðlæknafélags Bandaríkjanna um greiningar.

Heilkennið er nefnt eftir Hans Asperger sem greindi það fyrstur allra á 5. áratug síðustu aldar. Hann segir heilkennið lýsa sér einkum með skorti á samhug í garð annarra, lítilli getu til að eignast vini, vangetu við að halda uppi samræðum, að viðkomandi sökkvi sér algjörlega í tiltekið áhugamál og að hreyfingar þess sem haldinn er Asperger-heilkenninu séu afar klaufalegar.

Þessi lýsing átti vel við Nikki en Angie móðir hennar hafði aldrei heyrt um Asperger fremur en margir aðrir. Það var ekki fyrr en árið 2000, þegar Nikki var orðin 34 ára, þegar systir Angie benti henni á grein um Asperger sem að ljós rann upp fyrir henni og hún áttaði sig loksins á því hvað hafði verið að hrjá dóttur hennar í öll þessi ár.

Í kjölfarið mun Nikki hafa fengið formlega greiningu um að hún væri haldin Asperger-heilkenninu.

Það dugði hins vegar ekki að finna loksins svörin við því hvað amaði að Nikki hún bara réð einfaldlega ekki við lífið, sagði móðir hennar síðar

Fann ró um stund en talaði oft um dauðann og sjálfsvíg

Síðustu 10 ár ævinnar ferðaðist Nikki víða um heiminn með móður sinni. Henni líkaði sérstaklega vel að heimsækja Tahiti enda var þar friðurinn og róin sem hún þráði svo heitt að finna.

Þegar þarna var komið við sögu hafði Angie Dickinson helgað líf sitt því að sjá um Nikki sem var þess vegna dauðhrædd um að missa móður sína. Hún fékk dauða móður sinnar og sinn eigin dauða á heilann.

Foreldrar hennar sögðu síðar að Nikki hefði farið að tala opinskátt um að taka eigið líf en Burt Bacharach segist hafa verið viss um að dóttir hans myndi aldrei láta verða af því. Hann sagði að það hefði hljómað eins og sagan um drenginn sem hefði hrópað „úlfur, úlfur“ þegar Nikki hafi ítrekað sagt eitthvað á borð við það að hún ætlaði að fremja sjálfsvíg af því það væri svo mikill hávaði í þyrlunum og garðyrkjumönnunum.

Nikki stóð þó á endanum við orð sín og tók eigið líf árið 2007, þá 40 ára gömul.

Í yfirlýsingu sögðu foreldrar hennar að Nikki hefði verið yndisleg en hún hafi kosið að taka eigið líf til að losna undan þeim þjáningum sem Asperger hefði lagt á heila hennar.

Faðir Nikki, Burt Bacharach, lést 2023, 94 ára að aldri, en móðir hennar, Angie Dickinson lifir enn og er 92 ára gömul.

Byggt á umfjöllun Allthatsinteresting.com

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Segja að næsti heimsfaraldur verði væntanlega af völdum flensuveiru

Segja að næsti heimsfaraldur verði væntanlega af völdum flensuveiru
Pressan
Fyrir 3 dögum

Líkamsrækt gæti snúið öldrunarferlinu við

Líkamsrækt gæti snúið öldrunarferlinu við
Pressan
Fyrir 5 dögum

Fjölskyldufaðirinn lést í sumarfríi – Rangt lík kom heim í kistunni – „Hvar er faðir minn?“

Fjölskyldufaðirinn lést í sumarfríi – Rangt lík kom heim í kistunni – „Hvar er faðir minn?“
Pressan
Fyrir 6 dögum

Einmana ekkja taldi sig hafa fundið draumaprinsinn – Í staðinn hófst matröð sem rændi hana aleigunni og loks lífinu

Einmana ekkja taldi sig hafa fundið draumaprinsinn – Í staðinn hófst matröð sem rændi hana aleigunni og loks lífinu
Pressan
Fyrir 6 dögum

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni
Pressan
Fyrir 6 dögum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað