Veiðimennirnir hringdu strax í lögregluna og lögreglumenn komu fljótlega á vettvang. Þegar leið á daginn fundust fleiri líkhlutar. Hægri handleggur fannst en höndina vantaði á hann. Vinstri fótleggurinn fannst síðar um daginn en dýr hafði dregið hann á land.
Um miðjan dag þann 6. september fannst búkurinn í sefi í suðausturhluta Ørum sø.
Réttarmeinafræðingar komust að þeirri niðurstöðu að um konu á aldrinum 30-45 ára væri að ræða. Hún var hvít, um 170 cm á hæð og hugsanlega kraftalega vaxin. Líkið hafði verið skorið í sundur með beittum hníf og beinin söguð með sög með fínum tönnum. Líkhlutunum hafði síðan verið hent í vötnin tvö.
Hver var konan og hver var morðinginn?
Dönsk blöð fjölluðu að vonum mikið um málið og sérstök rannsóknardeild ríkislögreglunnar, Rejseholdet, vann að rannsókn þess. En rannsóknin var ekki einföld. Þó var hægt að slá því nokkuð föstu að konan væri ekki dönsk. Ástæðan var að ekki hafði verið tilkynnt að danskrar konu væri saknað.
Lögreglan vann því út frá þeirri kenningu að að konan væri þýsk og hugsanleg einn af mörgum ferðamönnum sem höfðu verið í sumarhúsi í Thy.
Þann 10. september voru rannsóknargögnin þýdd yfir á þýsku og send til morðdeilda lögreglunnar í öllum þýsku sambandsríkjunum. Það bar árangur og lögreglan var nú komin á slóð morðingjans að því að hún taldi.
Þýskur stýrimaður hafði haft samband við þýsku lögregluna og sagt henni að hann hefði séð svolítið grunsamlegt eiga sér stað þegar bátur hans lá í höfninni í Hanstholm en þar var hann með eiginkonu sinni.
Bíll, með þýsk skráningarnúmer, birtist skyndilega á höfninni þann 21. ágúst. Bílstjórinn bakkaði alveg út að bryggjukantinum, steig út og opnaði skottið og byrjaði að eiga við eitthvað sem lá í því. Þá var öðrum bíl ekið inn á hafnarsvæðið og hætti dularfulli maðurinn þá að eiga við það sem var í skottinu og faldi sig í bílnum sínum.
Þegar hinn bíllinn var farinn aftur steig hann út úr bílnum og hélt áfram að eiga við það sem var í skottinu. Þá var öðrum bíl ekið inn á hafnarsvæðið og aftur faldi maðurinn sig. Þegar bílnum var ekið af hafnarsvæðinu steig maðurinn aftur út úr bílnum og gekk að skottinu og henti einhverju í sjóinn. Síðan þurrkaði hann skottið með klút sem hann henti síðan í sjóinn.
Þetta fannst stýrimanninum grunsamleg hegðun og ákvað að vinda sér að manninum. „Hvað ertu að gera?“ spurði hann. „Hvað kemur þér það við?“ spurði hinn á móti og bætti við að hann væri að bíða eftir húsverðinum sínum. „Var það hann sem þú kastaðir í sjóinn?“ spurði stýrimaðurinn þá.
Þetta fór illa í dularfulla manninn sem settist inn í bílinn sinn og tætti af stað. Stýrimaðurinn náði þó að skrifa bílnúmerið hjá sér og lagði á minnið að bíllinn líktist Mercedes og var „fílabeinslitaður“.
Hann lét þýsku lögreglunni þessar upplýsingar í té. En þar á bæ fengu menn þær ekki alveg til að passa. Skráningarnúmerið var ekki á bíl með „fílabeinslit“ heldur grænum lit.
Þá áttaði stýrimaðurinn sig á slæmum mistökum sem hann hafði gert. Daginn sem hann sá bílinn á höfninni í Hanstholm hafði bíl verið ekið á bílinn hans og hann hafði skrifað skráningarnúmerið á honum hjá sér. Hann var því með tvo miða með skráningarnúmerum, sinn eiginn og þann sem hann ætlaði að láta lögregluna fá. En fyrir mistök lét hann lögregluna fá rangan miða og henti hinum.
Lögreglan taldi sig hafa verið komna á slóð morðingjans en svo var ekki. Hún var nánast á byrjunarreit.
Rúmum mánuði eftir að stýrimaðurinn hafði séð bílinn á hafnarsvæðinu gaf annar Þjóðverji sig fram og sagðist hafa fundið svolítið undarlegt í ruslatunnu á hvíldarstæði nærri Vorupør daginn sem stýrimaðurinn hafði séð bílinn á hafnarsvæðinu.
Í ruslatunnunni voru hálfbrunnin skjöl. Á greiðslumiða stóð „Helga Casu“ og heimilisfang í Braunschweig sem er lítill bær í Niedersachsen.
Skömmu síðar gaf sjómaður sig fram við lögregluna og sagðist hafa séð mannshöfuð á floti í innsiglingunni í höfninni í Hanstholm. Höfuðið fannst aldrei en gengið var út frá því að það væri höfuðið af Helgu.
Danska og þýska lögreglan reyndu nú að komast að hver Helga var. Hún reyndist eiga litla hárgreiðslustofu í heimabæ sínum. Hún bjó ein og varð sér úti um aukatekjur með því að stunda vændi. Hún átti son með ítölskum manni. Sonurinn bjó hjá föður sínum á Ítalíu.
Systir Helgu sagði að fjölskyldan hefði ekki heyrt frá henni síðan 17. ágúst en þá sagðist hún vera á leið til Ítalíu að heimsækja son sinn. En Helga kom aldrei þangað og fjölskyldan tilkynnti þýsku lögreglunni um hvarf hennar þann 11. september.
Eftir að hafa yfirheyrt fjölda fólks komst lögreglan að þeirri niðurstöðu að Helga hefði hitt Hans Günther Stumpe, 50 ára, skömmu áður en hún hvarf. Vinir hennar sögðu hann hafa verið fjármálaráðgjafa hennar og að hann hefði aðstoðað hana við að verða sér úti um töluvert háa upphæð að láni.
En það fylgdi einnig sögunni að hann væri ekki allur þar sem hann væri séður. Síðan kom í ljós að hann var sérstaklega áhugaverður í tengslum við rannsókn málsins.
Lögreglan komst að því að Hans átti fílabeinslitaða Mercedes bifreið og hann var því kallaður til yfirheyrslu. Hann sagðist þekkja Helgu en staðhæfði að hann væri aðeins fjármálaráðgjafi hennar.
Hann sagðist hafa verið einn í veiðiferð í Thy frá 17. til 25. ágúst og hefði leigt sumarhús við Ærenprisvej 18 í Vorupør í gegnum leigumiðlun.
En hann gerði mistök sem urðu honum að falli.
Það kom í ljós að sumarhúsið á Ærenprisvej hafði verið leigt út „svart“ af eiganda þess. Lögreglan gat sýnt fram á að Hans hafði leigt tvö sumarhús á þessum tíma og það þótti mjög grunsamlegt.
Hitt sumarhúsið var á Delfinvej og það hafði Hans leigt í gegnum leigumiðlun. Í því fundu sérfræðingar lögreglunnar fjölda vísbendinga. Fingraför voru á veggjum og blóð í svefnherberginu. Ekki var þó hægt að sanna að blóðið væri úr Helgu.
Fjölskylda, sem hafði verið í sumarhúsinu við hliðina, sagði lögreglunni frá dularfullum mannaferðum í og við sumarhúsið. Þann 17. ágúst sáu þau ljósleita Mercedes bifreið koma að húsinu, í henni voru karl og kona. Þau gengu inn í húsið og drógu fyrir.
Gardínurnar voru ekki dregnar frá í eitt einasta skipti. Konuna sáu þau aðeins einu sinni. Þess utan tóku þau eftir því að maðurinn fór frá sumarhúsinu dag einn og var bifreiðin full af sængurfatnaði og dýnur voru á toppnum.
Eiginkona Hans sagði lögreglunni að skipt hefði verið um áklæði í bifreiðinni eftir að hann kom heim frá Danmörku. Hún sagði einnig að hann hefði getað greitt niður hluta af skuldum sínum og vildi svo til að upphæðin var sú sama og Helga hafði fengið að láni.
Lögreglan var sannfærð um að Hans hefði myrt Helgu. Kenning hennar var að hún hefði verið ástkona hans og að hann hefði boðið henni í sumarhúsaferð. Helga hafi verið erfið viðureignar og hann hafi verið orðinn þreyttur á henni.
Hún hefði hótað að segja eiginkonu hans frá sambandi þeirra. Af þeim sökum hefði hann ákveðið að losa sig við hana og vonaðist til að hann kæmist upp með það, meðal annars með því að fá Helgu til að skrifa bréf þar sem hún gaf í skyn að hún væri á leið til Ítalíu að heimsækja son sinn.
Hann myrti hana í sumarhúsinu og hlutaði líkið í sundur og losaði sig síðan við líkhlutana.
Hann neitaði sök þegar hann var yfirheyrður og skipti engu hvað gögn lögreglan lagði fyrir hann og stóð fastur á því að lögreglan væri að yfirheyra rangan mann.
En þrátt fyrir að hann hafi neitað sök dæmdi dómstóll í Braunschweig hann í ævilangt fangelsi í desember 1986.
Hann fékk blóðtappa 1998 og var í framhaldi af því metinn óhæfur til að sitja lengur í fangelsi og var því látinn laus. Hann kvæntist á nýjan leik og settist að í Leipzig.