Konan, Veronica Hilda Theriault, fékk vinnu sem yfirmaður upplýsingamála hjá forsætisráðuneytinu í Suður-Ástralíu árið 2017. Veronica átti að fá ágætislaun, eða rúmar 20 milljónir króna á ári. Eftir að hún hafði starfað í einn mánuð kom í ljós að hún hafði sagt ósatt á starfsumsókn sinni og logið bæði til um menntun og starfsreynslu. Þá skáldaði hún umsagnir fyrrverandi yfirmanna.
Veronica bar því við fyrir dómi að hún væri með geðhvarfasýki og kvaðst dómarinn í málinu, Michael Boylan, taka tillit til þess að hluta. Niðurstaðan var þó 25 mánaða fangelsi og þarf Veronica að sitja inni í að minnsta kosti tólf mánuði áður en hún getur sótt um skilorð. Boylan sagði að glæpurinn væri alvarlegur, ekki síst í ljósi þess að hún hafði greiðan aðgang að ýmsum trúnaðarupplýsingum í starfi sínu.