Omry Abraham er frá Ísrael, á ættir að rekja til Marokkó og Íraks og ólst upp við ríka krydd- og matarmenningu sem hefur fylgt honum alla tíð. „Ég fór á kryddmarkaði með mömmu minni og ömmu þar sem krydd var keypt eftir vigt í poka, það dugðu ekki til svona litlir staukar,“ segir Omry en réttirnir hans eru svo sannarlega við hæfi nú þegar kalt er úti og nístingkuldinn læðist inn.

Omry er maðurinn bak við Kryddhúsið en hann og eiginkona hans, Ólöf Einarsdóttir, eru eigendur þess og vita að góð krydd gera gæfumuninn þegar við erum að elda og toppa máltíðina með framandi bragði sem kitlar bragðlaukana. „Íslenskt hráefni er mjög gott og það er svo gaman að elda úr því og toppa með góðum kryddum,“ segir Omry og veit að uppruni og gæði krydda skiptir líka máli sem og ástríðan fyrir matargerð. Vinnudagarnir hans fara flestir í að útbúa kryddblöndur og smakka til, sem er draumur fyrir Omry. Omry framreiddi syndsamlega góðan dögurð í þættinum Matur og heimili á Hringbraut á sínum tíma sem sló rækilega í gegn og var einn sá vinsælasti á liðnu ári. Þessi dögurður á vel við á köldum vetradögum  og því vel við hæfi að birta uppskriftina hér ásamt meðlæti sem Omry mælir með.

Shakshuka

fyrir 4-6

½ rauð paprika, skorin í bita

3 stk. hvítlauksgeirar, skornir smátt eða kramdir

Ferskt chili skorið smátt (eða chili-duft) að smekk hvers og eins

6-8 tómatar, gerið kross í tómatana og leggið í heitt vatn í nokkrar mínútur. Þá er auðvelt að afhýða þá. Tómatarnir því næst skornir í bita.

1 msk. marokkóskt fiskikrydd Kryddhússins

½ msk. cumin, malað

½ msk. paprika, möluð

Salt og pipar eftir smekk

1 msk. tómatpúrra

½-1 msk. hrásykur/hunang

6-8 stk. egg

Lúkufylli af ferskri steinselju

Svitið paprikuna ásamt fersku chili á heitri pönnu með aðeins af olíu í 3-4 mínútur. Því næst er hvítlauknum bætt út í, passið að brenna hann ekki og þar næst er kryddinu bætt saman við. Tómatpúrran hrærð út í og að lokum fersku tómatarnir. Nauðsynlegt er að setja sætu til dæmis hrásykur/hunang til að vinna á móti sýrunni í tómatpúrrunni.

Allt látið malla í góða stund og hrært í. Gott er að setja aðeins af vatni út í sósuna ef hún verður of þykk. Smakkið ykkur til með kryddið ásamt salti, pipar og sætu (hrásykri/hunangi). Lækkið hitann og látið malla undir loki í góða stund og bætið vatni út í ef þarf. Þegar sósan er tilbúin til að bera fram brjótið þá eggin varlega út í, eitt í einu og sjóðið þau í sósunni í nokkrar mínútur eða þar til þeirri áferð er náð sem óskað er eftir. Gott er að hafa þau aðeins linsoðin. Stráið ferskri steinselju yfir allt saman og berið fram með nýbökuðu brauði.

Hummusinn hans Omry

250 g þurrkaðar kjúklingabaunir

1 tsk. matarsódi

1 tsk. lyftiduft

Cumin, malað

3-4 msk. tahini (sesamsmjör)

Safi úr sítrónu

Za´atar kryddblanda Kryddhússins

Kjúklingabaunirnar og teskeið af matarsóda látið liggja í miklu vatni í 10-12 tíma. Þær eru svo soðnar (baunirnar munu tvöfaldast eftir að hafa verið útvatnaðar) í miklu vatni með 1 teskeið af lyftidufti, í 1,5 –2 klukkustundir eða þar til mjúkar. Fleytið annað slagið froðuna af í suðunni. Passið að það sé alltaf nóg af vatni í pottinum og sjóðið án loks.

Takið baunirnar í sigti úr vatninu (ekki henda soðvatninu). Kælið þær svolítið eða niður í stofuhita og setjið í matvinnsluvél. Gott að geyma lúkufylli af soðnum baunum fyrir skreytingu/framsetningu. Maukið baunirnar í 1-2 mínútur í matvinnsluvél, ásamt 2-3 hvítlauksgeirum, safa úr ½ sítrónu, 1 teskeið möluðu cumin, 3-4 góðum matskeiðum af tahini, sjávarsalti (eða Himalaya) eftir smekk. Allt blandað vel saman. Ef vill má nota soðvatnið frá baununum til að þynna hummusinn út til að fá silkimjúka áferð. Smakkið ykkur til með sítrónusafanum og kryddinu ásamt saltinu.

Setjið hummusinn á disk, fallegt og heilsusamlegt að setja holu í hann og hella ólífuolíu út á og strá Za´atar kryddblöndu Kryddhússins út á ásamt baununum sem voru teknar frá. Borið fram með nýbökuðu brauði. Hummus geymist í lokuðu íláti í ísskáp í 2-4 daga.

Hægt er að sjá þáttinn með Omry hér:

Omry elda shakshuka