fbpx
Fimmtudagur 22.maí 2025
Matur

Þetta borðar Stjörnu-Sævar á venjulegum degi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 27. mars 2021 11:30

Sævar Helgi Bragason.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjörnu-Sævar hefur í mörg ár barist ötullega fyrir bættri vitund landsmanna um loftslagsvána. Ástríða hans fyrir umhverfismálum hefur afgerandi áhrif á mataræði hans og lýsir hann sjálfum sér sem vistkera.

Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðingur og einn ötulasti umhverfisverndarsinni Íslands, lýsir venjulegum degi í lífi sínu.

„Vakna yfirleitt klukkan sjö. Byrja að vinna milli 8-9 en það fer eftir verkefnum dagsins. Vinn á ýmsum stöðum, RÚV, Umhverfisstofnun, Sagafilm, kenni stjörnufræði í MR og vinn líka fyrir sjálfan mig við fyrirlestra, fræðslu, ritstörf og ýmislegt fleira. Ég þrífst á fjölbreyttum verkefnum þótt það sé stundum snúið að halda mörgum boltum á lofti í einu,“ segir Sævar.

„Fyrir COVID stundaði ég reglulega hreyfingu eftir vinnu en datt eins og svo margir úr þeim gír og er að reyna að komast aftur á ról. Sé oftast um kvöldmatinn en eftir hann vinn ég annað hvort meira á kvöldin eða hef það gott með kærustunni minni.“

Vistkerafæði

Sævar fylgir svokölluðu vistkerafæði. „Ég borða svo til allt en fylgi tilteknu mataræði sem kallast vistkerafæði. Því mætti einna helst líkja við Miðjarðarhafsmataræði. Vistkerafæði gengur út á að draga sem mest úr dýraafurðum án þess að hætta alveg að borða þær. Það hefur mjög lágt kolefnisspor og er líka mjög heilsusamlegt. Við Þórhildur kærastan mín erum með Instagram-reikninginn @vistkerar þar sem fylgjast má með tilraunaeldamennsku okkar í þessa átt,“ segir hann.

Aðspurður hvort ástríða hans fyrir umhverfismálum hafi áhrif á mataræði hans svarar Sævar játandi.

„Umhverfismálin hafa afgerandi áhrif á mataræði mitt. Ég borðaði áður eins og meðal-Íslendingur: Kjöt nokkrum sinnum í viku án þess að spá mikið í það. Í dag borða ég kjöt kannski einu sinni í viku og þá aðallega ef ég fer eitthvert út að borða. Kjöt er aldrei í boði heima við. Við borðum fisk einu sinni til tvisvar í viku og aðra daga eru ekkert nema geggjaðir grænmetisréttir á boðstólum. Verð að viðurkenna að ég er mjög veikur fyrir villibráð en leyfi mér hana aðeins á hátíðisdögum,“ segir hann.

Mikið í eldhúsinu

Sævari líður vel í eldhúsinu og elskar að prófa sig áfram. „Ég er ástríðukokkur sem elskar að borða. Dýrka fátt meira en að hanga í eldhúsinu allan liðlangan daginn að prófa eitthvað nýtt og skemmtilegt og stundum furðulegt, innblásinn af norrænni náttúrumatargerð stjörnukokka eins og Gunnars Karls á Dill eða René Redzepi á Noma,“ segir hann og heldur áfram:

„Við dýrkum að bjóða vinafólki okkar í mat og bjóðum þá eingöngu upp á grænmetis- og sjávarrétti, helst eitthvað úr nærumhverfinu og íslenskri náttúru. Mér finnst miklu skemmtilegri áskorun að elda ljúffengan grænmetismat en kjöt sem er alltaf nokkurn veginn eins. Skemmtilegast finnst mér að elda eitthvað úr engu, það er taka til í kæliskápnum, búrskápnum og nýta afganga í að töfra fram eitthvað frábært. Svo finnst mér fátt skemmtilegra en að para matinn við hágæða vín.“

Matseðill Sævars

Morgunmatur

Kaffibolli. Fasta til kl. 12.

Hádegismatur

Mismunandi eftir dögum, borða það sem er í boði í mötuneytum hverju sinni, þá aðeins fiskinn eða grænmetisréttinn. Eða fæ mér vegan samloku frá Jömm.

Millimál

Flatkaka með hummus verður oftast fyrir valinu, helst silkimjúkum heimagerðum hummus.

Kvöldmatur

Fiskur, helst bleikja eða þorskur, með fullt af grænmeti. Annars er tófú í hverri viku hjá okkur í mexíkóska, indverska og aðra asíska rétti.

Kvöldsnarl

Reyni að borða ekkert eftir kl. 20 en ef við viljum hafa það notalegt þá er það súkkulaði, kannski bjór eða vínglas og ostar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
18.01.2025

Tveggja barna móðir frá Þorlákshöfn átti næstbesta borgarann

Tveggja barna móðir frá Þorlákshöfn átti næstbesta borgarann
Matur
14.01.2025

Piparkökudeigsís er nýjung frá Skúbb

Piparkökudeigsís er nýjung frá Skúbb
Matur
06.10.2024

Fat af soðnum vélindum vekur mikið umtal – „Þetta verð ég að smakka“ – „Heima fór þetta í hundana í bókstaflegri merkingu“

Fat af soðnum vélindum vekur mikið umtal – „Þetta verð ég að smakka“ – „Heima fór þetta í hundana í bókstaflegri merkingu“
Matur
17.09.2024

Skál komin á framtíðarheimili í hjarta miðborgarinnar

Skál komin á framtíðarheimili í hjarta miðborgarinnar