Þóra Sigurðardóttir ritstjóri Matarvefs mbl.is deilir hér með okkur sínum uppáhalds 5 eldhústækjum. Þóra er gift matreiðslumanninum Völundi Snæ svo það er ljóst að það er ekki keypt hvað sem er í þeirra eldhús.
Poppvélin.
Ég rændi henni af stálpuðum guðsyni mínum. Ég elska popp og með poppvélinni eru brunaslys úr sögunni og ég poppa eins og vindurinn.
Sprullarinn.
Hann heitir það pottþétt ekki en er alltaf kallaður það á mínu heimili. Með þessu undratæki er allt kaffi á heimiliun smjörþeytt, kakó blandað og rjómi í neysluskömmtum þeyttur. Minn var gjöf frá tengdamömmu sem er hagsýnni en flestir og keypti hann notaðan á einhverjum markaði.
Ankarsrum hrærivélin.
Lang besta hrærivél í heimi. Hún er svo öflug, frábær og falleg að allar aðrar hrærivélar mega skammast sín.
Eldhúshnífarnir.
Eitt það sem fólk klikkar hvað helst á í eldamennsku er að fjárfesta í góðum hnífum. Þú þarft bara einn alvöru hníf en ég á allt frá kínverskri kjötöxi niður í örsmáan forláta japanskan grænmetishníf.
Samlokugrillið mitt.
Foreldrar mínir eiga samlokugrill sem á engan sinn líka og ég er alin upp á dýrindis samlokum sem að sumum finnast reyndar ekkert sérlega lystugar. Ég fjárfesti loksins í einu slíku grilli og vil meina að lífið sé ennþá skemmtilegra fyrir vikið.