Þyngdartap söngkonunnar Adele hefur vakið gríðarlega mikla athygli. Hún hefur misst um 44 kíló og sagði fyrrverandi einkaþjálfari hennar, Camila Goodis, aðalástæðuna vera mataræðið.
Í viðtali við breska sjónvarpsþáttinn Lorraine sagði Camila að Adele hafi aðeins borðað um þúsund hitaeiningar á dag, helmingi minna en er ráðlagt fyrir kvenmenn og drukkið mikið af grænum söfum.
Adele borðaði mikið af plöntumiðuðu fæði, svo sem grænkál og bókhveiti, og fylgdi svo kölluðu Sirtfood-mataræði. Samkvæmt Healthline er mataræðið gott til að létta sig um nokkur kíló yfir stuttan tíma en sé ekki gott til langtíma. Adele hefur aldrei staðfest eða neitað að hún hafi fylgt eða fylgi ennþá mataræðinu.
Einn aðdáandi Adele var ákveðinn að léttast eins og söngkonan og ákvað að fylgja sama stranga mataræði. YouTube-áhrifavaldurinn Kayla Nelson ákvað að prófa mataræðið í viku. Hún segir að yfir þann tíma hafi hún fengið hausverk, svima og verið með hungurverki.
Hún deildi upplifun sinni af mataræðinu í myndbandi á YouTube sem hefur fengið yfir milljón áhorf.
Kayla drakk tvo til þrjá græna safa á dag. Í söfunum var grænkál, sellerí og epli. Hún þurfti einnig verulega að takmarka hitaeiningarnar sem hún innbyrti í 1000-1500 kaloríur á dag.
Kayla endaði með að missa 2,7 kíló en það var svo sannarlega ekki þess virði. Í fyrsta lagi var þetta örugglega vatnsþyngd sem hún missti. „Sama hversu mikið þú léttist á einni viku er 99 prósent vatnsþyngd,“ segir hún.
Í öðru lagi leið henni hörmulega á meðan þessu stóð. Hún var orkulaus og fékk mígreni því hún var að innbyrða of lítið af hitaeiningum. Hún reyndi að æfa pílates á meðan þessu stóð, eins og Adele gerði, en átti erfitt með það vegna orkuleysis.
Kayla segist ekki mæla með Sirtfood-mataræðinu og bendir á að það sé til fjöldinn allur af heilbrigðari mataræðum sem fólk getur fylgt ef það vill léttast.