fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Matur

Það sem Sigrún Birta flugmaður og höfundur borðar á venjulegum degi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 8. apríl 2019 12:00

Sigrún Birta Kristinsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigrún Birta Kristinsdóttir var að gefa út bókina Byggt á plöntum. Hún heldur einnig úti Instagram-síðunni @byggtaplontum.

Byggt á plöntum er uppskriftarbók í rafrænu formi sem inniheldur heilnæmar en fyrst og fremst bragðgóðar uppskriftir unnar frá grunni að mestu eða öllu leyti. Fæðan í bókinni er án alls viðbætts sykurs, glúteins og dýraafurða. Sigrún Birta er vegan og frá því að hún byrjaði sitt ferðalag í átt að plöntumiðuðum lífsstíl hefur hún fundið fyrir mikilli þörf að sýna fram á hversu einfalt það getur verið að borða hollan og góðan mat.

DV vildi vita hvað Sigrún Birta borðar á venjulegum degi. Reglulega spyrjum við grænkera hvað þeir borða og deilum með lesendum.

Sjáið hvað Hulda B. Waage kraftlyftingakona, Árni Björn CrossFittari, Þórdís Ólöf matarbloggari, Úrsúla Hanna fyrrum fegurðardrottning og Anna Guðný heilsumarkþjálfi borða á venjulegum degi.

Byggt á Plöntum eftir Sigrúnu Birtu Kristinsdóttur.

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér?

„Dagarnir mínir eru mjög misjafnir. Undanfarið ár starfaði ég sem flugmaður hjá WOW Air og það gat oft verið erfitt að halda eðlilegri hreyfingar- og matarrútínu vegna þeirrar vinnu. Ég bjó þó til mína eigin rútínu sem hentaði vel og þá sérstaklega á vinnudögum. Ég átti góð frí á milli sem ég gat nýtt í að æfa vel og leika mér í eldhúsinu ásamt því að sinna fjölskyldu, vinum og öðrum áhugamálum. Á frídögum finnst mér gott að byrja daginn snemma á æfingu í World Class eða hreyfingu utandyra,“ segir Sigrún Birta.

Ertu búin að ákveða fyrir fram hvað þú ætlar að borða þann dag eða ferðu eftir tilfinningunni?

„Já, ég er oftar en ekki búin að hugsa fram í tímann hvað og hvenær tíma dags ég borða og hvað þarf að undirbúa fyrir fram eins og að leggja í bleyti (t.d. stálslegna hafra, kasjúhnetur og möndlur). Það verður að viðurkennast að ég er dálítið vanaföst sérstaklega þegar kemur að fyrstu máltíð dagsins og millimáli.“

Hvað hefurðu verið vegan lengi?

„Ég er búin að vera vegan síðan í janúar 2017.“

Hverjir eru uppáhalds vegan próteingjafarnir þínir?

„Mínir helstu próteingjafar eru baunir, hummus, kínóa, tófú, hampfræ, chia fræ og möndlur. Mér finnst einnig mjög gott að bæta örlítið af plöntupróteini út á hafragrautinn minn en það er þó aðallega fyrir bragðið.“

Vegan pönnsur.

Það sem Sigrún Birta borðar á venjulegum degi

Morgunmatur:

Ég fasta yfirleitt til hádegis og þá borða ég fyrstu máltíð dagsins sem þessa dagana er hafragrautur úr stálslegnum höfrum (steel cut oats) sem ég legg í bleyti kvöldinu áður en ef það einhverra hluta vegna hefur gleymst þá fæ ég mér hefðbundna hafra sem eru líka fínir. Í grautinn bæti ég við plöntupróteini og kanil og toppa með bláberjum, banana og heimagerðri möndlumjólk ef ég á hana til.

Millimál:

Milli kl. 14 og 15 fæ ég mér oftast ,,smoothie skál’’ en í hana set ég frosinn kúrbít, banana, frosin jarðaber, möndlumjólk, kanil, kakó og plöntuprótein. Skálina toppa ég með bláberjum, heimalöguðu granóla og hampfræjum.

Kvöldmatur:

Kvöldmaturinn aftur á móti er mjög fjölbreyttur og sjaldnast skipulagður fram í tímann. Ég er mjög hrifin af mexíkóskri matargerð og þykir ,,tacos’’ og ,,guacamole’’ mjög gott. Mér finnst líka gott að skera niður grænmeti og marinera í kryddlegi eða harissa mauki, baka og bera fram með til dæmis vegan borgara.  Góð grænmetissúpa, indverskt dahl, tortilla pizza, vefja með falafel og hummus og vegan moussaka klikkar sjaldan svo fátt eitt sé nefnt.

Eftir kvöldmat fæ ég mér nánast undantekningalaust 1-2 hráfæðisbita sem ég á alltaf til í frysti og það slær vel á sykurpúkann sem á það til að poppa upp á kvöldinn. Svo finnst mér það alveg mega koma fram að ég er mikill poppari og finnst mjög gott að poppa ef sá gállinn er á mér.

Sigrún Birta deilir ljúffengri uppskrift með lesendum.

Heslihnetu súkkulaðismjör.

Vegan pönnsur með heslihnetu súkkulaðismjöri

Vegan pönnukökur innihald:

  • 3 dl. haframjöl
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 2 tsk. kanill
  • 2 msk. hörfræ ,,egg’’ (2 msk. fínmöluð hörfræ + 6 msk vatn)
  • Einn vel þroskaður banani, stappaður
  • 4 dl. möndlumjólk
  • 1 msk. eplaedik
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 2 msk. safi úr sítrónu
  • 2 msk. rifinn sítrónubörkur
  • 1/2 tsk. salt

Aðferð:

  1. Tveimur msk. af fínmöluðum hörfræjum ásamt 6 msk. af vatni er blandað saman og látið standa í 10-20 mínútur.
  2. Fínmalið hafra niður í matvinnsluvél þar til hafrarnir eru orðnir að fínu hveiti. Afganginum af þurrefnunum er blandað saman í skál.
  3. Hörfræ ,,eggi’’, banana, vanilludropum, mjólk ásamt safa og berki úr heilli sítrónu er hellt í skál með þurrefnunum og öllu blandað saman þar til meðalþykkri áferð á deiginu hefur verið náð.
  4. Steikið pönnukökurnar á meðalhita og toppið með heimagerðu heslihnetu súkkulaðismjöri og berjum.

Heslihnetu súkkulaðismjör innihald:

  • 2 bollar heslihnetur
  • 2 msk. kókospálmasykur
  • 1 tsk. vanilludropar
  • 3 msk. kakó
  • 1/2 tsk. salt

Aðferð:

  1. Ristið heslihneturnar við 170°c í 12 mínútur.
  2. Losið hýðið af hnetunum með því að vefja þeim inn í viskastykki og ,,nuddið“ hýðið af.
  3. Blandið öllum hráefnum saman í öflugum blandara eða matvinnsluvél þar til súkkulaðismjörið hefur náð silkimjúkri áferð.
  4. Stöðvið vélina á nokkurra mínútna fresti og skafið af hliðunum.
  5. Hellið heslihnetusmjörinu í krukku og geymið í kæli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Matur
20.12.2023

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi

Grillaður hunangshjúpaður hestshaus með sinnepsfræjum, villihvítlauk og blóðbergi
Matur
07.12.2023

Hátíðarbakkinn

Hátíðarbakkinn
Matur
04.11.2023

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu

Djúsí beikonborgari með mozzarella fyllingu
Matur
03.11.2023

Kjúklingalasagna sem allir elska

Kjúklingalasagna sem allir elska
Matur
20.10.2023

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk

Salat með byggi, sætum kartöflum, graskersfræjum og hvítlauk
Matur
19.10.2023

Bragðmikil sveppasúpa

Bragðmikil sveppasúpa