fbpx
Föstudagur 07.ágúst 2020
Matur

Dagur í súkkulaðiverksmiðju: „Auðvelt að réttlæta það að háma í sig sælgæti á vinnutíma“

Íris Hauksdóttir
Laugardaginn 7. desember 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri sælgætisgerðarinnar Nói Síríus, segir enga tvo daga í starfi hans vera eins. Hann bauð blaðamanni og ljósmyndara fylgjast með framleiðslu súkkulaðiverksmiðjunnar einn ískaldan dag í desember þar sem einn annasamasti tími ársins er genginn í garð.

„Ég kem frá Akureyri og að loknu markaðsfræðinámi í Danmörku hóf ég störf sem markaðsstjóri Kjarnafæðis. Ég var þar í skemmtilegu starfi með frábæru fólki, en þegar konan mín, þekkjandi vel djúpstæðan áhuga minn á súkkulaði og öðru sælgæti, tilkynnti mér með þessum orðum „the mothership is calling“, og sagði í kjölfarið að það væri verið að auglýsa eftir mér ákvað ég að kanna málið til hlítar. Þar var um að ræða starfsauglýsingu frá Nóa“, útskýrir Auðjón þegar talið berst að tildrögum þess að hann hafi fundið sinn farveg hjá sælgætisgerðinni. „Þetta virtist allt saman alveg vera skrifað í skýin og í kjölfarið fluttum við suður. Ég hóf störf við markaðsmál og vöruþróun hjá þeim, eða alveg þar til fyrir nokkrum árum að forveri minn, Kristján Geir, leitaði á ný mið, að ég tók við núverandi starfi sem framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs. Þar stýrir maður eða kannski öllu heldur aðstoðar maður óopinbert landslið sölu- og markaðsfólks og þjónustu, sem myndar hinn ótrúlega öfluga „Nóaher“, ásamt þátttöku í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.“

Nói ristir djúpt í íslensku þjóðarsálina
Og Auðjón segir vinnudagana fjölbreytta þrátt fyrir að ákveðnir liðir séu alltaf í föstum skorðum. Dagurinn sem við fáum að fylgjast með sé því einn af ótal öðrum. Spurður hvað það hafi verið sem vakti áhuga hans á starfinu segist Auðjón hafa orðið skemmtilega undrandi á þeim djúpu tilfinningum sem Íslendingar bera til fyrirtækisins. „Já, ég viðurkenni, það kom mér á óvart hversu djúpt fyrirtækið ristir í íslensku þjóðarsálina sem og þeirra vara sem við framleiðum. Maður áttar sig fljótt á að fólk upplifir okkar vörur sem hálfgerða þjóðareign, eitthvað sem hefur fylgt Íslendingum í gegnum þykkt og þunnt, á flestum hátíðarstundum, svo sem jólum, páskum og afmælum. Þannig fáum við margar sögur frá viðskiptavinum af skemmtilegum minningum þeirra með Nóa-vörum og sérstaklega er gaman að heyra þegar sögurnar lýsa skemmtilegum hefðum sem færast milli kynslóða. Um leið setur þetta okkur í ákveðið hlutverk, okkur er treyst fyrir að halda uppi háum gæðastöðlum og erum fljót að fá athugasemdir ef einhverjar breytingar verða. Sem dæmi um það má nefna þegar við hættum með vöru sem á sér stað í hjarta fólks. Ég veit ekki hversu oft ég hef verið spurður um Bláan Opal og Malta, vörur sem voru með landsmönnum í fleiri áratugi og fólk saknar gífurlega. En á móti kemur líka að við fáum mjög jákvæð viðbrögð við nýjungum, fólk er mjög opið að smakka nýjar vörur frá okkur og reglulega fáum við tillögur að nýjum vörum frá viðskiptavinum, margar sem hafa orðið að veruleika.“

Margt sem gleður sælkera
Nú er framleiðslan talsvert árstíðabundin, en skyldi einhver árstíð eða framleiðsluafurð vera í sérstöku uppáhaldi hjá Auðjóni? „Það eru mikil forréttindi að vinna með margar mismunandi vörur sem tilheyra öllum árstíðum en auðvitað hafa jólin með konfektinu og páskarnir staðið svolítið upp úr. Það er svona tíð þegar allir eru stemmdir til að gleðja sig og sína, þá gleymist svolítið daglegt þras og fólk dettur í gleðigírinn. Í seinni tíð hefur sumarið svo komið sterkt inn, sem mikil gleðihátíð. Á sumrin vilja Íslendingar fá nýtt góðgæti og við byrjum að fá fyrirspurnir strax upp úr áramótum hvað sé næsta sumarkropp og hvenær það komi á markað, fólk er svo spennt. Fyrir sælkera eins og mig eru jólin alltaf mikil hátíð enda er margt sem gleður mig, bæði þegar kemur að vörum frá Nóa sem og öðrum. Það er þó einkum tvennt sem eru jólin fyrir mér, Nóa Konfektflöskurnar og Dökkt Pralín með myntufyllingu. Sumt er bara þannig að jólaljósin kvikna innra með manni.“

Spurður hvaða jólasælgæti njóti mestra vinsælda yfir þennan árstíma segir Auðjón súkkulaðið bera höfuð og herðar yfir allt annað hnossgæti. „Jólin eru sannkölluð súkkulaðihátíð, þar fremst í flokki fer konfektið. Íslendingar eru í bland íhaldssamir og nýjungagjarnir, það eru sumir hlutir sem alltaf verða að vera, Nóa Konfekt og Macintosh, en svo er það alveg dásamlegt hvað við tökum nýjum vörum opnum örmum. Við höfum undanfarin ár komið með jólanýjungar og margar þeirra orðnar fastur liður hjá landanum, til dæmis Síríus súkkulaði með piparkökum, sem við komum með fyrir um það bil fimm árum en salan eykst bara ár frá ári. Hjá mörgum er þetta nefnilega orðið ómissandi í jólaundirbúningnum.“

Konfektið fer ekki í hundana
Auðjón viðurkennir að það sé freistandi í dagsins amstri að starfa hjá fyrirtæki þar sem auðvelt er að háma í sig sælgæti í rannsóknarskyni. „Það er þvílíkur bónus þegar vinna manns og áhugi fara saman. Að því sögðu er auðvelt að réttlæta það að háma í sig sælgæti á vinnutíma, ég held ég þurfi ekki að segja meira en það. Á okkar heimili er svo ákveðin regla að láta konfektið aldrei fara í hundana. En það gerðist fyrir nokkrum árum að hundurinn okkar, sem alla jafna er mjög hlýðinn og lætur algjörlega mat vera sem honum er ekki boðinn, tók sig allt í einu til um jólanóttina og kláraði hreinlega úr konfektskálinni, álpappírinn með og allt. Ekki það að þetta sýndi jú bara mjög góðan smekk en hins vegar eins og flestir hundaeigendur þekkja, þá eru sætindi alls ekki góð fyrir hunda. En sem betur fer tók hann sig á og lét allt matarkyns algjörlega vera, nema það sem honum var boðið, og við ályktuðum að hann hefði lært af þessu, ja, þar til næstu jól, þá endurtók sagan sig, hann hámaði í sig jólakonfektið með bestu lyst þegar við vorum farin að sofa. Síðan þá höfum við þurft að fela konfektið um jólin, því þegar líður á aðfangadagskvöld, þá fer hann að sýna konfektinu óþarfa athygli. Að því sögðu er það jú oft þannig að við tengjum sælgæti við ákveðna nostalgíu, það kallar fram góðar minningar. Oft tengist það líka ljúfum viðburðum úr lífi fólks og í kjölfarið skjóta minningar upp kollinum þegar maður tekur fyrsta bitann. Við sjáum þetta einna best endurspeglast í kringum jólahátíðina og þess vegna er svo ljúft að fá að vera partur af þessari sögu, þegar við sjáum fyrstu konfektmolana streyma fram úr súkkulaðivélinni.“

 

7.30 Sötrað te, reynt að klára tölvupósta gærdagsins, yfirfara reikninga og greining á gögnum.

8.30 Daglegur sviðsfundur, þar sem markaðs- og sölusviðið kemur saman, farið yfir stöðuna, mælingar, við mærum hvert annað fyrir góðan árangur og göngum peppuð og klár inn í daginn.

8.45 Daglegur fundur með sölustjórum, farið yfir væntanlega sigra dagsins og önnur verkefni sem liggja fyrir.

9.00 Daglegur fundur með framkvæmdaráði, mælingar og dagleg verkefni.

9.20 Vinnufundur með markaðsstjóra, allt að verða klárt fyrir jólahátíðina 2020.

9.40 Morgunmatur í Nóa, hafragrautur, og landsmálin leyst í góðum hóp og létt yfirferð á meistaradeildinni í fótbolta.

10.00 Fundur með fjölmiðli, kynning á tækniþróun og breytingu á neytendahegðun.

11.15 Vinnutörn með sölustjóra, leyst úr nokkrum áríðandi verkefnum.

11.50 Rækt og hádegismatur. Auðunn kokkur í Nóa nær enn einu sinni að toppa sig, nú með laxatortillum.

13.10 Smakkað á vöruprufum, hrikalega góðum, tekin tölvupósttörn og önnur dagleg mál.

13.50 Fundur með forstjóra, farið yfir stöðuna og brýnustu mál.

14.10 Fundur með samfélagsmiðlafyrirtæki, skoðaðir möguleikar í notkun áhrifavalda erlendis fyrir útflutning.

15.00 Vinnutörn með markaðsstjóra, farið yfir Kellogg‘s- og Pringles-mál.

15.40 Tekið smá aukasmakk á vöruprufunum, maður getur víst aldrei verið of viss. Síðasti tebolli dagsins tekinn og reynt að klára nokkur áríðandi verkefnin sem út af standa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Matur
30.06.2020

Bjóðið fráskildum vinum ykkar í mat

Bjóðið fráskildum vinum ykkar í mat
Matur
27.06.2020

Bestu brönsstaðir borgarinnar – Þessir þykja skara fram úr

Bestu brönsstaðir borgarinnar – Þessir þykja skara fram úr
Matur
23.06.2020

Þetta er næst versta pítsaáleggið á eftir ananas segir Guðni Th.

Þetta er næst versta pítsaáleggið á eftir ananas segir Guðni Th.
Matur
22.06.2020

Eitt furðulegasta tilboðið á Íslandi – 50% afsláttur ef þú uppfyllir eitt skilyrði

Eitt furðulegasta tilboðið á Íslandi – 50% afsláttur ef þú uppfyllir eitt skilyrði
Matur
08.06.2020

Svona leit McDonalds út á níunda og tíunda áratugnum

Svona leit McDonalds út á níunda og tíunda áratugnum
Matur
07.06.2020

Þetta borðar Edda Hermanns á venjulegum degi

Þetta borðar Edda Hermanns á venjulegum degi
Matur
02.06.2020

Skerðu vatnsmelónuna á skotstundu með tannþræði

Skerðu vatnsmelónuna á skotstundu með tannþræði
Matur
01.06.2020

Fimm ráð sem gera þig að betri grillara

Fimm ráð sem gera þig að betri grillara