Söng- og leikkonan Vanessa Hudgens hefur talað mikið um að hún sé á ketó mataræðinu og að hún fasti. Ný mynd á Instagram-síðu hennar hefur hins vegar hleypt illu blóði í aðdáendur hennar.
Á myndinni sést Vanessa auglýsa Slim Fast-hnetusmjörsnammi sem hún segir henti ketóliðum vel, þar sem Slim Fast sé sykur- og kolvetnalaust. Aðdáendur hennar eru hins vegar foxillir yfir auglýsingunni og telja hana stuðla að óheilbrigðri sjálfsímynd.
„Vinsamlegast hættu að auglýsa óheilbrigðar aðferðir til að léttast,“ skrifar einn fylgjandi stjörnunnar og annar bætir við: „Ég er örlítið vonsvikin með þig drottning. Þetta er ekki málið.“
Þá eru einhverjir sem telja að kolvetni séu nauðsynleg fyrir líkamann og því óánægðir með auglýsinguna.
„Líkami þinn þarf kolvetni. Líkami þinn þarf sykur. Hættu að ýta undir átraskanir og gefa í skyn að ungar stúlkur þurfi að svelta sig til að vera grannar eins og þú,“ skrifar einn fylgjandi. „Fólk – haldið ykkur frá KETÓ. Bara ekki borða eftir því,“ skrifar annar.