Listasafn Árnesinga var fyrsta listasafnið á Íslandi sem tók til starfa utan höfuðborgarinnar. Safnið geymir um það bil 550 verk sem því hafa verið gefin í gegnum árin, en upphafið má rekja til frumkvöðulsins Bjarnveigar Bjarnadóttur.

„Bjarnveig var Árnesingur og ötull listaverkasafnari. Árið 1963 ákvað hún að gefa sveitungum sínum safn sitt. Það má segja að Bjarnveig ásamt sonum hennar Lofti og Bjarna Markúsi hafi lagt hornsteininn að listasafninu með þessari rausnarlegu gjöf árið 1963. Gjöfin samanstóð af 41 listaverki og héldu mæðginin áfram að gefa safninu verk fram til ársins 1986, þá taldi safnið 75 listaverk,“ segir safnstjórinn Kristín Scheving.

„Bjarnveig var frænka Ásgríms Jónssonar þannig að hún var með listina í blóðinu. Henni fannst mikilvægt að sveitir landsins ættu sín listasöfn og talaði um það í viðtölum. Meðal verkanna sem hún gaf má finna verk merkustu meistara íslenskrar málaralistar á fyrri helmingi tuttugustu aldar. Þeirra á meðal 19 málverk eftir Ásgrím Jónsson og verk eftir Kjarval, Gunnlaug Scheving, Jón Stefánsson og Þorvald Skúlason meðal annarra,“ heldur Kristín áfram.

„Smekkur Bjarnveigar er eftirtektarverður sem og skynbragð hennar á nýja strauma eins og birtist í síðari gjöfum hennar. Hún lagði sig eftir verkum abstraktlistamanna, eftir Hörð Ágústsson og Kjartan Guðjónsson, en lagði líka mikið upp úr að gefa verk eftir íslenskar konur, má hér helst nefna Björgu Þorsteinsdóttur, Þorbjörgu Höskuldsdóttur og Ragnheiði Jónsdóttur.“

Bjarnveig gaf Árnesingum safn sitt. Birt með leyfi Þjóðminjasafnsins.

Gaf málverkin með heilum hug

Kristín segir að Bjarnveig, sem var fædd árið 1905, hafi verið ættuð af Suðurlandi, móðir hennar var frá bænum Skipum nálægt Stokkseyri og faðir hennar var Skaftfellingur. Móðir hennar og Ásgrímur Jónsson voru systrabörn og hún var þar að auki skyld Einari Jónssyni myndhöggvara í móðurætt.

„Heimili hennar var þakið listaverkum að því marki sem veggjarými leyfði og var það ekki algengt á þeim árum að einstæðar mæður verðu öllu sparifé sínu í listaverk,“ segir Kristín.

„Í ræðu sem hún hélt við Lista- og byggðasafn Árnessýslu árið 1974 sagði hún að málverkin væru gefin af heilum hug og með ósk um að gjöfin verði til menningarauka fyrir sýsluna og lyftistöng fyrir komandi kynslóðir.“