fbpx
Mánudagur 28.nóvember 2022
HelgarmatseðillMatur

Dýrðlegur helgarmatseðill í boði Jakobs á Jómfrúnni með haustívafi

Sjöfn Þórðardóttir
Föstudaginn 23. september 2022 16:00

Matgæðingurinn Jakob Einar Jakobsson eigandi Jómfrúarinnar á heiðurinn af þessum dýrðlega helgarmatseðli með haustívafi sem steinliggur þegar fyrsta haustlæðgin gleður landann. DV/ERNIR.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jakob Einar Jakobsson rekstrarstjóri og eigandi Jómfrúarinnar, hins rótgróna veitingastaðar í hjarta borgarinnar býður upp á helgarmatseðilinn þessa helgina sem er af betri gerðinni. Jakob töfrar hér fram matseðil sem á vel við haustið. Haustlitirnir í náttúrunni, veðrið og stemningin í loftinu gera það að verkum að ljúft er að kveikja kertaljós heima við og skapa rómantíska stemningu við matargerðina. Réttirnir sem Jakob mælir með eru hinir fullkomnu haustréttir sem öll fjölskyldan getur notið þess að framreiða og snæða saman við kertaljós.

„Haustið er fallegur árstími og líka sá tími sem við fjölskyldan njótum elda saman í eldhúsinu og eiga góðar stundir við matarborðið. Það er eitthvað svo notalegt að njóta góðs matar við kertaljós meðan að haustlægðir láta í sér heyra,“ segir Jakob sem kann svo sannarlega að útbúa ljúffengar kræsingar.

Í forrétt mælir Jakob með graflaxi með sinnepsdillsósu á ristuðu brauði sem steinliggur.

Graflax með sinnepsdillsósu og ristuðu brauði

Eitt stykki laxaflak, ef þið eigið sjálf, til að mynda sem þið veidduð í sumar og grafið eða bara kaupa frábæran tilbúinn graflax út í búð til dæmis frá Norðanfisk, fæst til í Bónus. Hér er uppskrift af aðferð til að grafa sjálf sem Jakob mælir eindregið með.

Graflax

1 kg laxaflak, beinhreinsað og með roði

100 g sjávarsalt

100 g sykur

Svartur pipar

2 búnt ferskt dill

Leggið plastfilmu á borð sem passar fyrir laxaflakið. Blandið saman sjávarsalti og sykri og dreifið þunnu lagi af blöndunni á plastfilmuna. Leggið flakið ofan á með roðhliðina niður og dreifið restinni af saltblöndunni yfir. Merjið annað dillbúntið og leggið ofan á laxinn þannig að það hylji hann vel og pakkið honum þétt í plastfilmu. Setjið laxinn í ílát og geymið í kæliskáp í 1 til 2 daga.

Strjúkið dillið og saltblönduna af flakinu, skolið það snöggt undir rennandi köldu vatni og þerrið. Saxið blöðin af hinu dillbúntinu smátt og dreifið yfir allan laxinn. Hægt er að geyma laxinn í loftþéttu íláti inni í kæliskáp í eina til tvær vikur.

Sinnepsdillsósa

200 ml majónes

100 ml Dijon sinnep

100 g púðursykur

1 búnt ferskt dill saxað

Hrært saman í skál og geymt í kæli þangað til borðhald hefst.

Franskbrauð í sneiðum til að rista undir graflaxinn

Þegar graflaxinn er tilbúinn sem og sinnepsdillsósan ljúfa er ekkert í fyrirstöðu en að rista brauðsneiðar og skreyta þær síðan með graflaxinum sem þið skerið í örþunnar og fallegar sneiðar og toppið með sinnepsdillsósunni. Berið fram og njótið.

Aðalréttur

Í aðalrétt mælir Jakob með hægelduðum lambaskönkum sem er ekta haustréttur og er fullkominn til að töfra fram fyrst von er á fyrstu haustlægðinni.

Hægeldaðir lambaskankar

4 stk. lambaskankar

1  stk. laukur

3  stk. gulrætur

2 stk. sellerí stangir

3  stk. hvítlauksrif

140 g tómatpaste

1 dós hakkaðir tómatar

500 ml nautasoð

3 greinar ferskt rósmarín

1 msk. ferskt timian

100 ml rauðvín mæli með Chianti (gott rauðvín = góður matur)

Salt og pipar eftir smekk

Byrjið síðan á því að steikja skankana í olíu og smá smjöri krydda svo með salti og pipar.
Takið svo skankana úr pottinum og geymið til hliðar. Setjið smjör í pott og bætið lauk, gulrótum og sellerí (mirepoix)  á meðalhita í um 10 mínútur. Bætið hvítlauknum við og steikið saman í 2-3 mínútur. Blandið tómatpaste næst út á pönnuna og síðan hökkuðum tómötum, nautasoði, rósmaríngreinum og söxuðu timian (geymið rauðvínið þar til síðar).

Leyfið þessu að malla stutta stund, bætið skönkunum aftur í pottinn, setjið lokið á og inn í ofn í 2 klukkustundir. Að þeim tíma liðnum má taka skankana varlega upp úr, bæta rauðvíninu í sósuna og hræra hana upp að nýju, leyfa henni að malla á hellunni í um 5 mínútur. Sósan er þá þykk og full af gómsætu grænmeti sem er allt það meðlæti sem þarf.

Kartöflumús að hætti Jakobs

1 kg nýjar íslenskar kartöflur

50 g smjör

Skvetta af rjóma

Salt og pipar eftir smekk

Sjóðið kartöflurnar í um það bil 30 mínútur takið svo vatnið frá, en hafa kartöflurnar í pottinum, smjör, rjóma salt og pipar er hellt í og svo stappa saman.

Eftirréttur

Jakob er mikill sælkeri og elskar að bjóða upp á sælkera eftirrétti sem bragð er af. Hér sviptir hann hulunni af einum af sínum uppáhalds eftirrétti.

Sítrónutart

4 egg

300 g sykur

320 ml sítónusafi

600 g smjör

Takið 2 skálar til. Setjið egg, sykur og sítrónusafa í skál og hrærið saman yfir vatnsbaði upp í 55-60°C gráður. Setjið smjörið í sér skál. Þegar eggjablandan er klár þá skal bæta við smjöri jafnt og þétt þangað til smjörið hefur alveg bráðnað og blandan orðin þykk og glansandi. Þá má hella blöndunni í skeljar og setja í kæli , tilbúið á 30 mínútur um það bil.

Paté brisée deig fyrir skeljarnar

360 g hveiti

220 g kalt smjör skorið í teninga

120 g ískalt vatn, meira ef þarf

Setjið smjörið og hveitið í matvinnsluvél og notið pulse takkann til að vinna deigið saman, gætið þess að vinna það ekki of mikið , bætið svo vatni í og blandið saman. Þar næst, takið það úr og gerið kúlu, setjið í plast og kælið í að minnsta kosti 2 tíma, en best ef það er gert deginum áður.

Fletjið svo út hring og setjið í form , gatið svo deigið með gaffli og skerið út smjörpappír sem passar yfir formið og fyllið það að til dæmis hrísgrjónum  Þetta kallast blindbakstur – endilega gúgglið.

Baka svo skelina þannig í um 15 mínútur, takið grjónin af, og bakið síðan skelina í um 10 mínútur í viðbót í 160°C gráðu heitum ofni.

Sunnudagsdögurður fyrir alla fjölskylduna

Sunnudagar eru gjarna fjölskyldudagar og þá mælir Jakob með bröns með fjölskyldunni sem allir geti tekið þátt í að útbúa og njóta saman. Hér eru hans uppáhalds pönnukökur sem hann framreiðir með dýrðlegu bláberjasírópi og fleira gúmelaði sem bræðir sælkerahjörtu.

Amerískar pönnukökur með bláberjasírópi, ferskum bláberjum og þeyttum sýrðum rjóma og sítrónuberki

Pönnukökur

3 ½ dl hveiti

3 tsk. lyftiduft

½ tsk. salt

1 dl sykur

1 egg

3 ½ dl mjólk

3 msk .brætt smjör

Hrærið öll þurrefnunum saman Blandið þá næst saman mjólkinni og brædda smjörinu, blandið því út í þurrefnin ásamt egginu. Hrærið vel saman þangað til blandan verður nánast kekklaus. Steikið 1 dl í af deigi í einu á meðal heitri pönnukökupönnu. Þar til loftbólur myndast á þeim þá má snúa við .

Bláberjasíróp

60 g bláber

30 ml hunang

30 ml vatn

2 sentimetra ræma sítrónubörkur

Setjið öll hráefni í lítinn pott og kremjið berin. Stillið á miðlungshita og látið malla í nokkrar mín þar til sírópið hefur tekið fallegan lit og er aðeins byrjað að þykkjast. Síið í krukku  og kælið. Úr þessari uppskrift ættu að verða um 6 cl af sírópi en það má auðveldlega skala uppskriftina upp ef þarf.

Þeyttur sýrður rjómi

1 dós 36% sýrður rjómi 1 dós í skál og þeyta eins og rjóma. Athugið vel að það er ekki hægt að nota annan sýrðan rjóma en 36%

Þegar diskað er upp með pönnukökum á disk setja síróp ofna á og fersk bláber með, sýrða rjómann á toppinn og rífa sítrónubörk yfir með fínu rifjárni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

HelgarmatseðillMatur
Fyrir 2 vikum

Eyþór býður upp á syndsamlega góðan sælkerahelgarmatseðil sem steinliggur

Eyþór býður upp á syndsamlega góðan sælkerahelgarmatseðil sem steinliggur
Matur
Fyrir 2 vikum

Nýkrýndir sigurvegara fyrir Eftirrétt ársins og Konfektmola ársins 2022

Nýkrýndir sigurvegara fyrir Eftirrétt ársins og Konfektmola ársins 2022
Matur
20.10.2022

Ekkert lát á vinsældum laufabrauðsins

Ekkert lát á vinsældum laufabrauðsins
Matur
18.10.2022

Undursamlegur pastaréttur sem er hinn fullkomni kósí matur

Undursamlegur pastaréttur sem er hinn fullkomni kósí matur