fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024

Ragnhildur: „Ég man eftir tveimur skiptum sem pabbi grét, þegar ísbjörninn dó og þegar sonarsonur hans dó“

Hugsjónastarf Jóns Kr. – Með ljón í labbitúr – Glerflaska felldi björninn

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 6. febrúar 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir eiga góðar minningar frá Sædýrasafninu í Hafnarfirði, dýragarði sem starfræktur var í nærri tvo áratugi þar sem nú er golfvöllurinn Keilir. Jón Kr. Gunnarsson kom Sædýrasafninu á laggirnar og stýrði því alla tíð en þar starfaði einnig kona hans, Ragnhildur Guðmundsdóttir, og fjögur börn þeirra. Eitt af þessum börnum, Ragnhildur Jónsdóttir myndlistarkona, ræddi við DV um þessi merkilegu ár.

Ævintýrið byrjar

Ragnhildur segir að ævintýrið hafi byrjað með fiskasýningu Hjálparsveitar skáta í Hafnarfirði árið 1964. Þeir seldu ekki flugelda á þeim tíma og því var þessi fjáröflunarleið farin og gekk vel. Sjómenn komu með fiska sem sýndir voru lifandi í búrum og nokkur önnur dýr svo sem trönu sem fangaðist við björgunarstörf. Jón Kr. Gunnarsson, skipstjóri og bókaútgefandi í Rauðskinnu, var virkur í hjálparsveitinni og fékk hann þá hugmynd að koma alvöru dýragarði á laggirnar. Sumir töldu hann hálfbilaðan að láta sér detta þetta í hug en engu að síður opnaði Sædýrasafnið árið 1969.

Það var áhugamannafélag sem hélt utan um safnið með skipaðri stjórn en Jón var framkvæmdastjóri og sá um daglegan rekstur. Safnið var reist á berangri neðan við Holtið í Hafnarfirði. Til að byrja með var það í ætt við fiskasýninguna. Þar voru sjávardýr í búrum og selir í laug. Skömmu eftir opnunina fékk safnið að gjöf ísbjarnarhún frá dýragarðinum í Kaupmannahöfn sem misst hafði móður sína á Grænlandi. Ekki leið á löngu áður en hrafnar og refir bættust í fánuna og svo koll af kolli.

Jón var í góðum samskiptum við dýragarða víða um heim en mest við dýragarðinn í Kaupmannahöfn. Dýr voru keypt af öðrum görðum en einnig stunduð býtti, til dæmis voru sendir út selir fyrir framandi fugla. Einnig fékk safnið mikið af litlum gæludýrum að gjöf frá fólki sem hafði gefist upp á þeim. Svo sem kanínur, páfagauka og skjaldbökur. Þá voru sum dýr veidd, til dæmis hreindýr, og öðrum bjargað. Ragnhildur minnist helst selkópanna sem komu í misgóðu ásigkomulagi. „Þeir voru kallaðir undanvillingar, höfðu týnt mömmu sinni og hefðu drepist í náttúrunni.“

Baða ljónsungana í Skúlaskeiði.

Mæðgurnar Ragnhildur Jónsdóttir og Ragnhildur Guðmundsdóttir Baða ljónsungana í Skúlaskeiði.

Mynd: Gunnar V. Andrésson

Ljónsungar viðraðir í Hellisgerði

Fjölskyldan bjó í Skúlaskeiði við Hellisgerði í Hafnarfirði og heimilishaldið þar var líflegra en á flestum öðrum stöðum. Dýr sem ekki var hægt að vista í safninu af einhverjum ástæðum höfðu tímabundið athvarf þar. Ragnhildur var á níunda ári þegar safnið var opnað og framandi dýr byrjuðu að streyma inn á heimilið. „Ætli við höfum ekki alltaf þótt pínu skrítin. Það voru alltaf ljón eða selir heima hjá mér. Það var samt ábyggilega gaman að koma í heimsókn. En ég pældi ekkert í því af því að þetta var svo eðlilegt fyrir mér, ég þekkti ekkert annað.“

Ljónsungarnir voru geymdir í vaskahúsinu og voru gæfir eins og hundar. Þeir fengu pela og reglulega hreyfingu. „Við settum hundaól á þá og fórum með þá í göngutúr um Hellisgerði til að viðra þá. Auðvitað yrði þetta ekki gert í dag. Það er svo margt sem maður þarf að skoða út frá þessum tíma. Í dag myndi maður hafa ljón í stærra plássi og maður myndi ekki fara með þau í göngutúr í Hellisgerði. Þetta var allt annar tími.“ Um helgar var farið með ljónsungana í safnið og gestirnir fengu að klappa, knúsa og taka myndir af þeim.

Sjaldnast var hægt að fara í bað í Skúlaskeiðinu því að þar var yfirleitt eitthvert dýr. Oft voru geymdir kópar þar. „Við gáfum þeim hakkaða síld, lýsi og rjóma. Þetta var ógeðsblanda sem þeim fannst æðisleg.“

Í eitt skiptið kom kona í heimsókn í Skúlaskeiðið og fór inn á bað. „Þá voru hundrað álar í baðkarinu og konan æpti þegar hún sá þá. Hún vissi að von var á öllu og hélt jafnvel að þetta væru slöngur. Við sjáum hana koma hlaupandi niður stigann og einn ál á eftir henni.“

Heilsaði gestum á dönsku

Ótal tegundir áttu viðkomu á safninu. Þar voru íslensku húsdýrin, hestar, kálfar, kindur, geitur og fleira. Íslenska geitin hafði verið í útrýmingarhættu á undanförnum áratugum og Jón passaði upp á að hafa sem flestar litategundirnar af geitum. Þær voru einnig ein vinsælustu dýrin vegna skapgerðar sinnar, sérstaklega hjá börnum.

Getur ekki hugsað sér að vera án dýra.
Ragnhildur Jónsdóttir Getur ekki hugsað sér að vera án dýra.

Þá var mikið úrval af fuglum, bæði innlendum og erlendum. Gæsir af öllum toga, álftir, endur, hænsn, kalkúnar, snæuglur, perluhænur, pelíkanar, mörgæsir og margir fleiri fuglar. Ragnhildur minnist sérstaklega einnar alihænu sem nefnd var Gilitrutt. „Hún vildi ekki mikið vera með landnámshænunum og var út af fyrir sig. Hún var með mjög háa fætur og teygði sig upp í sjoppulúguna til að sníkja popp.“

Þá var eitt af einkennisdýrum safnsins aragaukur sem fenginn var frá Kaupmannahöfn. „Hann kom úr dánarbúi gamallar danskrar konu. Fyrstu árin gekk hann um svæðið og heilsaði fólki með: God dag. En síðan lærði hann íslensku og hermdi líka eftir jarmi kindanna og geitanna. Einhvern tímann kom vindhviða og hann fauk úr safninu. Við fengum símtal frá íbúum blokkar í Norðurbæ Hafnarfjarðar. Þá hékk hann utan á glugganum á þriðju hæð, þorði ekki að hreyfa sig en blaðraði út í eitt. Við sóttum hann og hann lagðist í fangið á mér, hann var svo hræddur.“

Þá voru smærri spendýr eins og naggrísir og þvottabirnir en einnig simpansa-apar, sæljón, wallaby-kengúrur og stórir kettir. Ragnhildur minnist þess að metaðsókn hafi verið í safninu það hálfa ár sem tígrisdýraungar höfðu þar viðkomu á leiðinni í annan dýragarð.

Fræðsluhlutverkið

Sædýrasafnið var opið allt árið um kring en langmest var af gestum á sumrin. Þá störfuðu um 15 til 20 manns í safninu. Á haustin og vorin kom þó töluvert af skólahópum til að fá fræðslu. Safnið var styrkt af bæði ríki og sveitarfélögum en einnig styrktu fyrirtæki kaup á vissum dýrum. Stjórn safnsins lét einnig útbúa sérstakt námsefni sem dreift var í skólum landsins og Jón var duglegur að koma fram í sjónvarpinu til að kynna safnið.

Í safninu var sjoppa og auglýstir voru þeir tímar sem dýrunum var gefið. Gestirnir voru langflestir Íslendingar af höfuðborgarsvæðinu en Ragnhildur minnist þess sérstaklega að bandarískir hermenn og fjölskyldur þeirra hafi komið í talsverðum mæli. „Þetta var eitthvað sem þeir þekktu vel, að fara í dýragarð.“

Ragnhildur segir að Sædýrasafnið hafi gegnt mikilvægu hlutverki í að fræða fólk um dýralíf. Á þessum tíma hafi fólk úr þéttbýli varla þekkt muninn á kind og geit. Hún nefnir eitt tilvik í því samhengi. „Eitt sinn slapp einn geithafurinn, með stór og mikil horn, úr girðingunni. Fullorðna fólkið hljóp í burtu logandi hrætt en krakkarnir stóðu eftir.“ Fólk hélt þá að um mikið óargadýr væri að ræða.

Sagan um Björn

Björn hét fyrsti ísbjörn garðsins en aðrir húnar komu síðar. Þegar húnarnir stækkuðu var byggð ein stærsta ísbjarnarlaug heims fyrir þá en það var hægara sagt en gert að flytja dýrin. „Það var svakalegt mál. Við krakkarnir máttum hvergi vera nálægt. Þeim var gefinn mjög lítill deyfiskammtur og svo fór pabbi fyrstur inn og setti netið utan um þá. Þegar búið var að mæla þá og færa þá yfir í nýju laugina tók hann netið utan af þeim og þá vaknaði einn björninn. Hann hljóp eins og fætur toguðu og skellti í lás.“

Björn var þá stærsti ísbjörn sem til var í dýragarði, á bilinu 700 til 800 kílógrömm. Ragnhildur segir að bjarndýrunum hafi liðið vel í stóru gryfjunni, sem sé ekki sjálfgefið með þessi dýr. Bæði dýralæknar og fólk úr erlendum dýragörðum hafi haft orð á því.

„Ég man eftir tveimur skiptum sem pabbi grét, þegar ísbjörninn dó og þegar sonarsonur hans dó.“
Jón Kr. Gunnarsson „Ég man eftir tveimur skiptum sem pabbi grét, þegar ísbjörninn dó og þegar sonarsonur hans dó.“

„Ef það var mikið af fólki gaf pabbi þeim stundum appelsínur. Hann lyfti höndunum upp og þá stóðu þeir upp á afturfæturna, margra metra turnar. Björn gleypti appelsínuna heila en birnan opnaði hana með hrömmunum, reif innan úr og skildi börkinn eftir.“

Árið 1984, þegar Björn var fimmtán ára, var flösku af pilsner fleygt inn í gryfjuna. „Það sá enginn flöskuna fyrr en seinna. Björn var náttúrlega stór og mikil skepna og mjög loðinn og ekkert sást fyrr en hann var orðinn haltur. Þá var komin sýking og blóðeitrun og hann dó skömmu seinna. Ég man eftir tveimur skiptum sem pabbi grét, þegar ísbjörninn dó og þegar sonarsonur hans dó.“

Ljón beit konu

Slys á fólki komu upp í Sædýrasafninu. Ragnhildur minnist atviks með ljón. „Það var kona í annarlegu ástandi sem teygði höndina inn fyrir búrið og klappaði ljóni. Ljónið beit í höndina á henni og dró höndina inn fyrir rimlana. Ljónið var ekki að éta hana en höndin skarst illa og brotnaði. Eftir þetta var byggð öryggisgirðing fyrir framan ljónabúrið.“

Annað atvik átti sér stað þegar simpansi beit framan af fingri ellefu ára barns árið 1972. Foreldrarnir lögsóttu safnið en var safninu einungis dæmd þriðjungssök í málinu því að barnið hafði egnt apanum og farið gegn reglum safnsins. Ragnhildur segir: „Pabbi sagði að það væri lítið mál að halda dýrunum í búrunum en erfiðara væri að halda gestunum frá þeim.“

„Í dag myndi maður hafa ljón í stærra plássi og maður myndi ekki fara með þau í göngutúr í Hellisgerði. Þetta var allt annar tími“

Þótt Sædýrasafnið hafi verið mjög vinsælt var reksturinn engu að síður þungur. Húsin voru mörg og munnarnir einnig. Þá var viðhald og uppbygging einnig mjög dýrt. Ragnhildur segir að það sem hafi gert útslagið hafi verið málaferli í Bretlandi vegna sölu háhyrninga. „Við lentum í karli sem kom í ljós seinna að var tengdur mafíunni. Þetta lenti fyrir gerðardómi í Bretlandi og við töpuðum því.“ Garðinum var fyrst lokað tímabundið árið 1980 og svo alfarið árið 1987. „Þetta var hræðilegt. Pabba þótti alltaf svo vænt um dýrin og hann fór út í þetta af hugsjón og væntumþykju fyrir þeim. Allt var undir og heimilið var veðsett. Þau urðu gjaldþrota og misstu húsið.“

Þrátt fyrir sviplegan endi segist Ragnhildur finna fyrir miklu þakklæti þegar hún hugsar til baka. „Mér finnst svo dýrmætt að hafa alist upp þarna. Ég held að dýragarðar eigi rétt á sér, svo lengi sem hugsað er vel um dýrin, þau fái nægt rými og góðan mat. Við erum að fjarlægjast náttúruna meir og meir. Það hafa ekki allir tök á því að fara í frumskóga eða út á sjó að sjá hvali. Flestir dýragarðar í Evrópu eru að hugsa vel um dýrin og standa fyrir björgun á dýrum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Þessir eru líklegastir til að taka við United í sumar ef Ten Hag verður rekinn

Þessir eru líklegastir til að taka við United í sumar ef Ten Hag verður rekinn
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Af hverju var Glazer að funda með þessum manni í London í gær?

Af hverju var Glazer að funda með þessum manni í London í gær?
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Uppnám á tónleikum Laufeyjar – Hundruð falsaðra miða í umferð og sviknir aðdáendur grétu

Uppnám á tónleikum Laufeyjar – Hundruð falsaðra miða í umferð og sviknir aðdáendur grétu
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Inter ítalskur meistari eftir sigur á AC – Allt sauð upp úr í restina og þrír fengu rautt

Inter ítalskur meistari eftir sigur á AC – Allt sauð upp úr í restina og þrír fengu rautt
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Þvílík endurkoma – Sjáðu markið sem stjarna Arsenal skoraði eftir margra mánaða fjarveru

Þvílík endurkoma – Sjáðu markið sem stjarna Arsenal skoraði eftir margra mánaða fjarveru
Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Vekur athygli að hann sé að æfa á æfingasvæði Liverpool þessa dagana

Vekur athygli að hann sé að æfa á æfingasvæði Liverpool þessa dagana