fbpx
Þriðjudagur 03.október 2023

Dauði farandsölumanns: „Það sem þetta virðist vera, frú mín góð, er opinberun á þinni dekkstu hlið“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 1. mars 2020 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómari nokkur í Arizona í Bandaríkjunum setti Marjorie Orbin í hóp með alræmdustu morðingjum fylkisins, þann 1. október, árið 2009. Óhætt er að segja að það sé vafasamur félagsskapur en sennilega hefur Marjorie verið vel að því komin í ljósi þess sem hún hafði á samviskunni.

Dómarinn, Arthur Anderson, sagði við Marjorie rétt áður en hann kvað upp dóm yfir henni: „Það sem þetta virðist vera, frú mín góð, er opinberun á þinni dekkstu hlið. Þegar því svartnætti er sleppt lausu, er það eins svart og hugsast getur.“

Hvað hafði Marjorie Orbin gert sem verðskuldaði svo þung orð?

Horfinn eiginmaður

Þannig var mál með vexti að Jay Orbin, 47 ára eiginmaður Marjorie, hafði horfið af yfirborði jarðar í september árið 2004, þegar hann kom til Phoenix. Hann hafði þá ferðast um þver og endilöng Bandaríkin og selt skartgripi og listaverk frumbyggja álfunnar, snúið heim til Phoenix og horfið.

Það sem fannst
Plaststampurinn sem fannst í eyðimörkinni.

Einhverju síðar kom Jay reyndar aftur upp á yfirborðið, allavega hluti af honum, þegar höfuðlaus búkur hans fannst í eyðimörk í norðurhluta Phoenix. Búknum hafði verið troðið í stóran plaststamp með loki. Afgangurinn af líki Jays fannst hins vegar aldrei.

Óhugnanlegur fundur

Samkvæmt farsímagögnum og kreditkortanotkun hafði Jay komið heim 8. september og, sem fyrr segir, sást ekki á lífi eftir það. Það var síðan 23. október að náungi sem bjó í eyðimörkinni hnaut um plaststampinn, sem var vafinn inn í svart, þykkt plast. Hann opnaði stampinn og við honum blasti höfuð- og handleggjalaus búkur.

„Allt innvolsið, líffæri og innyfli voru horfin … Ég hugsaði „hver myndi gera svona við manneskju? Skera af handleggina, fótleggina, höfuðið“? sagði Dave Barnes, rannsóknarlögreglumaður í Phoenix, um líkfundinn.

Stundum þarf ekki að leita langt yfir skammt og sú var raunin í þessu tilviki.

Skrautleg fortíð

Marjorie var ákærð fyrir morðið. Á meðal sönnunargagna gegn henni var upptaka úr eftirlitsmyndavél sem sýndi hana kaupa tvo plaststampa eins og þann sem búk Jays hafði verið troðið í.

Marjorie var þá 47 ára og átti skrautlega fortíð, hvort tveggja ef horft var langt aftur í tímann eða skammt. Fyrr meir hafði Marjorie séð sér farborða með því að vinna á næturklúbbum. Þar hafði hún dansað „exótískan“ dans, þeim til skemmtunar sem unun hafa af slíku.

Marjorie Orbin
Sagði ástmann sinn hafa framið morðið.

Eftir að hún giftist Jay lét Marjorie af þeim starfa, en að sögn átti hún erfitt með að halda hjúskaparheitin í heiðri. Eftir að réttarhöldin hófust, síðla janúarmánaðar árið 2009, kom í ljós að Marjorie hafði átt í ástarsambandi við nokkuð marga karlmenn og nokkrir þeirra báru vitni þegar réttað var yfir henni.

Réttarhöld tefjast

Ákæruvaldið taldi að Marjorie hefði skotið eiginmann sinn til bana og síðan sundurlimað lík hans. Það hefði hún gert til að halda ástarævintýrum sínum leyndum og ekki síður til að komast yfir eigur hans og fé.

Réttarhöldin drógust aðeins úr hömlu þegar bornar voru brigður á starfshætti saksóknara en hann hafði á ferilskránni mál manns sem hafði verið saklaus dæmdur um morð og setið tíu ár í fangelsi. Einnig hafði saksóknarinn komið að öðru máli þar sem áhöld voru um hvort játning hefði verið fengin með löglegum hætti.

Reyndar þurfti saksóknarinn, Noel Levy, að segja sig frá máli Marjorie, en þá vegna heilsubrests.

Nýr saksóknari og frekari töf

Í apríl tók nýr saksóknari, Treena Kay, við keflinu af Levy og í september var Marjorie sakfelld fyrir morðið á Jay og tveimur vikum síðar varð það niðurstaða kviðdóms að Marjorie slyppi við dauðadóm og fengi lífstíðardóm þess í stað.

Jay Orbin
Hvarf í kjölfar söluferðar.

Töf varð á því að dómari í málinu kvæði upp endanlegan dóm yfir Marjorie því í millitíðinni höfðu komið í ljós í sjónvarpsþætti nýjar upplýsingar. Í þættinum var sjónum beint að fullyrðingum Marjorie þess efnis að einn ástmanna hennar, Larry Weisberg, hefði myrt eiginmann hennar, en Weisberg þessum hafði verið veitt friðhelgi gegn því að hann vitnaði gegn henni.

Niðurstaða

Lögfræðingar Marjorie fóru fram á ný réttarhöld. Meinta aðild Weisberg hafði borið á góma við réttarhöldin en einnig hafði Marjorie sakað bróður Jays, Jake, um að hafa eytt sönnunargögnum og beint sjónum rannsóknarlögreglunnar að henni því hann myndi erfa allar eigur Jays ef hún yrði sakfelld.

Dómarinn hafnaði beiðni um ný réttarhöld og þann 1. október, 2009, kvað hann upp lífstíðardóm yfir Marjorie Orbin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hlustaðu á hreint lygilegt samtal í VAR herberginu er mistökin sem kostuðu Liverpool mikið voru gerð – Mikið blótað þegar skitan kom í ljós

Hlustaðu á hreint lygilegt samtal í VAR herberginu er mistökin sem kostuðu Liverpool mikið voru gerð – Mikið blótað þegar skitan kom í ljós
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Sveindís með rifu í hnéskeljarsin – Verður frá næstu vikurnar

Sveindís með rifu í hnéskeljarsin – Verður frá næstu vikurnar
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Verður Onana hent á bekkinn í kvöld?

Verður Onana hent á bekkinn í kvöld?
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Skæð fuglaflensuveira af stofni sem ekki hefur greinst á Íslandi áður fannst í haferni og æðarfugli

Skæð fuglaflensuveira af stofni sem ekki hefur greinst á Íslandi áður fannst í haferni og æðarfugli
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Ólafur Ingi velur áhugaverðan U19 hóp

Ólafur Ingi velur áhugaverðan U19 hóp
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Magnús sást stíga inn í bifreið við flugvöllinn – Farangurinn á leið til Íslands

Magnús sást stíga inn í bifreið við flugvöllinn – Farangurinn á leið til Íslands