fbpx
Föstudagur 14.ágúst 2020

Þetta er allt ykkur að kenna: Sex þúsund kall dugar ekki til að þagga niður í þjóðinni

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Laugardaginn 23. febrúar 2019 15:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, og Hörður Guðbrandsson, formaður VLFG, gengu öll út af samningafundi hjá ríkissáttasemjara. Var fundi slitið eftir aðeins hálftíma. Sólveig Anna sem hefur látið í sér heyra í aðdraganda fyrirhugaðra samningafunda sagði:

„Verkafólk á Íslandi hefur of lengi þurft að þola láglaunastefnu og stjórnlausan ójöfnuð. Verkafólk hefur skapað góðæri síðustu ára með vinnu sinni. Atvinnurekendur hafa þó neitað að ganga að sanngjörnum kröfum Eflingar og samflotsfélaga. Verkfall er þaulreynd og lögvarin aðferð stéttarfélaga til að jafna hlut vinnandi fólks gagnvart atvinnurekendum.“

Verkföll gætu verið handan við hornið og staðan er snúin og erfið. En hún var alltaf fyrirsjáanleg og löngu búið að vara þingheim við sem hefur tekið við hundruðum þúsunda í launahækkun og þannig tekið þátt í að kynda undir óánægjubálinu. En eins og oft vill verða benda þau á aðra sem hafa hærri laun, eins og klikkuð laun bankastjóra sem benda kannski á húrrandi geðveik laun þeirra sem eru í sjávarútvegi.

En skaðinn er skeður og ábyrgðin hvílir á stjórnvöldum; Bjarna Benediktssyni og Katrínu Jakobsdóttur. Mánaðarlaun Katrínar og Bjarna hækkuðu um tæpa hálfa milljón í árslok 2016 og þingmenn fengu um 340 þúsund. Eini maðurinn sem mótmælti og fékk líka ríflega launahækkun var Guðni forseti. Í beinni útsendingu á RÚV var Guðna brugðið, hann hafði ekkert við þessa launahækkun að gera og tilkynnti að okkar smæstu bræður og systur myndu fá að njóta hækkunarinnar um hver mánaðamót. Þingmenn stungu hins vegar þegjandi og hljóðalaust sínum stjarnfræðilegu hækkunum í vasann og nú býður fjármálaráðherra almenningi 6.750 krónur í þrepum á næstu þremur árum! Er það furða að íslenskir verkamenn sem og stór hluti þjóðarinnar sé ósáttur og fari fram á betri kjör? Að verkalýðsleiðtogar lýsi yfir að ekkert verði gefið eftir.

Þetta reddast!

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hefur ítrekað varað við stöðunni sem nú er upp komin. Í upphafi árs skoraði hann á þingheim að draga áður nefndar launahækkanir til baka. Skammur tími væri til stefnu.

„Hennar fyrsta verkefni á að vera og verður að vera að skapa það andrúmsloft í kringum þessar viðræður að þær geti hafizt í raun um þau efnisatriði, sem snúa beint að atvinnurekendum og launþegum.“

Séríslenski hátturinn var hafður á, hrokinn í fyrirrúmi, „þetta reddast,“ hafa stjórnvöld líklega hugsað. Og ef stjórnvöld eru enn að velta fyrir sér af hverju viðræðurnar muni líklega sigla í strand og enda með verkföllum þar sem ekkert verður gefið eftir, þá skal ég útskýra það í stuttu en einföldu máli.

Árið 2016 hækkuðu mánaðarlaun þingmanna úr 762.940 í 1.101.194 krónur.

Laun ráðherra hækkuðu úr 1.347.330 krónum á mánuði í 1.826.273.

Árið 2018 fékk forstjóri Landspítalans eingreiðslu upp á rúmar sex milljónir og launin hækkuðu úr 2.088.993 í 2.586.913 krónur eða um 24 prósent.

Rektor Háskóla Íslands fór úr 1.353.571 í 1.634.723 krónur á mánuði en á fimmta tug forstöðumanna ríkisstofnana fengu launahækkun um þetta leyti.

Ábyrgðin er stjórnvalda

Á sama tíma og stjórnvöld hafa hvellsprengt launarammann og lagt grunninn að því andrúmslofti sem ríkir í þjóðfélaginu og varað við launahækkunum hafa launþegar horft upp á enn einn sirkusinn eins og sturlaðar launahækkanir bankastjóra. Mánaðarlaun Lilju Bjarkeyjar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, hækkuðu til dæmis um 1,7 milljónir króna á einu ári eða um 82 prósent. Forsætisráðherra sagði þessa launahækkun óverjandi en hafði sjálf þegið 35 prósenta hækkun á sínum launum aðeins tveimur árum áður.

Þjóðin horfir svo, eins og Jóhann Páll Jóhannsson, blaðamaður Stundarinnar, bendir á, á útgerðareigendur sýsla með fé almennings og græða á nýtingu auðlindar sem er sameign þjóðarinnar samkvæmt íslenskum lögum. Þar voru 2018 árstekjur Kristjáns Loftssonar 33-föld árslaun forstjóra Landsbankans og 234-föld meðallaun fiskvinnslustarfsmanns. Og þetta eru afleiðingar pólitískra ákvarðana.

Og hvað fær hinn vinnandi maður? Jú, rúmar sex þúsund krónur! Rausnarlegt er það eða hitt þó heldur.

Ríkisstjórnin hefur sýnt af sér ótrúlegt ábyrgðarleysi með því að hafa látið málin þróast á þennan veg. Stéttastríð gæti verið framundan. Þetta er ykkur að kenna. Þjóðin hefur fengið upp í kok, og sex þúsund kall dugar ekki til að þagga niður í henni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

„Þetta er tap á alla kanta“

„Þetta er tap á alla kanta“
Pressan
Fyrir 11 klukkutímum

Freista 8.000 starfsmanna Facebook með nýstárlegu tilboði

Freista 8.000 starfsmanna Facebook með nýstárlegu tilboði
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Bjóða íslenskum börnum að skoða eldflaugaskotpall Skyrora í dag

Bjóða íslenskum börnum að skoða eldflaugaskotpall Skyrora í dag
Bleikt
Fyrir 12 klukkutímum

Dagur örvhentra er í dag – Myndir sem sýna raunveruleika örvhentra

Dagur örvhentra er í dag – Myndir sem sýna raunveruleika örvhentra
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Andlitsgrímur ódýrastar í Costco og Krambúðinni

Andlitsgrímur ódýrastar í Costco og Krambúðinni
Fyrir 15 klukkutímum

Norðurá stórfljót yfir að líta eftir sanslausar rigningar

Norðurá stórfljót yfir að líta eftir sanslausar rigningar