Íslandshótel hafa sagt upp um 130 manns og er þetta þriðja hópuppsögnin í vor. Í lok mars var 139 manns sagt upp og 246 um síðustu mánaðamót. Alls hafa því um 515 starfsmenn hótelkeðjunnar fengið uppsagnarbréf á árinu en þar störfuðu fyrir tæplega 600 manns. Íslandshótel er stærsta hótelkeðja landsins með um 1.850 herbergi.
„Það er bara áframhaldandi samdráttur. Við sjáum ekki fram á að það breytist á næstunni. Þetta er eins og með önnur fyrirtæki sem eru að grípa til sambærilegra ráðstafana,” segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela.
Íslandshótel reka 17 hótel um allt land en 10 eru þegar lokuð. Nýverið voru auglýst sérstök tilboð fyrir þá sem hyggjast ferðast innanlands í sumar en Davíð segir að bókanir séu aðeins brot af því sem gerist í hefðbundnu árferði.
Þau hótel sem verða opin í sumar verða því að stærstu leyti mönnuð starfsfólki á uppsagnarfresti og Davíð viðurkennir að hann hafi nokkrar áhyggjur af starfsandanum.
„Það verður heilmikil áskorun að halda uppi bæði starfsanda og þjónustustigi. Við erum sem sem betur fer heppin með starfsfólk og allir virðast ætla að stíga þessa vegferð með okkur og sýna skilning á stöðunni. Ég er vongóður en þetta verður erfitt,“ segir hann. Davíð tekur ennfremur fram að vonir standi til að hægt sé að ráða starfsfólk aftur, hluta þess hið minnsta, þegar ferðaþjónustan nær að blómstra á nýjan leik.