fbpx
Laugardagur 04.maí 2024

Jón Viðar: „Ég hef stundum fengið slíkar gusur yfir mig að ég hef hugsað um hvort það sé þess virði að standa í þessu“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 15. apríl 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Viðar Jónsson er frægur, sumir segja alræmdur, fyrir skrif sín um íslenskar leiksýningar. Ólíkt flestum öðrum gagnrýnendum segir hann skoðanir sínar umbúðalaust og hefur sú hreinskilni oft og tíðum valdið úlfaþyt í leikhúsheiminum, sem hann telur ekki hátt risið á í dag. Kristinn hjá DV ræddi við Jón um æskuna, leikhúsið, trúna á Jesú Krist og baráttu Jóns við kvíða og þunglyndi.

Þetta er brot úr stóru viðtali í helgarblaði DV.

 

Í þrígang sviptur frumsýningarmiðum

Jón Viðar er þekktur fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum í leikhúsgagnrýni og hann hefur komið við kaunin á mörgum á fjörtíu ára ferli. Gagnrýni hans í Dagsljósi á Don Juan, jólaleikriti Þjóðleikhússins árið 1996, vakti mikið umtal. Jón sagðist ekki sáttur við túlkun leikstjórans litháíska, Rimas Tuminas, á verki Moliere. Sýningin hefði verið allt of löng, leiðinleg, tónlistin væri hávaði og aðalleikarinn Jóhann Sigurðarson „henglaðist um á sviðinu eins og dópisti.“

Hvernig tekur leikhúsfólk þinni gagnrýni?

„Það er allur gangur á því. En ég hef verið svo lánsamur að alveg frá upphafi hefur verið hlustað á mína gagnrýni. Ég er nú ekki að segja að ég hafi haft óskaplega mikil áhrif á þróun leikhússins en áhorfendur, áhugafólk um leikhús og leikhúsfólk fylgist með umfjöllun minni og hefur brugðist við henni. Það er ekki alltaf sammála mér, mikil ósköp, en þekkir mín viðhorf. Ég hef séð fólk í athugasemdakerfum segja að ef Jóni þyki sýningin vond þá þyki því hún góð. Það er gott því þá er fólk að skoða leikhúsið með gagnrýnum huga og hefur sinn smekk. Gagnrýnandinn hefur sinn smekk og hefur leyfi til að vera huglægur í mati sínu. Fólk veit að ég er ekki að þjónusta neinar stefnur eða klíku. Ég tek afstöðu á mínum eigin forsendum.“

Hefur gagnrýnin haft áhrif á persónuleg vinasambönd þín við leikhúsfólk?

„Ég hef aldrei misst vinskap við fólk út af krítík. En þó að það komi snúður á fólk og það hætti að tala við mig tímabundið eftir neikvæða gagnrýni þá er það gleymt eftir nokkurn tíma. Og alltaf eftir jákvæða gagnrýni. Sumir eru langræknari en aðrir en ég get ekki verið að hafa áhyggjur af viðbrögðum annarra. Mín skylda er gagnvart lesendum og áhorfendum. Ég get verið beittur og orðað hlutina þannig að þeim sem gagnrýnin beinist að getur sárnað en það verður bara að hafa það. Gagnrýni er partur af listsköpuninni og sá listamaður sem beitir sjálfan sig ekki gagnrýni er dauðadæmdur. Bestu listamennirnir eru þeir sem meðtaka gagnrýni og beita henni á sjálfa sig á meðan meðalmennin baða sig í ljóma sjálfsdýrkunarinnar.“

Jón segir þó að beinskeytt gagnrýni hans hafi bitnað á honum í starfi að því leyti að leikhússtjórar hafi klagað í ritstjóra. Á þetta reyndi til dæmis eftir harðorðan dóm um uppfærslu Þjóðleikhússins á Óþelló eftir Shakespeare um jólin 2016. Jón skrifaði þá gagnrýni í Fréttatímann undir yfirskriftinni „Úrkynjað pakk í plasti“ með vísun í sérstaka búninga og leikmynd. Jón segist þó ávallt hafa verið þeirrar blessunar aðnjótandi að ritstjórar hans hafi staðið með honum og Gunnar Smári Egilsson í þessu tilviki var þar engin undantekning.

„Ég hef stundum fengið slíkar gusur yfir mig að ég hef hugsað um hvort það sé þess virði að standa í þessu. En mesta og dýrmætasta stuðninginn hef ég ávallt fengið innan úr leikhúsinu sjálfu. Ég veit að gáfaðasta fólkið, það fólk sem raunverulega skiptir máli, skilur nauðsyn gagnrýni og hefur í reynd staðið með mér þegar lætin hafa orðið mest. Leikhússtjórarnir eru hins vegar í viðkvæmustu stöðunni og það hefur gerst að minnsta kosti í þrígang að þeir hafa blessaðir reynt að leggja stein í götu mína og fjölmiðilsins með því að taka af mér frumsýningarmiða. En nú er það allt gleymt og samskipti okkar í dag, þau litlu sem þau eru, hin þægilegustu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 5 klukkutímum

Óttast að ISIS láti til skarar skríða í Svíþjóð vegna Eurovision

Óttast að ISIS láti til skarar skríða í Svíþjóð vegna Eurovision
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ipswich spilar í ensku úrvalsdeildinni – Voru nýkomnir í næst efstu deild

Ipswich spilar í ensku úrvalsdeildinni – Voru nýkomnir í næst efstu deild