

Í ákæru kemur fram að hann hafi ráðist á föður sinn þann 13. apríl 2024 og slegið hann með opnum lófa í andlitið hægra megin. Í ágúst sama ár hótaði hann föður sínum ofbeldi og náðist það á upptöku þar sem hann sagði meðal annars:
„Ég stúta honum. Ef hann drullar sér ekki niður eftir og reddar restinni, þá ber ég hann. Ég stúta honum. Ég stúta þér sko.“
„Upp í Spöng að kaupa bjór og taka út í Arion banka. Maðurinn sem ætlaði niður á Suðurlandsbraut að taka út pening. Ef þú ferð ekki niður eftir fokking 10 mínútur, þá ber ég þig í stöppu. Ég tek tímann.“
Í nóvember 2024 beitti hann föður sinn ofbeldi í tvígang. Í fyrra skiptið með því slá hann með lampaskermi í andlitið og í seinna skiptið með því að setjast ofan á hann og vefja laki um höfuð hans.
Fyrir utan þetta var maðurinn ákærður fyrir brot á nálgunarbanni í október og nóvember síðastliðnum.
Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi en hann á sakaferil að baki sem nær aftur til ársins 2011. Í dómnum kemur fram að maðurinn sé haldinn fjölfíkn og persónuleikaröskun, hann hafi glímt við alvarlegan fíknisjúkdóm frá því snemma á ævinni og sýnt af sér andfélagslega hegðun með endurteknu ofbeldi.
Geðlæknir sem fenginn var til að meta geðhag mannsins taldi að engar vísbendingar væru þó um að maðurinn hefði verið ófær um að stjórna gerðum sínum í áðurnefnd skipti:
„Ákærði skilji orsök og afleiðingu og það sé ekkert sem bendi til þess að vegna heilsu hans beri refsing ekki árangur.”
Dómurinn er sem fyrr segir óskilorðsbundinn en auk þess var manninum gert að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun, samtals um eina milljón króna.