
Selfyssingur hefur verið sakfelldur fyrir Héraðsdómi Suðurlands fyrir fíkniefnasölu og peningaþvætti. Maðurinn neitaði sök fyrir dómi en kom með sérkennilegar skýringar á því hvers vegna mikið magn fíkniefna fannst á heimili hans og hvers vegna hann hefði á innan við einu ári fengið greiddar 10 milljónir króna sem ekki var gerð grein fyrir í skattframtali.
Málið hófst vorið 2020 með því að lögregla fékk upplýsingar um að maðurinn væri að selja fíkniefni frá heimili sínu á Selfossi. Lögregla fékk leitarheimild og við leit fannst töluvert af fíkniefnum á heimilinu og í bifreið mannsins, meðal annars amfetamín og kókaín.
Í kjölfarið fékk lögregla heimild til afléttingar bankaleyndar og könnunar á fjármálum mannsins. Við samanburð á skattframtali mannsins og færslum á einkabanka hans kom í ljós töluvert misræmi og greining á fjármálum hans skilaði þeirri niðurstöðu að hann hefði fengið óútskýrðar greiðslur á tímabilinu frá sumri 2019 fram til vorsins 2020, sem námu samtals rétt tæplega 10 milljónum króna.
Maðurinn neitaði sök fyrir dómi en kom með sérkennilegar skýringar. Hann sagði að fíkniefnin sem fundust væru í eigu partýglaðs vinar hans en gat þó ekki sagt hver sá vinur væri.
Hann neitaði einnig peningaþvætti og sagði að greiningin á fjármálum hans væri illa unninn. Hann gat þó ekki rökstutt það mat enda sagðist hann ekki vera góður góður í stærðfræði. Er gögn greiningarinnar voru borin undir hann sagðist hann ekki geta lesið þau því letrið væri smátt og hann lesblindur.
Hann gaf þær skýringar á tíu milljónunum að hann hefði selt Pokemon-spil, búið til skálar og selt og notið örlætis vina sinna sem hefðu lagt inn á hann. Hann gat þó ekki tilgreint þessa örlátu vinu. Rannsókn lögreglu leiddi hins vegar í ljós að sumir sem höfðu lagt inn á hann eru með dóma fyrir fíkniefnabrot og peningaþvætti. Þær skýringar sem hann gaf fyrir dómi á fíkniefna- og peningaeign sinni gaf hann ekki í yfirheyrslum lögreglu við rannsókn málsins heldur tjáði sig þar ekki um sakaefnin. Í texta dómsins segir meðal annars:
„Kvaðst næstum hafa gleymt málinu og ekkert hafa verið mikið að pæla í þessu, enda sé þetta streituvaldandi. Þegar hann hafi fengið fjárhagslega hjálp þá hafi það verið með millifærslum. Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta nefnt neitt af því fólki sem hafi aðstoðað hann fjárhagslega á þessu tímabili. Aðspurður um innborganir á reikning ákærða frá þessum tíma kvaðst ákærði ekki geta gert grein fyrir þeim, enda langt um liðið. Aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir skýrslugjöf sinni hjá lögreglu daginn eftir handtöku. Kvaðst ekki geta sagt til um hvers vegna hann hafi ekki kosið að tjá sig um fíkniefnasölu í þeirri skýrslutöku, en hann hafi kannski verið stressaður. Aðspurður um skýrslu sína hjá lögreglu 31. maí 2021 kvaðst ákærði ekki geta sagt til um hvers vegna hann hafi neitað að tjá sig. Aðspurður hvers vegna ákærði hafi aldrei greint frá því hjá lögreglu hvernig hann hafði framfærslu sína kvaðst ákærði bara hafa verið stressaður.“
Ákærði var sakfelldur og dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Við ákvörðun refsingar var tekið tillit til þess að mikill dráttur varð á rannsókn málsins en brotin eru orðin yfir fjögurra ára gömul.