fbpx
Miðvikudagur 07.janúar 2026
Fréttir

Móðir dæmd fyrir vanrækslu – Tæplega 3 ára sonurinn hljóp um gistiheimilið með glerfót af vínglasi í munninum

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 6. janúar 2026 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Móðir hefur verið dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa vanrækt tæplega þriggja ára son sinn þann 5. ágúst árið 2023. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra sem féll þann 27. nóvember en var birtur í vikunni.

Höfðu áhyggjur af drengnum

Þann 5. ágúst árið 2023 barst lögreglunni á Húsavík tilkynning um konu í annarlegu ástandi. Tilkynningin barst klukkan 10:43. Lögreglumenn fóru á vettvang og hittu þar fyrir konu sem sat á gangstéttinni á meðan tæplega þriggja ára sonur hennar hljóp þar í kring. Að sögn lögreglu voru mæðginin nokkuð vel til fara en barnið óhreint á höndum og í andliti og með sár á höndum. Móðurinni var boðið að blása í áfengismæli sem hún féllst ekki á að gera. Lögreglumenn ákváðu, eftir að hafa ráðfært sig við aðalvarðstjóra, að aka þeim mæðginum á gistiheimili þar sem móðirin sagði þau halda til.

Þegar lögreglumennirnir sneru aftur á lögreglustöðina mætti þangað maður sem sagðist hafa hitt mæðginin á höfninni um klukkan átta þennan morgun. Móðirin hafi verið hágrátandi en drengurinn hlaupið um. Þá ákvað lögregla að hafa samband við barnavernd og kanna aðstæður mæðginanna.

Lögregla fór með starfsmanni barnaverndar á gistiheimilið klukkan 14:10 en fann ekki mæðginin. Um klukkustund síðar fékk barnaverndarstarfsmaðurinn upplýsingar um að mæðginin svæfu í kjallara gistiheimilisins. Eigandi gistiheimilisins vissi af þeim og ekki var talin ástæða til að aðhafast nokkuð að svo stöddu.

Klukkan 16:18 leitaði starfsmaður gistiheimilisins til lögreglu og lýsti áhyggjum af drengnum. Starfsmaðurinn sagðist hafa farið heim úr vinnunni en ekki getað hætt að hugsa um drenginn. Starfsmaðurinn bað því kærasta sinn að koma með sér að athuga aðstæður. Það gerðu þau um klukkan 16 og var mjög brugðið. Móðirin hafi sjáanlega verið í alltof slæmu ástandi til að hafa umsjá barnsins. Starfsmaðurinn sýndi lögreglu myndband af samskiptum sínum við móðurina. Þar mátti sjá litla drenginn hlaupa um gang gistiheimilisins með brotinn fót af glerglasi uppi í sér. Starfsmaðurinn tók brotið af drengnum, ræddi við móðurina og ákvað í framhaldinu að leita til lögreglu.

Þá fóru lögregla og starfsmaður barnaverndar aftur að gistiheimilinu og var ákveðið að fjarlægja drenginn úr aðstæðunum. Faðir drengsins var þá á leið norður að sækja hann. Móðirin var ekki samvinnuþýð en veitti ekki mótþróa. Hún var mjög þvoglumælt og áttaði sig illa á aðstæðum. Hún var ekki sammála því að vera ekki í ástandi til að annast barnið og jós fúkyrðum yfir lögreglu og fulltrúa barnaverndar.

Gekkst við að hafa drukkið of mikið

Á myndbandi mátti sjá mikla óreiðu í herberginu þar sem mæðginin héldu sig. Drengurinn var á vappi með brotinn fót af vínglasi í minni sér og sást eins taka bjórdós úr poka.

Móðirin lýsti því fyrir dómi að hún hafi verið þarna stödd á hóteli í boði vinar síns. Þetta kvöld lá hún uppi í rúmi með syni sínum. Hún hafi vissulega verið búin að drekka en allt verið í rólegheitunum. Mæðginin hafi verið að búa sig undir að fara að sofa. Fyrr um daginn hafi hún séð par sem annaðist gistiheimilið hafa kynmök og reykja gras úti í garði. Parið hafi tekið eftir henni og verið brugðið og svo ruðst inn í herbergi hennar og öskrað á mæðginin að þau mættu ekki segja frá. Herbergið hafi ekki verið sóðalegt heldur hafi parið rótað í tösku móðurinnar áður en þau byrjuðu að taka upp myndband. Móðirin gekkst við því að hafa drukkið of mikið rauðvín þennan dag en barnið hafi þó aldrei verið í hættu. Móðirin tók eins fyrir að drengurinn hefði verið með glerbrot í munninum. Móðirin sagði mikið hafa gengið á í lífi hennar á þessum tíma og í sambandi hennar við barnsföður sinn. Hún hafi síðast séð drenginn sinn í lok nóvember 2024 og viti ekki hvar hann er. Nú sé hún sjálf í Virk og í áfallameðferð hjá sálfræðingi.

Lögreglumenn og starfsmaður gistiheimilisins báru vitni fyrir dómi og lýstu því að móðirin hefði verið í mjög annarlegu ástandi þennan dag og illa áttuð. Erfitt var að ræða við hana og hún var óstöðug á fótum.

Dómari tók fram að móðurinni væri gert að sök að hafa brotið gegn barnaverndarlögum með því að hafa vanrækt son sinn þennan dag, sem þá var rétt að verða þriggja ára, andlega og líkamlega þannig að heilsu hans var hætta búin vegna annarlegs ástands móðurinnar og afskiptaleysis. Vitni staðfestu að ástand móður hafi verið slíkt að hún hafi verið ófær að sjá um drenginn, og eins lágu fyrir myndbönd sem sýndu það sama. Móðirin taldist því sek og taldi dómari að hæfileg refsing væri 30 daga skilorðsbundið fangelsi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Heiðursmorð í Hollandi: Faðir og synir hans fengu þunga fangelsisdóma

Heiðursmorð í Hollandi: Faðir og synir hans fengu þunga fangelsisdóma
Fréttir
Í gær

Innrás á heimili á Norðurlandi vestra – Bað manninn ítrekað um að fara

Innrás á heimili á Norðurlandi vestra – Bað manninn ítrekað um að fara
Fréttir
Í gær

Lögregla skoðar hvort piltarnir hafi ætlað að ógna öðrum með skotvopnunum

Lögregla skoðar hvort piltarnir hafi ætlað að ógna öðrum með skotvopnunum
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nágranni frá helvíti býr enn í Bríetartúni – Tveir sjúkrabílar og fjórir lögreglubílar komu um síðustu helgi

Nágranni frá helvíti býr enn í Bríetartúni – Tveir sjúkrabílar og fjórir lögreglubílar komu um síðustu helgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einstök boðsferð til ævintýraheimsins Oz

Einstök boðsferð til ævintýraheimsins Oz