

Þetta sagði Miller í þættinum The Lead with Jake Tapper á CNN, en Miller er í dag formlega séð aðstoðarstarfsmannastjóri Hvíta hússins (e. deputy chief of staff) og ráðgjafi í málefnum innanlandsöryggis.
Í þættinum sagði Miller að ekkert ríki myndi þora að berjast við yfirvöld í Washington um framtíð Grænlands og þá véfengdi hann yfirráð Danmerkur yfir eyjunni.
Í frétt Mail Online kemur fram að Miller hafi ítrekað vikið sér undan því að svara hvort til greina kæmi að beita hernaðarmætti til að Grænlandi. Þegar hann var spurður hvort hernaðaríhlutun væri útilokuð neitaði hann því ekki en véfengdi fullveldi Danmerkur yfir eyjunni.
„Á hvaða grundvelli byggist réttur þeirra um yfirráð,“ spurði hann. „Á hverju byggist það að Grænland sé nýlenda Danmerkur? Bandaríkin eru leiðandi afl innan NATO og til þess að Bandaríkin tryggi öryggi á norðurslóðum, verndi NATO og hagsmuni bandalagsins, þá ætti Grænland augljóslega að vera hluti af Bandaríkjunum – og það er samtal sem við munum eiga sem þjóð.“
Miller sagði að Donald Trump hefði talað skýrt hvað þetta varðar mánuðum saman. „Þetta hefur verið stefna bandarískra stjórnvalda frá upphafi þessarar stjórnar – og reyndar allt aftur til fyrri Trump-stjórnar, að Grænland ætti að vera hluti af Bandaríkjunum.“
Þegar hann var aftur spurður hvort Bandaríkin myndu útiloka valdbeitingu gegn öðru NATO-ríki til að ná þessu markmiði, sneri Miller sér undan spurningunni.
„Það er engin þörf á að hugsa um eða ræða þetta í því samhengi sem þú ert að vísa til, um hugsanlega hernaðaraðgerð,“ sagði hann.
Eiginkona Millers birti mynd á samfélagsmiðlum um helgina þar sem landakort sem sýndi Grænland var sveipað bandaríska fánanum. Við myndina skrifaði hún: „SOON” eða „bráðum” og gaf þannig til kynna að Grænland yrði brátt hluti af Bandaríkjunum.
Færslan vakti mikla athygli enda birtist hún skömmu eftir að Bandaríkjamenn fóru inn í Venesúela og sóttu þar forsetann, Nicolas Maduro, og fluttu nauðugan til Bandaríkjanna.