

Héraðsdómur Suðurlands hefur sýknað Náttúruhamfaratryggingu Íslands af kröfum þriggja eigenda sveitabæjar á Suðurlandi um greiðslu um 70 milljóna króna í bætur vegna altjóns á eigninni í þeim mikla jarðskjálfta sem reið yfir Suðurland árið 2008. Segir í dómsniðurstöðu að bætur vegna tjóns á bænum hafi þegar verið greiddar út og ekki hafi tekist að sanna að eigendurnir eigi rétt á meiri bótum.
Fram kemur í dómnum að tjón hafi orðið á bænum í jarðskjálftanum árið 2000 og síðan aftur í skjálftanum öfluga árið 2008. Hafi eigendur og Náttúruhamfaratrygging Íslands átt í samskiptum vegna málsins allt frá 2001 þegar stofnunin hét Viðlagatrygging Íslands.
Á þessum tíma hafa ýmsar matsgerðir verið gerðar og eigendurnir barist fyrir því að fá tjónið viðurkennt sem altjón, eftir seinni skjálftann, en því ávallt verið hafnað.
Var kröfunum hafnað á grundvelli matsgerða þar sem meginniðurstaðan var að skemmdir eftir skjálftann 2008 hefðu aðallega orðið vegna lélegs frágangs á húsinu þegar hann var byggður og að undirlagið væri mold sem væri alls endis ófullnægjandi grunnur fyrir hús.
Í stefnu vísuðu eigendur meðal annars til hæðarmælinga sem gæfu til kynna að sigið væri af völdum jarðvegssigs en ekki frágangsins á húsinu.
Sögðu eigendurnir einnig að horft hefði verið að verulegu leyti framhjá því að líklega hafi frárennslislagnir brotnað í skjálftanum 2008. Það væri ekki tekið inn í mat á tjóninu en það muni verða afar kostnaðarsamt að skipta um lagnir og upphæðin líklega slaga upp í kostnað vegna altjóns.
Náttúruhamfaratrygging Íslands svaraði því meðal annars til að tjónamat hefði verið gert á bænum eftir skjáftana 2000 og 2008. Í þeim fyrri hafi myndast sprungur víða á veggjum og þurft að ráðast í viðgerðir en bótafjárhæð var um 250.000 krónur. Eftir seinni skjálftann hafi niðurstaðan orðið sú að engar nýjar skemmdir væru sjáanlegar úti, innveggir hafi verið sprungnir, klósettlok brotið og ein hurð skökk. Kostnaðarmat hafi numið um einni og hálfri milljón króna, og hafi eigendur fengið greiddar bætur að fjárhæð 1.348.000 krónur, að teknu tilliti til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu og eigin áhættu.
Síðar hafi einn eigendanna tilkynnt um frekara tjón en skoðun verkfræðistofunnar Verkís hafi leitt í ljós að ekkert frekara tjón hefði orðið á bænum en þegar hefði komið fram í mati stofnunarinnar.
Matsmenn hafi síðan komist að þeirri niðurstöðu að húsið hefði sigið í kjölfar skjáftans vegna ófullnægjandi frágangs og þess að það hefði ekki verið byggt á nægilega traustum grunni.
Vísaði stofnunin meðal annars einnig til þess að umboðsmaður Alþingis hefði ekki séð ástæðu til að gera athugasemdir við málsmeðferðina.
Eigendurnir stóðu hins vegar fastir á því að vegna skjálftans 2008 hefði bærinn sigið og aflagast svo mikið að um altjón væri að ræða sem Náttúruhamfaratryggingu bæri að bæta. Bærinn hefði á sínum tíma, sjöunda áratug síðustu aldar, verið byggður að öllu leyti í samræmi við þágildandi reglur. Náttúruhamfaratrygging sagði hins vegar stefnu þeirra og málatilbúnað um margt óljósan og að ekki hefðu verið færðar sönnur á að frekara tjón, en það sem hefði þegar verið greiddar bætur fyrir, hefði orðið á bænum.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands er tekið undir að margt í kröfugerð og stefnu eigendanna sé óljóst. Í stefnunni sé blandað saman lýsingu á málavöxtum og málsástæðum á mjög óskilríkan hátt. Sé reifun á málsástæðum svo óskýr að til álita komi að málið sæti frávísun án kröfu. Í ljósi allra atvika málsins og þar sem Náttúruhamfaratrygging hafi ekki krafist frávísunar þyki hins vegar ekki nægt tilefni til þess.
Vísar dómurinn í yfirmatsgerð sem gerð var 2018. Þar komi fram að bygging hins skemmda húss hafi ekki uppfyllt reglur þegar það var byggt. Húsið sé grundað á mold og að hluta á vatnssósa mold, sem geti ekki talist forsvaranlegt eða réttlætanlegt á neinn hátt. Að grunda lykilburðarvegg í húsinu á botnplötu hússins, sem grunduð sé á mold, og setja ekki sökkul undir vegginn, geti ekki talist forsvaranlegt né réttlætanlegt á neinn hátt. Ekki finnist nein gögn um húsið og ekki sé ljóst hvort það hafi verið hannað gagnvart jarðskjálftaálagi þó að það sé á einu mesta upptakasvæði jarðskjálfta á Íslandi. Þá sé ekki vitað hvernig burðarvirki hússins sé járnbent. Þol mannvirkisins gagnvart jarðskjálftaálagi sé því óljóst.
Skemmdir á húsinu hafi af þessum sökum orðið meiri í skjálftanum 2008 en þær hefðu orðið ef húsið hefði verið byggt í samræmi við reglur þess tíma. Dómurinn bendir á að það hafi verið eigendurnir sjálfir sem hafi aflað þessarar yfirmatsgerðar og haft þar af leiðandi fullt tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við vinnslu hennar. Aðrar matsgerðir í málinu séu með sömu niðurstöðu og það sé ekkert sem bendi til að þær hafi ekki verið faglega unnar og það sé ekkert komið fram sem renni stoðum undir að þessar niðurstöður séu rangar.
Dómurinn segir því ljóst að eigendunum hafi ekki tekist að sanna að meira tjón hefði orðið á bænum en þeir hefðu nú þegar fengið bætur fyrir og sýknaði Náttúruhamfaratryggingu Íslands af kröfum þeirra. Eigendurnir fá því ekki frekari bætur vegna skjálftans 2008 en hvort þeir áfrýja dómnum á eftir að skýrast.