

Baldur vísar þarna í innrás Bandaríkjamanna í Venesúela um helgina þar sem forseti landsins, Nicolas Maduro, var handtekinn ásamt eiginkonu sinni. Maduro var fluttur nauðugur til Bandaríkjanna og leiddur fyrir alríkisdómara í gær.
Aðgerðir Bandaríkjamanna hafa vakið upp spurningar um hvað gerist næst, en eins og kunnugt er hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekað talað um að hann vilji koma Grænlandi undir stjórn Bandaríkjanna.
Baldur segir að það sé alls ekki óhugsandi og bendir á ummæli utanríkisráðherrans, Marco Rubio, þess efnis að taka þurfi ummæli Trump alvarlega og ef hann segðist ætla að gera eitthvað þá myndi hann framkvæma það.
Baldur segir við Morgunblaðið að hann hafi ekki trú á því að önnur NATO-ríki myndu bregðast sérstaklega við ef Bandaríkin myndu freista þess að ná Grænlandi, nema þá helst með mótmælum en ólíklegt sé að stríð myndi brjótast út.
„Ég held að þeir myndu bara komast upp með þetta og Ísland myndi, með beinum eða óbeinum hætti, blandast inn í þetta, jafnvel með þeim hætti að Bandaríkjamenn gætu millilent í Keflavík til þess að ná yfirráðum yfir Grænlandi, en þeir þurfa þess þó ekki því að þeir eru með herstöð á Grænlandi.“
Nánar er fjallað um þetta í Morgunblaðinu í dag.