fbpx
Laugardagur 10.janúar 2026
Fréttir

Þórður Snær bendir á svimandi eyðslu stjórnarandstöðunnar – „Eyddu hálfum milljarði í að tapa“

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 9. janúar 2026 10:30

Stjórnarandstaðan eyddi miklu fyrir kosningar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, bendir á að stjórnarandstöðuflokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Miðflokkur hafi tapað hálfum milljarði króna í kosningabaráttunni í fyrra. Fjarhægriflokkurinn Miðflokkurinn sitji uppi með verulega neikvætt eigið fé.

Í grein á síðunni Kjarnyrt segir Þórður það óvenjulegt í íslenskri stjórnmálasögu að hrein stjórnarskipti verði eins og gerðist í síðustu alþingiskosningum. Allir flokkarnir sem mynduðu nýja ríkisstjórn, Samfylking, Flokkur fólksins og Viðreisn, bættu miklu fylgi við sig. Það er samanlagt 23,4 prósent, þar af Samfylkingin 11 prósentum.

Dýrt tap

„Undanfarið hafa ársreikningar stjórnmálaflokka verið að birtast á heimasíðu Ríkisendurskoðunar. Þar er hægt að sjá hverju þeir kostuðu til í kosningunum til að reyna að ná hylli kjósenda. Niðurstaðan er afar athyglisverð og sýnir ekki mikla fylgni milli þess sem flokkar eyða og þess árangurs sem þeir ná,“ segir Þórður Snær.

Sjálfstæðisflokkurinn hafi eytt mestum pening, 174,3 milljónum króna. Framsókn hafi eytt 155,4 milljónum og Miðflokkurinn 140,7 milljónum. Samanlagt gera þetta 470,4 milljónir króna og ef þeim 34,9 milljónum sem Vinstri græn eyddu til að komast ekki inn á þing þá gerir þetta rúman hálfan milljarð króna til þess að komast ekki til valda.

Á sama tíma eyddi Samfylkingin 92,2 milljónum króna, Flokkur fólksins 70,3 og Viðreisn 67,1 milljón. Samanlagt 229,6 milljónir, eða innan við helmingur af því sem stjórnarandstaðan eyddi. Engu að síður fengu flokkarnir 36 þingsæti á móti 27 sætum stjórnarandstöðu.

Hvernig fjármagnið nýttist

Þórður Snær reiknar hvernig fjármunirnir nýttust hverjum flokki í þingsætum talið. Reiknast það þannig að kostnaður við hvert atkvæði stjórnarflokkanna hafi verið 2.163 krónur en stjórnarandstöðunnar 6.363 krónur og 6.525 sé VG bætt við. Um þrefaldur munur. Sundurliðað er þetta svona:

Viðreisn – 1.997 krónur

Samfylkingin – 2.092 krónur

Flokkur fólksins – 2.401 króna

Sjálfstæðisflokkurinn – 4.237 krónur

Miðflokkurinn – 5.476 krónur

Vinstri græn – 7.008 krónur

Framsóknarflokkurinn – 9.376 krónur

Píratar og Sósíalistaflokkur hafi ekki enn birt ársreikninga.

Styrkir fyrirtækja til Sjálfstæðisflokks tvöfölduðust

„Í ársreikningum stjórnmálaflokka kemur líka fram hvaðan fjármagnið til að reka þá, og á síðasta ári kosningabaráttu þeirra, kemur. Þegar horft er á framlög fyrirtækja er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuð og herðar yfir aðra flokka í að þiggja styrki þaðan. Alls fékk flokkurinn 65,8 milljónir króna úr atvinnulífinu á síðasta kosningaári,“ segir Þórður Snær.

Sjá einnig:

Hvaða stjórnmálaflokkur á mest eða skuldar mest?

Það er 8,3 milljónum meira en allir hinir flokkarnir samanlagt og 33,6 milljónum meira en fyrir síðustu kosningar. Það er framlög fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins tvöfölduðust á milli kosninga. Þá hafi flokkurinn einnig staðið í fasteignabraski á Valhallarlóðinni, tveimur byggingarreitum var bætt við og byggingin auglýst til sölu.

Engin lýðræðisást

„Allt að öllu þá er ágætt að hafa allt ofangreint í huga þegar Sjálfstæðisflokkurinn (sá flokkur sem hefur fengið langhæstu upphæðina í ríkisstyrki), ríkisstyrkta hægri hugveitan Viðskiptaráð og fjölmiðlar sem tengjast þessu hagsmunabandalagasólkerfi leggja í enn einn leiðangurinn til að reyna að afnema opinbera styrki til stjórnmálasamtaka,“ segir Þórður Snær og vísar í kosningaáherslur flokksins og fleira.

„Ekkert af þessu er gert af lýðræðisást heldur til að bregðast við því að Sjálfstæðisflokkurinn er nú langt frá því að vera stærsti flokkurinn í landinu og reyna að veita sérhagsmunahægrinu samkeppnisforskot á baki fasteignabrasks sem gerði það sex sinnum ríkara en aðrir flokkar á þingi til samans. Það er gert vegna þess að flokkurinn getur ekki keppt á jafningjagrundvelli og vill því sníða leikreglurnar að sinna stöðu. Niðurstöður síðustu kosninga, og þróun kannana síðan þá, sýna hins vegar svart á hvítu að það skiptir ekki alltaf máli hver eyðir mestu ef almenningur hefur engan áhuga á því sem viðkomandi er að selja.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

„Árásin á hann í Áramótaskaupinu var til hreinnar skammar“

„Árásin á hann í Áramótaskaupinu var til hreinnar skammar“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Faðir ICE-fulltrúans kemur honum til varnar – „Ég gæti ekki verið stoltari af honum“

Faðir ICE-fulltrúans kemur honum til varnar – „Ég gæti ekki verið stoltari af honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn fékk óvæntan tölvupóst í morgun – Sýnir að fólk er almennt góðhjartað

Björn fékk óvæntan tölvupóst í morgun – Sýnir að fólk er almennt góðhjartað
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ætla ekki að birta dóm fyrir alvarlegt dýraníð

Ætla ekki að birta dóm fyrir alvarlegt dýraníð