

Ragnar Þór Ingólfsson mun taka við af Ingu Sæland sem félags- og húsnæðismálaráðherra. Inga færir sig yfir í barna- og menntamálin eftir að Guðmundur Ingi Kristinsson sagði af sér vegna veikinda.
Ljóst er að Ragnar Þór tekur nú við málaflokki sem stendur honum nærri hjarta en sem formaður VR á árunum 2017-2024 var hann einn harðasti gagnrýnandi húsnæðiskerfisins á Íslandi.
Því er ekki úr vegi að rifja upp helstu gagnrýni hans á húsnæðiskerfið, og aðra málaflokka sem heyra nú undir ráðuneyti hans, í gegnum árin.
Ragnar Þór hefur einnig mjög gagnrýnin á lífeyriskerfið á Íslandi, allt frá því að hann tók við formennsku hjá VR. Í viðtali DV eftir formannskjörið 2017 sagði hann að fólk væri þremur afborgunum af lánum eða leigu frá því að missa húsnæði sitt.
„Síðan erum við með þessi kerfi, eins og almannatryggingakerfið og lífeyrissjóðakerfið, sem beinlínis læsa fólk inni í sárri fátækt út af frítekjumörkum og skerðingum. Það er búið að svipta fólkið okkar sjálfsbjargarviðleitni, sem er ömurlegt. Við eigum ekki að sætta okkur við að vera með kerfi sem er ekki að vinna fyrir okkur. Ég tala ekki um að vera með kerfi sem við skiljum ekki því það eru mjög fáir sem skilja þetta kerfi.“
Sjá nánar: „Fólk er þremur launaseðlum frá fjárhagslegu þroti“
Árið 2023 kallaði Ragnar Þór lífeyrissjóðina siðlausa plágu í samfélaginu.
„Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að lífeyrissjóðirnir eru plága í íslensku samfélagi“
Árið 2024 sagði hann lífeyriskerfið ala á misskiptingu frekar en samtryggingu. Þeir tekjuhærri fái sama hlutfall launa sinna í lífeyri og lágtekjufólk.
„Og hvort þeirra er líklegra til að hafa komið sér skuldlausu þaki yfir höfuðið? Þá er vert að nefna skerðingarnar í almannatryggingakerfinu sem læsa stóran hóp af fólki inni í sárri fátækt. Er þetta samtrygging? Er þetta besta kerfi í heimi?“
Upplifði Ragnar að ekki mætti tala um lífeyrissjóðina í aðdraganda kosninga þar sem þeir væru álitnir heilagir. Taldi Ragnar rétt gera úttekt á kerfinu til að sjá hvort það sé í raun að þjóna þeim hagsmunum sem það segist gera.
„Látum ekki selja okkur þá tálsýn að ef við þrælum okkur út fyrir kerfið höfum við það hugsanlega gott í framtíðinni, ef ALLT gengur upp. Í því felst uppgjöf, skammsýni og metnaðarleysi.“
Sjá nánar: Ragnar Þór segir þöggun ríkja um lífeyriskerfið á Íslandi – „Uppgjöf, skammsýni og metnaðarleysi“
Árið 2023 taldi Ragnar ljóst að á Íslandi væri fasteignabóla sem væri í boði seðlabankans og stjórnvalda ásamt verðbólgunni.
Hann ritaði grein í janúar 2023 þar sem hann minnti á að hækkun húsnæðisverðs væri helsti drifkraftur verðbólgunnar og mætti alfarið rekja til þess að ekki var farið í mótvægisaðgerðir í kjölfar mikilla og skarpra vaxtalækkana.
„Eftir stendur almenningur í vonlausri stöðu gagnvart stjórnvöldum og Seðlabankanum sem ekki aðeins þvertaka fyrir stórkostleg mistök við efnahagsstjórn landsins heldur bæta og bæta á vandann.“
Sjá einnig: Verðbólga í boði „stjórnvalda og Seðlabankans“ vekur reiði
Ragnar velti því fyrir sér í samtali við hlaðvarpið Brotkast í október sama ár hvort að seðlabankastjóri hefði viljandi búið til fasteignabólu á Íslandi.
„Hann er búinn að gera mistök eftir mistök. En voru þetta mistök?
Ragnar benti á að áður en Ásgeir Jónsson varð seðlabankastjóri gegndi hann stöðu forstöðumanns greiningardeildar og síðar aðalhagfræðings hjá Kaupþingi á árunum 2004-2011 þegar svæsin fasteignabóla herjaði á landsmenn í kjölfar 90 prósenta lána sem Framsóknarflokkurinn hafði lofað kjósendum sínum í aðdraganda kosninga árið 2003.
Síðan tók Ásgeir við starfi hjá Gamma og gerði þar úttekt á fasteignamarkaðnum sem varð til þess að Gamma fór í stórfelld uppkaup á íbúðarhúsnæði eftir hrun þegar fólk missti hús sín í hrönum. Gamma stofnaði svo Almenna leigufélagið sem síðar varð Alma. Taldi Ragnar ósennilegt að Ásgeir hafi ekki vitað af hættunni sem fylgdi viðlíka vaxtalækkunum sem hann réðst í eftir að hann tók við stöðu seðlabankastjóra. Ásgeir væri að gæta hagsmuna fjármagnseigenda á kostnað almennings.
Sjá nánar: Ragnar Þór spyr hvort Ásgeir seðlabankastjóri hafi búið til fasteignabólu hérlendis af ásettu ráði
Húsnæðisstefna borgarinnar þjóðarskömm
Ragnar Þór var allt annað en sáttur með húsnæðisstefnu borgarinnar árið 2018. Þá spurði hann hvort það væri til of mikils ætlast af kjörnum fulltrúum og stjórnmálamönnum almennt að tala um hlutina eins og þeir eru í stað þess að fyrra sig allri ábyrgð. Það væri stórfurðulegt að monta sig af byggingu 1000 íbúða þegar þörfin væri töluvert meiri.
„Ég stend við að mér finnst dapurlegur málflutningur að hreykja sér yfir árangri sem er lítið annað en þjóðarskömm. Þetta er ekki vandi sem varð til yfir nótt heldur afleiðing áralangrar vanrækslu. Það er ekkert stjórnvald undanskilið gagnrýni.“
Benti Ragnar þá á að uppsöfnuð þörf í ársbyrjun árið 2017 var 6.000 íbúðir og árleg þörf til viðbótar um 2.200 íbúðir á ári allt fram til ársins 2040.
Sjá nánar: „Dapurlegur málflutningur að hreykja sér yfir árangri sem er lítið annað en þjóðarskömm“
Ragnar hefur árum saman vakið athygli á stöðu fólks á leigumarkaði. Hann hefur kallað eftir leiguþaki og gagnrýnt leigufélögin fyrir græðgi og kuldalega framkomu í garð leigjenda.
Árið 2023 gagnrýndi hann aðgerðarleysi stjórnvalda í húsnæðismálum og vandaði stjórnvöldum ekki kveðjur sínar.
„Árum saman hefur stefnt í eina alvarlegustu húsnæðiskreppu síðari ára. Árum saman höfum við reynt að koma á leigubremsu. Árum saman höfum við bent á að helsti drifkraftur verðbólgu er framboðsskortur á húsnæði. Árum saman höfum við reynt að fá lífeyrissjóði til að fjárfesta í uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Árum saman höfum við reynt að koma stjórnvöldum í skilning um þessa stöðu en einungis fengið starfshóp eftir starfshóp og nefnd eftir nefnd en engar aðgerðir eða efndir.“
Ragnar sagði að húsnæðismarkaðurinn væri botnfrosinn og að það stefndi í óefni. Á sama tíma væri ríkisstjórnin aðeins með áhyggjur af vinnumarkaði og hvernig kjarasamningar væru að ógna stöðugleika.
„Fjármálaráðherra telur okkur aldrei hafa haft það betra á meðan bankarnir öskra eftir enn hærri vöxtum svo þeir geti gengið á eigið fé almennings sem myndast hefur í húsnæði þeirra. Staðan versnar bara og versnar. Þetta er vitskert veröld sem við búum í.“
Þegar Ragnar Þór bauð sig fram árið 2024 voru húsnæðis- og lánamál stærstu áherslumál hans. Hann kallaði eftir neyðaraðgerðum til að bregðast við miklum hækkunum afborgana á húsnæðislánum og húsaleigu. Eins kallaði hann eftir leiguþaki og hvalrekaskatti á bankana til að standa undir lægri greiðslubyrði húsnæðislána.
„Stóraukið framboð á hagkvæmu húsnæði er lykillinn að réttlátara samfélagi.“
Eins sagðist Ragnar vilja tryggja að uppbygging framundan fari ekki í faðm braskara.
Skömmu áður en Ragnar fór í framboð, eða sumarið 2024, gagnrýndi hann þá venju sveitarfélaganna að selja lóðir til hæstbjóðenda. Þetta komi niður á félagslegum leigufélögum sem geti ekki keppt við einkaaðila. Fjárfestar sem hafi gert sig gildandi á markaði væru ein ástæðan fyrir skorti á byggingarlóðum.
„Lóðir hafa gengið hér kaupum og sölum. Við sem erum að byggja hagkvæmt húsnæði fáum ekki lóðir á hagkvæmu verði vegna þess að við getum ekki keppt við markaðinn þegar sveitarfélög selja hæstbjóðendum lóðirnar. Þær eru keyptar á yfirverði og síðan jafnvel seldar aftur, og ganga síðan kaupum og sölum þar til einhver er tilbúinn að byggja.“
Þetta skapi aðstæður þar sem byggðar eru alltof dýrar íbúðir á sama tíma og eftirspurnin eftir hagkvæmu húsnæði eykst. Taldi Ragnar að stjórnvöld hefðu ekki staðið við loforð sín um uppbyggingu íbúða sem samið var um í kjarasamningum 2019.
Ragnar Þór hefur einnig talað fyrir takmörkunum á skammtímaleigu á borð við Airbnb. Í grein sem hann ritaði í nóvember 2023 með Guðmundi Hrafni Arngrímssyni, formanni Leigjendasamtakanna, segir:
„Áhrif skammtímaútleigu á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu skapa mörg og alvarleg vandamál á húsnæðismarkaði. Allt í senn dregur þannig starfsemi úr framboði á almennum leigumarkaði sem leiðir óhjákvæmilega til hækkandi verðs. Að auki hafa miklir tekjumöguleikar á skammtíma- leigumarkaði líkt og á AirBnB áhrif á hvernig verðlagningu er háttað á almennum leigumarkaði, því í allmörg ár hafa íslenskir gestgjafar á AirBnB verið þeir langtekjuhæstu í Evrópu. Það lokkar marga íbúðareigendur til að færa íbúðir yfir á skammtímaleigumarkað eða þá haga verðlagningu á leiguíbúðum á almennum leigumarkaði í takt við tekjumöguleika á skammtímaleigumarkaði“
Þetta hafi svo orsakað kapphlaup hjá fjárfestum sem hafi sópað til sín íbúðum. Ragnar og Guðmundur sögðu að stöðva þyrfti „lögleysuna“ á skammtímaleigumarkaði og að stjórnvöld þyrftu að axla ábyrgð. Þeir kölluðu eftir hertum reglum um útleigu íbúðarhúsnæðis í þéttbýli á skammtímaleigumarkaði og heimildum sveitarfélaga til að leyfa að íbúðarhúsnæði sé breytt undir gististarfsemi.
Ofangreint er engan veginn tæmandi talning en nú verður fróðlegt að sjá hvort Ragnari takist að ráðast í þær breytingar sem hann hefur kallað eftir.