fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Eyjan

Ragnar Þór spyr hvort Ásgeir seðlabankastjóri hafi búið til fasteignabólu hérlendis af ásettu ráði – „Hann er búinn að gera mistök eftir mistök. En voru þetta mistök?“

Eyjan
Mánudaginn 9. október 2023 14:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, spyr hvort fasteignabólan sem hér varð þegar Seðlabankinn snarlækkaði stýrivexti árið 2020 hafi verið mistök eða hvort ástandið sem síðar skapaðist hafi verið kallað fram af ásettu ráði. Hann bendir á að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sé reyndur hagfræðingur sem hafi yfirgripsmikla þekkingu á bólum á húsnæðismarkaði og hafi vel getað gert sér grein fyrir afleiðingum slíks vaxtastigs án nokkurra mótvægisaðgerða. Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spjallsins með Frosta Logasyni á efnisveitunni Brotkast.

Ragnar Þór er svartsýnn á stöðu mála og segir stefna í allsherjar uppgjör á næstu mánuðum þegar Íslendingar muni standa frammi fyrir því að missa ofan af sér húsnæði í stórum stíl í framhaldi af því að lán sem tímabundið bera fasta vexti muni stökkbreytast þegar föstu vextirnir renna sitt skeið.

„En voru þetta mistök?“

„Seðlabankinn hefur keyrt hér upp stýrivexti mjög hratt sem hefur verið að byggja upp þessa snjóhengju og gert það að verkum að núna eru framkvæmdir að dragast saman á húsnæðisarkaði, þegar við ættum að vera stórauka framboð. Þá er hann nánast búinn að botnfrysta markaðinn. Hann er búinn að gera mistök eftir mistök. En voru þetta mistök?“ spyr Ragnar Þór.

Ragnar bendir á að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi gegnt stöðu forstöðumanns greiningardeildar og síðar aðalhagfræðings hjá Kaupþingi á árunum 2004-2011 þegar svæsin fasteignabóla herjaði á landsmenn í kjölfar 90 prósenta lána sem Framsóknarflokkurinn hafði lofað kjósendum sínum í aðdraganda kosninga árið 2003.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Mynd: Eyþór Árnason

„Og hvað gerir hann síðan 2011, hann tekur við starfi ráðgjafa hjá Gamma, sem í kjölfarið fékk Ásgeir til að gera úttekt á fasteignamarkaðnum sem varð síðan aðdragandi að því að Gamma fór í stórfelld uppkaup á íbúðarhúsnæði hér eftir hrun þegar fólk var að missa aleiguna útaf bankahruninu og fasteignabólunni sem bankarnir og stjórnvöld framkvæmdu. Gamma stofnaði svo Almenna leigufélagið sem síðar varð Alma eins og við þekkjum í dag, sem hrikalegar sögur fara af.“

Ragnar segir ósennilegt að Ásgeir Jónsson hafi ekki vitað af hættunni sem stafaði af því að fara í viðlíka vaxtalækkanir án þess að vera með nokkrar mótvægisaðgerðir á móti. Bendir hann á að lágmark hefði verið að þrengja lánaskilyrði eins og til dæmis að setja hámark á lánstíma þannig að greiðslubyrði hefði kannski ekki lækkað jafn mikið en fólk þá getað greitt lánin hraðar niður í staðinn. Þetta segir hann Ásgeir Jónsson hafa mátt vita.

„Ég hefði haldið að miðað við þær stöður sem hann hefur gegnt innan fjármálakerfisins og síðar sem ráðgjafi hjá Gamma, sem virtist sjá fyrir þá stöðu sem var að myndast á fasteignamarkaði á þeim tíma árið 2011, þá voru greiningaraðilar hjá Gamma, eins og Ásgeir, fyrri til en almenningur að sjá fyrir að hér yrði fasteigna- eða í rauninni uppbyggingarkreppa sem að myndi leiða til hærra fasteignaverðs og þá í því einhverja möguleika til að geta grætt stórkostlega á því að leigja fólki fasteignir“.

Ásgeir gæti fyrst og fremst hagsmuna fjármagseigenda

Ragnar segir ljóst að fasteignaverð sé ekki að fara lækka, þjóðfélagið sé að renna inn í mikla fasteignakrísu þar sem Íslendingum er að fjölga og á sama tíma sé ekkert verið að byggja. Það sé mikill uppgangur í ferðaþjónusta og mikil eftirspurn eftir vinnuafli.

„Það er gríðarleg eftirspurn eftir húsnæði og hún mun bara aukast. Staðan mun versna á húsnæðismarkaði. Þeir sem eru inn á markaðnum í dag munu geta grætt meira. Neyðin mun verða meiri og þetta ástand er í rauninni bara í boði Seðlabankans og stjórnvalda, klárlega“ segir Ragnar.

Ragnar heldur því fram að seðlabankastjóri sé fyrst og fremst að gæta hagsmuna fjármagnseiganda, á kostnað almennings, og hafi hann þannig ítrekað brugðist hlutverki sínu.

„Eina niðurstaðan sem ég kemst að í þessu, vegna þess að Seðlabankinn vill ekki viðurkenna nein mistök. Vill ekki viðurkenna að það hafi verið mistök að lækka vexti svona mikið án mótvægisaðgerða, vill ekki viðurkenna sinn þátt í hagstjórnarmistökum. Skellir skuldinni ítrekað á hreyfingu vinnandi fólks, launafólks almennt. Hann refsar þeim verst settu í samfélaginu, sem eru láglaunafólk, skuldsett heimili og fólk á leigumarkaði. Hann refsar þeim grimmilega fyrir þennslu þeirra sem mikið hafa á milli handanna og útlánaþennslu bankanna. Hann hefur ekki notað þau tæki sem hann hefði getað notað til að einmitt hlífa viðkvæmustu hópum samfélagsins, meðal annars með því að hækka bindiskyldu bankanna vegna þess að hér hefur orðið gríðarleg magnaukning peninga í gangi síðustu ár í gegnum heimsfaraldurinn, gríðarleg útlánaþennsla og henni hefur ekki verið stýrt neitt, við hefðum viljað sjá henni stýrt til dæmis í uppbyggingu á húsnæði.“

Ragnar segir þá hugmynd að stýra stórum hlutum þjóðarinnar aftur inn í verðtryggð lán vera skammgóðan vermi og eingöngu þýða að stórum hluta heimila í landinu muni hægt og bítandi blæða út. Telur hann víst að á örfáum árum muni greiðslubyrgðin á þeim lánum smám saman ná því sem fólk þurfi á næstunni að flýja úr óverðtryggðu lánununm.

„Það sem mun gerast núna næstu ár er að það munu þúsundir missa heimilin sín. Það er að fara gerast. Þetta gerðist með aðeins öðruvísi hætti hérna eftir hrun en þetta er nákvæmlega sama atburðarrás sem er að teiknast upp. Hér er verið að slá skjaldborg utan um bankakerfið, lífeyrissjóðina og fjármagnið. Þetta bara blasir við“ segir Ragnar Þór að lokum.

Hér má hlýða á brot úr viðtalinu við Ragnar Þór:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast