

Jonathan er fulltrúi útlendingaeftirlits Bandaríkjanna, ICE, en Renee var skotin þrisvar sinnum í höfuðið og er talið að hún hafi látist samstundis.
Hún var þriggja barna móðir og skáld en mótmælendur höfðu safnast saman í íbúðagötu í borginni þar sem fulltrúar ICE voru að störfum.
Sjá einnig: Þetta er konan sem var skotin til bana í Minneapolis í gær – 37 ára þriggja barna móðir
Daily Mail ræðir við föður Jonathan, hinn áttræða Ed Ross, og kemur hann syni sínum til varnar í viðtalinu. Hann segir að Renee hafi reynt að keyra á son sinn og hefur enga trú á að hann verði ákærður. „Það var líka annar lögreglumaður með handlegginn inni í bílnum. Hann verður ekki ákærður fyrir neitt.“
Af myndböndum að dæma verður þó ekki séð að Renee hafi haft illt í hyggju þegar hún ók af vettvangi og var skotin.
„Þú myndir aldrei finna betri eða góðhjartaðri manneskju. Hann er staðfastur, íhaldssamur kristinn maður, frábær faðir, frábær eiginmaður. Ég gæti ekki verið stoltari af honum,“ segir faðirinn í viðtalinu.
Ross er sagður hafa búið í útjaðri Minneapolis frá árinu 2015 og starfað í innflytjendaeftirlitinu frá árinu 2013. Hann er kvæntur konu frá Filippseyjum sem er bandarískur ríkisborgari.
Í umfjöllun Daily Mail kemur fram að nágrannar lýsi honum sem áköfum stuðningsmanni Donalds Trumps og hann hafi meðal annars flaggað Trump-fánum til heiðurs forsetanum.
Mikil spenna er í borginni eftir drápið á Renee og hafa borgarbúar mótmælt harðlega viðveru útlendingaeftirlitsins í borginni.