Fjallað hefur verið undanfarið um mikla aukningu í umsóknum fólks frá löndum utan EES-svæðisins um háskólanám á Íslandi. Hefur ekki tekist að afgreiða allar umsóknir sem þarf að leggja fram um dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun, samhliða umsókn um nám, og hefur í sumum tilfellum samþykki um skólavist verið afturkölluð, þar sem kennsla er almennt hafin og samþykki um dvalarleyfi hefur ekki legið fyrir. Umsækjendur hafa borið sig illa vegna þess tíma sem meðferð umsókna hjá Útlendingastofnun hefur tekið en stofnunin segir að í flestum þeim tilfellum þar sem umsóknir hafa ekki enn verið afgreiddar skorti gögn.
Í umfjöllun Morgunblaðsins er þessi mikla aukning rakin til TikTok myndbanda þar sem fullyrt er að erlendum nemum standi til boða ókeypis háskólanám á Íslandi. Látið er að því liggja í umfjölluninni að í þessum myndböndum séu veittar rangar upplýsingar. Það er að hluta til rétt og myndböndin varpa í besta falli fram bjagaðri mynd af veruleikanum en sumt sem kemur fram í þeim er hárrétt.
Í prentútgáfu blaðsins segir að því sé haldið fram í myndböndunum að háskólanám á Íslandi sé öllum gjaldfrjálst.
Nokkur myndbandanna eru birt með vefútgáfu umfjöllunarinnar. Þau er misáreiðanleg en í þeim öllum er háskólanám á Íslandi sagt ókeypis af því ekki þurfi að greiða skólagjöld. Almennt er háskólanám sagt ókeypis ef það eru engin skólagjöld en nám í Háskóla Íslands hefur verið löngum verið kallað ókeypis þótt greiða þurfi 75.000 króna innritunargjald, en stefnt er að því að hækka það í 100.000 krónur. Þetta er almenna reglan í öðrum opinberum háskólum landsins, engin skólagjöld en sama innritunargjaldið.
Þessar reglur gilda líka fyrir nemendur frá löndum utan EES sem hljóta inngöngu í einhvern þessara skóla. Þeir þurfa ekki að borga skólagjöld frekar en aðrir nemendur og að því leyti eru upplýsingarnar í myndböndunum réttar. Í sumum þeirra er sérstaklega tekið fram að þetta eigi bara við opinbera háskóla en að greiða þurfi innritunargjald og sérstakt umsóknargjald en það gjald á við um nemendur utan EES. Í einu myndbandinu er því hins vegar ranglega haldið fram að ekki þurfi að borga innritunargjald en það myndband á sérstaklega við um Háskólasetur Vestfjarða en á vefsíðu þess kemur skýrt fram að greiða þurfi innritunargjald og það er raunar hærra fyrir nemendur utan EES.
Í nóvember á síðasta ári voru í samráðsgátt stjórnvalda kynnt áform um frumvarp til laga sem ætlað var að veita opinberum háskólum leyfi til að innheimta skólagjöld af nemendum frá löndum utan EES. Voru rökin fyrir því meðal annars þau að nýta opinbera fjármuni sem renna til háskólanna betur, finna nýja leið til að standa undir kostnaði við nemendur frá þessum löndum og til að auka samkeppnishæfni háskólanna. Einnig var vísað til þess að nemendur utan EES borgi skólagjöld í opinberum háskólum á Norðurlöndum.
Áformunum var andmælt í umsögnum, meðal annars frá sumum deildum og námsbrautum í Háskóla Ísland, og vísað til að mynda til þess að einu áhrifin myndu vera þau að fækka nemendum en samkeppnishæfni háskólanáms hér á landi myndi ekki aukast enda færu nemendur sem hefðu efni á því að greiða skólagjöld til annarra landa.
Þegar þessi áform voru kynnt var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskólamála. Henni gafst hins vegar ekki tóm til að leggja frumvarpið fram á þingi enda fóru alþingiskosningar fram í lok nóvember og nú fer Logi Már Einarsson með málefni háskóla í þeirri ríkisstjórn sem er við völd. Það liggur ekki fyrir hvort Logi mun leggja frumvarpið í einhverri mynd fram á því þingi sem sett verður á morgun en þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar verður kynnt í fyrramálið. Áformin eru hins vegar enn aðgengileg í samráðsgátt. Samráði er lokið og tekið er fram að málið sé í vinnslu.
Í umræddum TikTok myndböndum er hins vegar látið að því liggja ranglega að allt umsóknarferlið sé auðvelt og fljótlegt. Fólk megi búast við því að það verði minnsta mál að fá dvalarleyfi. Hins vegar eins og raunin hefur orðið og fjallað hefur verið um undanfarna daga er umsóknarferlið ekki svona einfalt. Það þarf að leggja fram ýmis gögn og borga ýmis gjöld vegna umsókna og vottorða en kostnaðarsamasti liðurinn er að nemandinn þarf að sanna að hann sé sjálfum sér nógur fjárhagslega séð og verði þar með ekki byrði á velferðarkerfinu. Í því skyni þarf að leggja fram gögn um að viðkomandi eigi ákveðna lágmarksfjárhæð á bankareikningi. Um þetta kemur ekkert fram í umræddum myndböndum.
Colin Fisher doktorsnemi við Háskóla Íslands ritar grein á Vísi í tilefni af myndböndunum. Það kemur ekki fram í greininni frá hvaða landi Colin er en miðað við samhengið er það bersýnilega utan EES. Colin fer ítarlega yfir allt ferlið og bendir á að þótt engin séu skólagjöldin standist það í raun ekki að þessi nemendahópur fái ókeypis háskólanám. Fyrir umsóknir, nauðsynleg fylgigögn og sendingarkostnað þurfi að greiða oftast yfir 10.000 krónur og upphæðin sem eiga þurfi til að sýna fram á að geta séð fyrir sér sé um 3 milljónir króna. Þessari upphæð megi ekki eyða því hún verði að vera til staðar þegar kemur að því að endurnýja dvalarleyfið. Colin segir raunkostnaðinn fyrir háskólanema á Íslandi frá landi utan EES því vera um 3,2 milljónir króna og erfitt sé að vinna upp í hann þar sem þessi hópur megi bara vinna 22 klukkustundir á viku en ekki ótakmarkað eins og haldið sé fram í myndböndunum.
Colin segir að lokum það hlægilegt að halda því fram á grundvelli myndbandanna að erlendir háskólanemar séu að blóðmjólka íslenska kerfið af því háskólanám sé ókeypis.
Eins og hér hefur verið rakið er námið formlega séð ókeypis en það er ekki rétt að halda því fram að nemendur utan EES þurfi ekki að leggja út fyrir neinum kostnaði til að stunda háskólanám í opinberum háskólum á Íslandi.