Samstaða var um það á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar síðastliðinn miðvikudag að lýsa yfir áhyggjum af ákveðnum þáttum í áformum Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á lögum um innflytjendur. Lýstu fulltrúar í ráðinu yfir sérstökum áhyggjum af áhrifum á börn vegna áforma um yfirfærslu verkefna, sem snúa meðal annars að aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur, frá Reykjavíkurborg til Vinnumálastofnunar.
Áformin voru kynnnt í samráðsgátt stjórnvalda í sumar og í kynningunni segir meðal annars að í nýjum lögum verði lögð áhersla á móttöku einstaklinga sem fengið hafi vernd hér á landi og þátttöku þeirra í íslensku samfélagi í því skyni að ná markmiðum ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda. Í kynningunni segir einnig að framfærsla fólks úr þessum hópi, sem búið hafi á landinu skemur en í tvö ár, verði greidd beint til viðkomandi frá Vinnumálastofnun en ekki fyrir milligöngu sveitarfélaga eins og verið hafi. Greiðslurnar verði framvegis bundar skilyrðum, svo sem þátttöku í áætlun um aðlögun að samfélaginu. Framfærsla sem og önnur aðstoð sem Vinnumálastofnun muni veita í stað sveitarfélaga muni einungis eiga við einstaklinga sem hafi fengið alþjóðlega vernd. Ríkissjóður muni framvegis ekki greiða fyrir framfærslu eða aðra aðstoð fyrir aðra innflytjendur.
Í skjali þar sem gerð er grein fyrir áhrifum breytinganna kemur fram að Vinnumálastofnun muni framvegis sjá um gerð áætlana fyrir þennan hóp um aðlögun að íslensku samfélagi. Í skjalinu er hins vegar ekki minnst sérstaklega á áhrif breytinganna á börn.
Í umsögn Reykjavíkurborgar um áform Ingu segir að samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli þau tryggja að íbúar sem njóti slíkrar þjónustu geti séð fyrir sér og sínum. Þar segir einnig að sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem er barninu fyrir bestu. Í ljósi þess að breytingarnar kveða á um að þrengja þann hóp innflytjenda sem muni eiga rétt á félagslegri aðstoð segir enn fremur að sé ætlunin með nýrri innflytjendalöggjöf að undanskilja tiltekinn hóp einstaklinga frá aðstoð á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, að öllu eða einhverju leyti, sé mikilvægt að gætt sé að því að í því felist ekki félagsleg mismunun og/eða brot á jafnræðisreglu.
Í umsögninni segir enn fremur að mjög mikilvægt sé að viðkvæmum hópum sem þurfi sérstaka aðstoð sé sinnt með fullnægjandi hætti og að ekki verði um að ræða félagslega mismunun sem gæti haft alvarlegar afleiðingar. Það eigi ekki síst við um börn og ungmenni, fatlað fólk og aldraða. Gera verði ráð fyrir því að margir úr hópi viðkomandi einstaklinga muni eignast lögheimili í Reykjavík og því eiga rétt á aðstoð frá Reykjavíkurborg á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Mikilvægt sé að tryggja áframhaldandi aðgengi að sérhæfðri ráðgjöf, menningarnæmni og einstaklingsmiðaðri þjónustu eins og veitt hafi verið a hálfu Reykjavíkurborgar. Segir borgin að fyrirhugaðar breytingar verði til þess að þekking á aðstæðum innflytjenda, sem varið hafi fyrir hendi hjá sveitarfélögum, muni glatast.
Samkvæmt áformunum mun Vinnumálastofnun geta skert greiðslur taki viðkomandi ekki þátt í aðlögunaráætlun. Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að huga þurfi að slíkum skerðingum sérstaklega hvað varði barnafjölskyldur, fatlaða og óvinnufæra og veika einstaklinga og hvort sveitarfélögum verði gert skylt að grípa inn í slíkt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Í bókunum fulltrúa í velferðarráði Reykjavíkur er lýst yfir áhyggjum af mögulegum áhrifum breytinganna á börn. Fulltrúar meirihlutans lýsa í sinni bókun yfir miklum áhyggjum af þjónusturofi við viðkvæma hópa einstaklinga, sérstaklega barna og ungmenna við yfirfærslu verkefna frá Reykjavíkurborg yfir til Vinnumálastofnunar. Um flókna og umfangsmikla þjónustu sé að ræða og ekki hafi komið nógu skýrt fram hvernig Vinnumálastofnun ætli sér að leysa verkefnið. Ítreka fulltrúarnir áhyggjur sínar af því að þekking á þjónustu við þennan hóð glatist. Óska flokkarnir eftir samtali við ríkið um að borgin haldi áfram að veita þjónustuna þannig að nýr samningur tryggi áframhaldandi þjónustu við viðkvæman hóp fólks og að farsæld barna og ungmenna verði tryggð. UNICEF á Íslandi og Barnaheill efist um getu Vinnumálastofnunar til að mæta þörfum barna sem hafi verið í erfiðum aðstæðum. Vinnumálastofnun búi ekki yfir sömu innviðum og sveitarfélögin, þegar komi að möguleikum til að hlúa vel að börnum á flótta.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í velferðarráði tóku undir í sinni bókun að þörf sé á að við breytingarnar verði gætt vel að hagsmunum viðkvæmra hópa ekki síst barna og ungmenna. Þeir voru þó bersýnilega ekki tilbúnir til að taka undir að hætta við að láta Vinnumálastofnun alfarið taka yfir aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur.
Fulltrúi Framsóknarflokksins í ráðinu segir í sinni bókun að brýnt sé að félags- og húsnæðismálaráðuneytið skýri hvernig þjónustu við börn verði háttað í þeim lagabreytingum sem áformaðar séu, sérstaklega hvað varði leik- og grunnskólavist.