Öll spjót hafa staðið á Snorra Mássyni þingmanni Miðflokksins eftir að hann mætti í Kastljós á RÚV síðasta mánudagskvöld og ræddi við Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, verkefnastýru Samtakanna ´78, um málefni hinsegin fólks og einkum trans fólks. Mörgum þótti Snorri ganga hart fram í þættinum. Hann greip ítrekað fram í fyrir Þorbjörgu, var tíðrætt um meinta hugmyndafræði í þessum efnum, sagði kynin aðeins vera tvö, sagði ekkert bakslag hafa orðið í málefnum hinsegin fólks og vísaði allri ábyrgð á hatursorðræðu í garð hinsegin fólks frá sér. Snorri hefur verið harðlega gagnrýndur af fjölda fólks, þar á meðal pólitískum andstæðingum en lítið hefur farið fyrir stuðningi í hans garð frá öðrum þingmönnum Miðflokksins þar til nú en í nýjum pistli á Facebook kemur Sigríður Á. Andersen Snorra til varnar. Hún segir Snorra hafa hlotið ósanngjarna meðferð og tekur eins og hann ekki undir þau orð margra sem tilheyra hinsegin samfélaginu að bakslag hafi orðið.
Allt á suðupunkti eftir Kastljósið í gær: „Ég er gjörsamlega orðlaus“ – „Þetta er bara byrjunin“
Sigríður rifjar upp tilefni umræðnanna eins og hún sér það:
„Tilefnið var færsla hennar um málflutning Snorra um hinsegin málefni og hið svokallaða bakslag sem sumir telja að orðið hafi á Íslandi í þessum málum.“
Sigríður segir umræður Þorbjargar og Snorra hafa verið ágætar en þeim hafi báðum ekki gefist tækifæri til að skýra allt í sínum málflutningi. Snorri hafi tekið fram að hann hati ekki neinn og umræðurnar því ekki farið inn á neinar óeðlilegar brautir:
„Það sem eftir situr er að Snorri og Þorbjörg eru ósammála um tiltekna nálgun í umræðu um þessi mál. Snorri lýsti þeirri skoðun sinni að umræða um fjölda kynja væri hluti af tiltekinni hugmyndafræði, án þess að gefast tækifæri til að skýra það nánar. Þorbjörg lýsti þeirri skoðun sinni að engin hugmyndafræði væri á ferð í umræðunni heldur bara mannréttindi, án þess að gefast tækifæri til þess að skýra það nánar. Kannski eru þau ósammála um hversu mörg kynin „eru“. Kannski eru þau það ekki. Það kom ekki fram. Bæði voru sammála um að allir hefðu rétt til að lifa sínu lífi eins og þeir kjósa. Bæði voru sammála um að hatur og ofbeldi í garð náungans væri óforsvaranlegt. Þótt Snorri hafi einn lýst því skilmerkilega yfir að hann hataði engan þá leyfi ég mér að ganga út frá því að Þorbjörg hati ekki heldur nokkurn mann.“
Sigríður segir að í ljósi þessa séu viðbrögðin í garð Snorra furðuleg:
„Hvernig má það þá vera að hávær hópur nýti nú samfélagsmiðlana og fréttatíma RÚV til þess að vega að Snorra fyrir „ummæli“ og „hatursfulla“ orðræðu. Og „gamaldags“ hefur líka verið slengt fram sem hnjóðsyrði. Talsmenn í málaflokknum og áhugamenn hafa enga þolinmæði fyrir „umræðunni“. Það er ekkert nýtt. Meira að segja gagnrýni á opinberar fjárveitingar í málaflokkinn hefur verið lýst sem „hatur“. En nokkrum undarlegum spilum var spilað út í gær. Biskup Þjóðkirkjunnar setur Kastljósþáttinn í samhengi við sjálfsvíg og reynir þannig að varpa ábyrgð á þáttastjórnanda og Snorra í þeim efnum. Kristilegur kærleikur í nýrri mynd úr þeim ranni.“
Sigríður gagnrýnir einnig viðtal RÚV við Maríu Heimisdóttur landlækni um þessi mál og segir að hún hafi ekki verið spurð neinna alvöru spurninga um hvað vísindin segi um það sem snýr að trans fólki.
Óljóst er hvort Sigríður hefur kynnt sér pistil landlæknis sem færir meðal annars rök fyrir því að mannréttindi hinsegin fólks hafi óhjákvæmilega áhrif á heilsu þess.
Sigríður gagnrýnir Einar Þorsteinsson oddvita Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir orð þeirra í garð Snorra. Hún vill meina að staða hinsegin fólks sé hvergi betri en á Íslandi og það sé í besta falli ósanngjarnt að tala um bakslag:
„Um þennan málaflokk almennt hef ég hins vegar sagt og tel ekki eftir mér að endurtaka að Ísland er best í heimi hvernig sem á þessi mál er litið. Ísland er ítrekað meðal fremstu þjóða hvað varðar réttindi transfólks og samkynhneigðra. Fjölmörg „skorkort“ sýna fram á það. Íslendingar eru í 1. sæti á Tgue-réttindakorti transfólks í Evrópu og í 3. sæti á Regnbogakorti ILGA Europe, réttindasamtaka hinsegin fólks í Evrópu og Mið-Asíu. Þá voru lög um kynrænt sjálfræði samþykkt árið 2019. Mér er til efs að mörg ríki búi yfir slíkri löggjöf. Tal um bakslag er að mínu mati í besta falli ósanngjarnt.“
Sigríður minnist hins vegar ekkert á hatursorðræðu í garð hinsegin fólks hér á landi en margir einstaklingar úr þeim hópi hafa greint frá því að hafa orðið fyrir slíku undanfarið og ekki þarf að leita langt yfir skammt til að finna dæmi um slíkt á samfélagsmiðlum.
Sigríður vill að lokum meina að það séu aðrir hópar sem verði fyrir meira hatri á Íslandi en hinsegin fólk. Hún vísar í könnun Fjölmiðlanefndar þeim orðum sínum til stuðnings en vísar ekki til þess hvenær sú könnun kom út en við stutta leit má sjá að könnunin kom út 2023:
„Það hefur líka komið fram í könnun Fjölmiðlanefndar að andúð í garð samkynhneigðra (1,9%) eða transfólks (5,6%) er lítil hér á landi. Að minnsta kosti í samanburði við andúð fólks á Alþingismönnum (9,8%), íhaldsmönnum (15,8%), stuðningsmönnum Miðflokksins (25%), loftslagsafneitunarsinnum (52,3%) eða andstæðingum bólusetninga sem er sá hópur sem mestri andúð sætir (58%). Fjölmiðlanefnd neitaði að upplýsa um hvaða hópar það eru (t.d. kjósendur hvaða flokka) sem helst eru fullir af svona mikilli andúð. Hverjir skyldu það nú vera? Og hví þessi óskaplega andúð í garð sjónarmiða, skoðana?“