Þetta segja Kristrún og Daði í samtali við Morgunblaðið í dag.
Eins og kunnugt er kynnti Inga Sæland nýtt örorku- og endurhæfingarkerfi síðastliðinn mánudag. Nýja kerfið er einfaldara, greiðslur hækka auk þess sem dregið er úr tekjutengingum og fólki gert auðveldara að vera á vinnumarkaði kjósi það svo. Um 95% þeirra sem hafa verið með örorkulífeyri fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
Bent var á það í Morgunblaðinu í gær að þær áhyggjur hafi verið viðraðar að frumvarpið feli í sér að sumir fái hærri tekjur á örorku en þeir höfðu á vinnumarkaði. Að sama skapi myndi það þýða tekjutap ef þeir snúa aftur á vinnumarkað.
„Ef staðan er orðin sú að örorkubætur verða hærri en til dæmis lægstu laun, þá liggur það einfaldlega fyrir að það þarf að hækka lægstu launin,“ sagði Inga á forsíðu Morgunblaðsins í gær.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt við þau Kristrúnu og Daða og deila þau ekki þessari sýn Ingu.
Kristrún bendir á að ríkisstjórnin semji ekki um kaup og kjör á vinnumarkaði nema hvað opinbera starfsmenn varðar. Spurð hvort orð hennar séu ávísun á ókyrrð á vinnumarkaði segir Kristrún:
„Eins og ég segi, þá eru lágmarkslaun í landinu, það er samið um þau, en við stöndum ekki í slíkum samningum nú og ríkið er ekki að stíga með neinum hætti inn í kjarasamninga.“
Daði Már tekur í svipaðan streng og segir það ekki vera ákvörðun ríkisstjórnarinnar að ákvarða lægstu laun. Þegar Daða var bent á að Inga hefði einnig nefnt að lækka þyrfti verð á nauðsynjavöru sagði hann ekkert slíkt í bígerð. „Það er ekkert slíkt til skoðunar. Við þurfum að viðhalda aðhaldsstigi ríkisfjármála,“ segir hann við Morgunblaðið í dag.