Bandarískur læknir sem leita þurfti á náðir íslenska heilbrigðiskerfisins tvisvar á meðan heimsókn hans stóð hér á landi lýsir yfir mikilli ánægju með þessa reynslu sína. Hann hafi fengið mjög góða þjónustu og átt ánægjulegar samræður við íslenskan kollega sinn.
Viðkomandi greinir frá þessu í færslu á Reddit. Hann segist hafa þurft að leita sér lækninga á Íslandi tvisvar og gæti ekki verið ánægðari. Í fyrra skiptið hafi hann þó þurft að bíða í töluverðan tíma en svo fengið að hitta hjúkrunarfræðing sem hafi sýnt af sér mikla góðvild og hjálpsemi. Í síðara skiptið hafi hann komist nokkuð fljótt að en ekki kemur nákvæmlega fram hvert læknirinn leitaði en líklega var um bráðamóttöku Landspítalans að ræða. Hann segir að í seinna skiptið hafi hjúkrunarfræðingur komið fyrst en svo læknir.
Bandaríski læknirinn fór greinilega ekkert í grafgötur með það við íslenska lækninn, sem er kona, að þau væru kollegar. Hann segir þau hafa rætt um muninn á hvernig lækningar séu stundaðar í Bandaríkjunum annars vegar og á Íslandi hins vegar. Bandaríkjamaðurinn segir mörg lyf til í heimalandi hans sem séu ekki til á Íslandi. Þegar talið barst að tilteknu lyfi, sem hann nefnir ekki, hafi íslenski læknirinn orðið mjög spennt og lýst yfir miklum áhuga á að geta notað það á Íslandi. Bandaríski læknirinn endar færslu sína á þessum orðum:
„Þegar á heildina er litið var þetta dásamleg upplifun og á sanngjörnu verði.“
Í athugasemd við færsluna lýsir kona sem virðist einnig vera bandarísk yfir ánægju með þjónustu sem eiginmaður hennar hlaut eftir að hafa þurft að leggjast inn á spítala á Íslandi. Verðið hafi einnig verið lægra en þau bjuggust við og svo komi bara í ljós hvort tryggingafélagið þeirri endurgreiði.
Bæði læknirinn og konan eru spurð hvað þau hafi þurft að greiða fyrir þjónustuna. Læknirinn segist ekki muna upphæðina en hafi þurft að greiða fyrir meðal annars myndatöku og blóðrannsókn. Hann hafi fengið kostnaðinn endurgreiddan frá tryggingafélagi sínu í Bandaríkjunum.
Konan segir að þau hjónin hafi þurft að greiða fyrir komu á bráðamóttöku, innlögn á spítala, hækjur og svo loks endurkomu á bráðamóttökuna. Þetta hafi kostað samtals 1200 dollara (um 148.000 íslenskar krónur). Fyrirspyrjandinn telur það mjög vel sloppið.
Íslenskur hjúkrunarfræðingur þakkar í athugasemd lækninum fyrir frásögnina og segir íslenskt heilbrigðisstarfsfólk alltaf vera ánægt með að fá hrós.