Birst hafa á bæði samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum frásagnir fólks sem hefur lent í því nú í dag eftir að tilkynnt var um gjaldþrot flugfélagsins Play að þurfa að greiða mun hærra verð fyrir flugferðir með Icelandair en áður stefndi í. Í mörgum tilfellum hækkaði verðið í miðri bókun. Hefur Icelandair verið sakað um að gera þetta vísvitandi í ljósi gjaldþrots Play en á móti er bent á að þar sem fleiri hafi farið að skoða og bóka flug með Icelandair hafi tölvukerfi félagsins sjálfkrafa hækkað verðið. Forstjóri Icelandair vísar því á bug að verðið hafi verið hækkað viljandi.
MBL.is greindi í morgun frá því að kona hefði átt bókað flug til landsins frá London, með Play í október, fyrir sig og fjölskyldu sína. Þegar tilkynnt var í morgun að Play myndi hætta starfsemi fór hún fljótlega í að bóka nýtt flug með Icelandair. Konan segist hafa verið búin að slá inn allar upplýsingar og aðeins átt eftir að ganga frá greiðslu en þá hafi hún séð að verðið hafi skyndlega tvöfaldast úr 150.000 í 300.000 krónur. Sakar hún Icelandair um að nýta sér stöðuna.
Þessi kona er hins vegar ekki sú eina sem hefur sams konar sögu að segja. Íslensk kona sem greinilega er búsett erlendis greinir frá því á Tiktok að hún hafi ætlað sér að koma til landsins síðar í vikunni. Hún hafi fundið flug með Icelandair, í stað flugsins sem hún var áður búin að bóka með Play, sem hafi kostað 60.000 krónur báðar leiðir en í miðju bókunarferli hafi það hækkað í 120.000 krónur. Hún spyr af hverju hafi þurft að hækka verðið þótt Play sé farið á hausinn og segist vera hætt við Íslandsferðina.
Í athugasemdum við myndband konunnar hafa fleiri svipaða sögu að segja:
„Ég er að lenda í sama dæmi – þarf að bóka nýtt flug til Spánar í nóvember og við borguðum 180.000 fyrir fjölskylduna með Play en núna er flug á sömu dögum með Icelandair á 480.000.“
„Lenti í því nákvæmlega sama áðan. Var búin að velja flug heim til Íslands fyrir 40.000 eftir 2 mánuði en á meðan ég var að bóka hækka þau það helling. Hvar endar þetta bara?“
„Ég var akkúrat að skoða fyrir pabba sem átti að fljúga heim á laugardaginn. Kom „verð á mann 48.000“ svo fer ég áfram, þá kemur neibb verðið er núna 95.000 á mann. Þetta er ÖNNUR leiðin.“
Sami aðili bætti því síðar við að verðið sé nú komið upp í 300.000.
Einn aðili vill meina að verðin hafi hækkað þar sem svo fá sæti séu eftir í viðkomandi flugi en aðrir andmæla því og vilja meina að verðið hafi verið markvisst hækkað hjá Icelandair til næstu mánaða:
„Fyrr í mánuðinum var ódýrasti miði milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar 21.000 fram í maí allavega. núna í dag hækkaði lægsta verð í 38.000 fram í maí. þetta er Icelandair að nýta sér að aðal samkeppnisaðilinn er dottinn út.“
„Nei, ekki í þetta skiptið þar sem þetta eru öll flug með Icelandair sem hækkuðu um 100 prósent, ekki bara næsta mánuðinn til dæmis bara flug á næsta ári sem var 50.000 breyttist í 100.000 í miðri bókun á 2-3 mínútum.“
Einn sem ritar athugasemd vill þó meina að mannshöndin hafi hvergi komið nærri við þessar verðhækkanir:
„Verði á flugi er ekki stjórnað handvirkt. Öll flugfélög stjórna verði í gegnum tölvu algóritma. Því fleiri sem skoða flug því hærra verður verðið. Verðlagning er alltaf á sjálfstýringu.“
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair vísar því á bug í samtali við Vísi að félagið hafi nýtt sér fall Play til að hækka verðið. Hann ræðir þó aðeins í viðtalinu um flug næstu daga og segir hærra verð á þeim skýrast af því að fá sæti séu eftir en eins og áður segir fullyrða sumir að verð Icelandair hafi verið hækkað fram á næsta vor. Egill Helgason sjónvarpsmaður sem er mikill ferðalangur segist, í pistli á Facebook, trúa Boga og vísar í að verð hjá félaginu eins og öðrum flugfélögum sé ekki fast heldur ráðist af eftirspurn en velta megi því hins vegar fyrir sér hvort það sé eðlileg ráðstöfun.