fbpx
Laugardagur 20.september 2025
Fréttir

Verkalýðsfélag í Hafnarfirði segist ekki standa í neinu samsæri – „Fyrir neðan virðingu kjörinna fulltrúa“

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 20. september 2025 10:30

Verkalýðsfélagið Hlíf í Hafnarfirði er nú staðsett að Reykjavíkurvegi en ætlar sér að flytja í húsnæði sitt að Flatahrauni, sem leigt hefur verið Félagi eldri borgara í aldarfjórðung. Mynd: Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stjórn Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði hefur sent frá sér harðorða ályktun vegna gagnrýni sem beinst hefur verið að félaginu í kjölfar ákvörðunar þess um að segja upp leigusamningi vegna húsnæðis, í eigu félagsins, sem nýtt hefur verið af Félagi eldri borgara í Hafnarfirði. Beinist ályktunin einkum að gagnrýni fulltrúa úr meirihluta bæjarstjórnar sem skipaður er Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Vill stjórn Hlífar meina að á síðasta fundi bæjarstjórnar hafi meirihlutinn viðhaft orðfæri í garð stjórnar og starfsmanna félagsins sem sé ekki við hæfi hjá kjörnum fulltrúum. Því hafi verið gefið undir fótinn að félagið væri að taka þátt í einhvers konar samsæri með minnihlutanum gegn meirihlutanum en því vísar stjórn Hlífar alfarið á bug.

Eins og DV greindi frá í vikunni snýst málið um húsnæði að Flatahrauni 3 í Hafnarfirði. Húsnæðið er í eigu Hlífar en Hafnarfjarðarbær hefur leigt það undir aðstöðu fyrir Félag eldri borgara í um aldarfjórðung. Hlíf hefur hins vegar sagt samningnum upp og mun Félag eldri borgara að öllu óbreyttu þurfa að rýma húsnæðið í árslok. Hlíf lét bæjaryfirvöld vita fyrir um ári síðan að þetta stæði til en bærinn upplýsti stjórn Félags eldri borgara ekki um það fyrr en í júní síðastliðnum, um átta mánuðum eftir að fyrirhugaðri uppsögn var fyrst komið á framfæri við bæinn. Samþykkt var á fundi bæjarráðs síðasta fimmtudag að skipa samráðshóp bæjarins og Félags eldri borgara sem ætlað er að finna nýtt og hentugt húsnæði fyrir félagið.

Uppnám í Hafnarfirði – Félagi eldri borgara úthýst um næstu áramót

Á síðasta fundi bæjarstjórnar var tekist nokkuð harkalega á um málið. Minnihlutinn gagnrýndi meirihlutann harðlega fyrir hversu langan tíma það hefði tekið að upplýsa Félag eldri borgara um uppsögnina. Meirihlutinn vísaði ábyrgð á því uppnámi sem þetta setti starf félagsins í alfarið á herðar Verkalýðsfélagsins Hlífar og sakaði minnihlutann um að bera óþarflega mikið blak af félaginu. Gagnrýnin í garð meirihlutans væri ekki verðskulduð ekki síst þar sem Hlíf hefði ekki sagt samningnum upp með formlegum hætti fyrr en sama dag og bæjarstjórnarfundurinn fór fram en það var 10. september síðastliðinn.

Svigrúm

Í ályktun stjórnar Verkalýðsfélagsins Hlífar sem birt hefur verið á heimasíðu félagsins segir að ætlunin sé að taka húsnæðið til eigin nota fyrir félagið þar sem þörfin fyrir það sé orðin töluverð. Félagið hafi kynnt embættismönnum bæjarins fyrir ári síðan þessar fyrirætlanir. Þær hafi verið ítrekaðar nokkrum sinnum á fundum, þar á meðal með bæjarstjóra. Á þessum fundum hafi alltaf komið fram, að ástæða þess að ekki hefði enn verið lögð fram formleg uppsögn, væri að félagið vildi gefa bænum svigrúm til að leysa húsnæðismál Félags eldri borgara. Sá fyrirvari sé nú orðinn heilt ár, án þess að nokkur lausn sé í sjónmáli. Félagið hafi á endanum verið nauðbeygt til að segja samningnum upp með formlegum hætti án þess að lausn á húsnæðismálum Félags eldri borgara lægi fyrir:

„Því er félaginu nauðugur kostur að stíga fram með ákveðnari hætti, enda hamla núverandi aðstæður í húsnæðismálum félagsins eðlilegri starfsemi þess. Félagið hefur tvöfaldast að stærð undanfarin fjögur ár.“

Ásakanir

Í ályktuninni er lýst yfir sérstakri óánægju með þau orð sem fulltrúar meirihlutans viðhöfðu um stjórn og starfsmenn félagsins á bæjarstjórnarfundinum. Umræðurnar hafi mátt skilja sem svo að málið væri nýtilkomið, sem sé augljóslega rangt, og að ýjað hafi verið að nokkru sem eigi sér enga stoð í veruleikanum:

„Jafnframt var látið að því liggja, að á bak við lægju annarlegar hvatir forystu Hlífar og starfsfólks og einhvers konar samsæri félagsins og hluta bæjarstjórnar til að koma höggi á meirihluta í bæjarstjórn. Hið sanna er, að forysta Hlífar hefur ekki rætt þetta mál við neina kjörna fulltrúa (utan bæjarstjóra), fyrr en daginn fyrir fund bæjarstjórnar, að tveir fulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu eftir fundi með forystu félagsins, til að fá upplýsingar um aðdraganda málsins. Það er nú allt plottið.“

Í ályktuninni er ekki vísað beint til einstakra ræða eða ummæla en eins og DV greindi frá í vikunni þá sakaði meirihlutinn í bókun sinni Guðmund Árna Stefánsson, oddvita Samfylkingarinnar, sem er í minnihluta, um að hlífa Hlíf við gagnrýni á verklag félagsins við uppsögnina þar sem framkvæmdastjóri þess, Guðmundur Rúnar Árnason, væri fyrrum bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fyrrverandi bæjarstjóri. Leiða mætti líkur að því að um væri að ræða pólitískan leik núverandi og fyrrverandi oddvita Samfylkingarinnar í því skyni að koma bæjaryfirvöldum í erfiða stöðu. Því vísaði Guðmundur Árni alfarið á bug og sagði meirihlutann vera að breiða yfir vanhæfni sína í málinu með slíkum ásökunum. Kallaði hann þetta „skítapólitík“ af hálfu meirihlutans.

Ummæli

Í ályktun Hlífar segir ennfremur:

„Umræður um forystu félagsins og starfsfólk, eins og fram fóru í bæjarstjórn og ummæli sem þar féllu, eiga sér tæpast mörg fordæmi og eru fyrir neðan virðingu kjörinna fulltrúa í beinni útsendingu. Stjórn Hlífar harmar þau og biðst undan því að félagið verði dregið inn í slíkar umræður í framtíðinni.“

Ekki eru tiltekin sérstök dæmi en nefna má að á bæjarstjórnarfundinum hvatti Rósa Guðbjartsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem var bæjarstjóri, þegar Hlíf greindi bænum fyrst frá að til stæði að segja leigusamningnum upp, en lét af því embætti um áramótin, Guðmund Árna til að nýta sér tengsl sín við Guðmund Rúnar til að leysa málið og fá Hlíf til að veita lengri frest til að rýma húsnæðið:

„Þeir leysa nú alls konar mál út allar trissur … sjálfir sýnist mér og heyrist.“

Ekki er ljóst hvað Rósa átti við með þessum ummælum.

Valdimar Víðisson oddviti Framsóknarflokksins og bæjarstjóri sagðist leggja áherslu á að frestur Félags eldri borgara til að rýma húsnæðið yrði framlengdur og með bókun meirihlutans, þar sem skorað var á Verkalýsðfélagið Hlíf að verða við því, væri ætlunin að þrýsta á um það.

Háir herrar

Kristín Thoroddsen bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sakaði Hlíf um að hafa meðvitað dregið formlega uppsögn leigusamningsins á langinn „og látið eldri borgara bíða í ofvæni eftir því hvað þessum háu herrum myndi detta í hug að gera næstu mánuði.“

Öll óvissa í málinu væri vegna þess að skrifleg uppsögn Hlífar hefði ekki borist fyrr en nú. Sagðist Kristín hafa setið fund hjá Félagi eldri borgara þar sem komið hefði verið á framfæri óánægju í garð Hlífar og sagði um hópinn sem sat fundinn:

„Skilur illa af hverju níu starfsmenn þurfa 600 fermetra.“

Umrætt húsnæði er um 600 fermetrar að stærð. Sagði Kristín eldri borgara ekki skilja af hverju félag þeirra og Hlíf gætu ekki samnýtt húsnæðið. Vildi hún meina að Hlíf hefði nýlega eytt fjármunum í að koma sér fyrir í núverandi höfuðstöðum sínum á Reykjavíkurvegi:

„Eitthvað hefur það nú kostað.“

Gagnrýndi Kristín áðurnefndan Guðmund Rúnar Árnason, framkvæmdastjóra Hlífar, harðlega og sagði sorglegt að hann sem fyrrverandi bæjarfulltrúi og bæjarstjóri hefði ekki meiri skilning á starfsemi Félags eldri borgara. Gagnrýndi hún Guðmund Árna fyrir að beina ekki meiri gagnrýni að Hlíf vegna málsins og það væri ekki annað að heyra en að hann og aðrir bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar ætluðu að standa með Hlíf frekar en eldri borgurum. Hvatti hún Hlíf til að leyfa eldri borgurum að vera í húsinu um ókomna tíð en væri það ómögulegt fyrir alla níu starfsmenn félagsins að leyfa þá að minnsta kosti Félagi eldri borgara að klára yfirstandandi starfsár í húsinu. Sagðist hún vona að Hlíf sæi að sér.

Andrými

Helga Ingólfsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði bæjaryfirvöld eiga að vera hörð á því við Hlíf að veita smá andrými:

„Fyrr má nú vera eftir 25 ára leigusamning.“

Miðað við lokaorð ályktunar stjórnar Hlífar virðast líkurnar á því að það takist ekki hafa aukist eftir þessar umræður í bæjarstjórn:

„Bendir stjórn félagsins bæjarstjórn á, að það getur tæpast talist góð samningatækni að hvetja viðsemjanda og óska einhvers af honum, en hreyta um leið í hann ónotum og dylgja jafnframt um heilindi hans. Að slá á útrétta hönd er sjaldnast góð leið til að auka samningsvilja.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Þingmaður Miðflokksins vill gera þessa tilraun áður en splæst er í „dýrustu samgönguframkvæmd Íslandssögunnar“

Þingmaður Miðflokksins vill gera þessa tilraun áður en splæst er í „dýrustu samgönguframkvæmd Íslandssögunnar“
Fréttir
Í gær

Vinkonur á sjötugsaldri lentu í rifrildi á Benidorm – Sú eldri lifði það ekki af

Vinkonur á sjötugsaldri lentu í rifrildi á Benidorm – Sú eldri lifði það ekki af
Fréttir
Í gær

Sótt að ungum Sjálfstæðismönnum úr þeirra eigin röðum – „Hvert er Sjálfstæðisflokkurinn að fara?“

Sótt að ungum Sjálfstæðismönnum úr þeirra eigin röðum – „Hvert er Sjálfstæðisflokkurinn að fara?“
Fréttir
Í gær

Varað við svikahröppum sem þykjast vera heyrnarlausir

Varað við svikahröppum sem þykjast vera heyrnarlausir
Fréttir
Í gær

Konungsfjölskyldan gagnrýnd fyrir fordæmalausa sýndarmennsku í þágu Trump – „Þetta er þjóðarskömm“

Konungsfjölskyldan gagnrýnd fyrir fordæmalausa sýndarmennsku í þágu Trump – „Þetta er þjóðarskömm“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mitsubishi Motors Europe kynnir nýjan 100% rafmagnaðan Eclipse Cross

Mitsubishi Motors Europe kynnir nýjan 100% rafmagnaðan Eclipse Cross