fbpx
Laugardagur 09.ágúst 2025
Fréttir

Nágrannaerjur í Vesturbænum – Fá ekki að losna við girðingu nágrannanna sem vísa til brunahættu og óþefs

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 9. ágúst 2025 10:00

Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur staðfest þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að aðhafast ekkert frekar vegna girðingar sem húseigendur í Vesturbænum reistu í óþökk eigenda hússins við hliðina. Eigendurnir sem reisu girðinguna halda því fram að það hafi verið nauðsynlegt vegna brunahættu og lyktarmengunar frá ruslatunnuskýli hinna ósáttu nágranna.

Eins og DV hefur áður greint frá hafa þessar deilur milli nágrannanna staðið í nokkurn tíma en Reykjavíkurborg krafðist þess að girðingin yrði fjarlægð en tilkynnti um leið að ekki yrði gripið til þvingunarúrræða til að knýja á um það.

Nágrannaerjur í Vesturbænum – Borgin setur fram kröfur í málinu en ætlar ekki að fylgja þeim eftir

Þessa ákvörðun kærðu hinir ósáttu húseigendur til nefndarinnar. Þeir kvörtuðu á síðasta ári yfir girðingunni sem raunar er 230 sentimetra hár veggur. Byggingarfulltrúi borgarinnar krafðist þess síðasta haust að sótt yrði um byggingarleyfi. Ekki var orðið við því og fyrr á þessu ári komu starfsmenn borgarinnar á staðinn og skoðuðu girðinguna. Í kjölfarið ítrekaði byggingarfulltrúinn fyrri kröfu og gerði húseigendunum einnig að leggja fram skriflegt samþykki nágrannanna annars yrði að fjarlægja mannvirkið. Um leið greindi byggingarfulltrúinn frá að ekkert yrði aðhafst frekar í málinu þar sem engin hætta stafaði af girðingunni og þá ákvörðun kærðu hinir ósáttu húseigendur til nefndarinnar.

Ábótavant

Kærendur vísuðu meðal annars til ákvæða byggingarreglugerðar og að ljóst væri að ásigkomulagi, frágangi og umhverfi girðingarinnar væri ábótavant og ekki hafi verið gengið frá henni í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Girðingin væri hálfum metra of há, væri of nálægt lóðarmörkum og ekkert samþykki þeirra lægi fyrir henni.

Kærendur vildu meina að girðingin væri það há að hún skyggði á hús þeirra og hefði valdið því að gróður í garði þeirra hefði visnað. Girðingin skæri sig verulega úr hvað varðaði útlit húsa og girðinga í nágrenninu. Vildu þeir sömuleiðis meina að girðiningin rýrði verðmæti eignar þeirra og gæti gert mögulega sölu á henni erfiðari.

Borgin vísaði í sínum andsvörum til þess að samkvæmt lögum og byggingarreglugerð bæri henni ekki skylda til að beita neinum úrræðum í málinu þar sem rannsókn hefði leitt í ljós að girðingin raskaði ekki öryggis- eða almannahagsmunum á nokkurn hátt og varðaði aðeins eigendur húsanna tveggja.

Ruslatunnuskýlið

Eigendurnir sem reistu girðinguna fengu tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Þeir sögðust hafa rætt við nágranna sína í apríl 2022 um fyrirhugaða girðingu á lóðamörkum og hafi þeir gefið samþykki sitt fyrir girðingunni. Ástæða þess að girðingin hafi verið reist væri ruslatunniskýli sem standi á lóð nágranna þeirra við lóðamörkin. Vegna frágangs á skýlinu hafi verið nauðsynlegt að reisa girðinguna. Brunahætta væri af sorptunnuskýlum eins og þessu sem sé úr timbri og þá sé gerð þess og frágangi verulega ábótavant. Úr því fjúki rusl og af því stafi lyktarmengun.

Kærendur tóku ekki undir þetta. Þeir vildu meina að þegar girðingin var fyrst kynnt fyrir þeim hafi komið fram að teikningar af girðingunni yrðu kynntar fyrir þeim. Það hafi þeir síðan áréttað en ekki hafi verið staðið við það og þar með hafi samþykki þeirra aldrei legið fyrir framkvæmdinni. Andmæltu þeir því að að girðingin hafi verið reist vegna eldhættu sem stafi af ruslatunnuskýli þeirra. Engar athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu nágranna þeirra við skýlið og ekkert bendi til þess að raunveruleg hætta sé til staðar. Fjarlægð skýlisins frá girðingunni væri veruleg og því ósennilegt að eldhætta væri raunhæf forsenda framkvæmdarinnar. Engar kvartanir hafi borist vegna sorptunna þeirra. Þær standi við bílskúrsvegg, í fjarlægð frá hinni umdeildu girðingu.

Þurfa ekki að gera meira

Kærendunum varð hins vegar ekki að ósk sinni um að losna við girðinguna. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísar í sinni niðurstöðu til þess að samkvæmt lögum um mannvirki sé byggingarfulltrúa sveitarfélaga ekki skylt að beita þvingunarrúræðum eins og dagsektum. Það sé háð mati á aðstæðum hverju sinni og þá meðal annars hvort viðkomandi mannvirki raski almannahagsmunum. Í umræddu máli hafi starfsmenn Reykjavíkurborgar mætt á staðinn og tekið myndir og að því loknu og frekari skoðun á málinu hafi niðurstaðan verið sú að girðingin raskaði ekki almannahagsmunum og ekkert yrði frekar aðhafst en að setja fram skriflegar kröfur á hendur eigendunum sem reistu girðinguna. Ákvörðunin um að beita engum þvingunarúrræðum stendur því óhögguð og því ekki útlit fyrir annað en að girðingin fái að standa, kærendunum til frekari ama.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segja það ganga kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi

Segja það ganga kraftaverki næst að hann hafi fundist á lífi