fbpx
Miðvikudagur 27.ágúst 2025
Fréttir

Húseigandi á Egilsstöðum fær ekki að losna við tjaldstæði á næstu grösum

Jakob Snævar Ólafsson
Miðvikudaginn 27. ágúst 2025 08:00

Til hægri er hluti af húsinu að Skjólvangi 2 en vinstra meginn sést hluti tjaldstæðisins sem eigandi hússins segir valda ónæði og tjóni. Mynd: Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá kæru fyrirtækisins HJH sem á fasteign sem stendur við Skjólvang 2 á Egilsstöðum en í húsinu er meðal annars starfsstöð Skattsins. Hafði fyrirtækið kært þá ákvörðun sveitarstjóra Múlaþings, sem Egilsstaðir eru hluti af, að verða ekki við kröfu þess um að stöðva rekstur tjaldstæðis á þremur næstu lóðum við húsið. Nefndin sagði í sinni frávísun meðal annars að sveitarstjórinn hafi ekkert vald til að neita eða samþykkja að stöðva rekstur tjaldstæðisins.

Tjaldstæðið nær meðal annars yfir lóðirnir Sólvang 2 og Kaupvang 10 og 20 en til að mynda er aðeins einföld röð af nokkrum bílastæðum á milli Sólvangs 2 og hússins að Skjólvangi. HJH hafði áður krafist þess að rekstur tjaldstæðisins yrði stöðvaður á meðan kæran var til meðferðar en nefndin varð ekki við því.

Húseigandi amast við rekstri tjaldsvæðis – Segir það valda tjóni á eign og leigjendum sínum ónæði

Í júlí óskað fyrirtækið eftir að rekstur tjaldstæðisins yrði stöðvaður þar sem hann væri ekki í samræmi við skipulag. Sveitarstjóri Múlaþings svaraði beiðninni sex dögum síðar og sagði að notkun svæðisins sem tjaldstæðis hefði verið heimiluð tímabundið þar til uppbygging íbúðarhúsnæðis hæfist samkvæmt skipulagi. Sveitarfélagið hefði gert samning við rekstraraðila um afnot af svæðinu þegar aðaltjaldsvæðið væri fullt sem og í tengslum við unglingalandsmót sem halda ætti um sumarið.

Fyrirtækið sætti sig ekki við þessi svör og forsvarsmaður þess krafðist svara um hvaða heimildir sveitarfélagið hefði til að leyfa starfsemi sem væri ekki í samræmi við skipulag. Eftir frekari samskipti ítrekaði fyrirtækið kröfu sína um að tjaldstæðinu yrði lokað þar sem það ylli leigjendum þess ónæði og tjóni á húsinu. Synjaði sveitarstjóri Múlaþings kröfunni og vísaði til þess að bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, sem varð seinna hluti af Múlaþingi, hefði veitt heimild til rekstursins á sínum tíma og hefði hún verið endurnýjuð árlega með þeim fyrirvara að um tímabundna heimild væri að ræða. Kærði fyrirtækið þá synjunina til nefndarinnar.

Ekki á skipulagi

Í kærunni var meðal annars lögð áhersla á að rekstur tjaldstæðis á þessum þremur lóðum væri ekki heimill samkvæmt deili- og aðalskipulagi. Heimild til rekstursins hefði verið veitt með munnlegum hætti sem stæðist ekki formkröfur. Engar tilkynningar hefðu verið sendar lóðarhöfum og eigendum fasteigna á næstu lóðum og andmælaréttur ekki virtur. Vildi fyrirtækið meina að rekstur tjaldstæðisins hefði valdið leigjendum þess ónæði og einnig tjóni á húsinu sjálfu. Vísaði það í því samhengi einkum til aukinnar umferðar, hávaða, rusls og sjónmengunar.

Vildi fyrirtækið meina að samningur Múlaþings við rekstraraðila tjaldstæðisins gilti aðeins um lóðina að Kaupvangi 17. Fyllyrti það enn fremur að það væri ekki satt að aðeins væri opnað fyrir hinar þrjár lóðirnar ef Kaupvangur 17 væri fullur. Hægt væri til að mynda að bóka stæði á lóðunum þremur í gegnum vefsíðuna Parka.

Ekki hrint í framkvæmt

Í andsvörum Múlaþings kom meðal annars fram að tjaldstæði hefði verið rekið á svæðinu í áraraðir. Þótt deiliskipulag frá 2006 sem var síðan endurskoðað 2021 gerði ekki ráð fyrir rekstri tjaldstæðis á þessum lóðum hefði því ekki verið hrint í framkvæmd nema að hluta til, þegar kemur að lóðinni að Skjólvangi 2 en henni var úthlutað til byggingar hússins árið 2010.

Sagði Múlaþing að ekki hafi orðið frekari uppbygging á svæðinu frá þeim tíma og svæði í kring því verið í sambærilegri notkun og fyrir gildistöku deiliskipulagsins.

Vísaði sveitarfélagið einnig til þess að í aðalskipulagi hefði notkun svæðisins verið breytt í opið svæði. Það staðfesti að heimild til reksturs tjaldstæðisins á lóðunum hefði verið veitt með munnlegum hætti en heimildin gengi út á að það mætti taka yfir stærra svæði, yfir hásumarið. Múlaþing vildi meina að það hafi ekki tekið ákvörðun á grundvelli skipulags- eða byggingarlöggjafar og því væri ekki hægt að kæra ákvörðunina til nefndarinnar. Sagði sveitarfélagið að ákvarðanir sem varði samninga um notkun lóðanna hafi verið teknar af bæjarstjórn og bæjarráði á grundvelli einkaréttarlegra heimilda sveitarfélagsins sem eiganda lóðanna.

Múlaþing hélt því einnig fram að það væri fullkomlega eðlilegt að veita heimildir til tímabundinnar notkunar á auðum lóðum sem eyrnamerktar væru byggð í skipulagi.

Aðeins á valdi heilbrigðisnefndar

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir gefi heilbrigðisnefnd út starfsleyfi fyrir tjald- og hjólhýsasvæði. Óheimilt sé að hefja atvinnurekstur sem krefjist starfsleyfis hafi það ekki verið gefið út eða reksturinn skráður samkvæmt ákvæðum reglugerðar. Allur atvinnurekstur sem sótt sé um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum og fari heilbrigðisnefnd einnig með eftirlit með og hafi heimild til stöðvunar slíkrar starfsemi.

Hin kærða ákvörðun hafi aftur á móti verið tekin af sveitarstjóra Múlaþings. Ekki sé að finna sérstaka heimild til handa sveitarstjóra að taka ákvörðun um stöðvun reksturs tjaldstæðis á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Slíka ákvörðun hafi í þessu tilfelli aðeins heilbrigðisnefnd Austurlands heimild til að taka.

Nefndin vísar málinu þar af leiðandi frá á grundvelli þess að ekki sé til staðar kæranleg ákvörðun sem bundið hafi enda á það. Hún bendir hinum ósátta eiganda Skjólvangs 2 að lokum á að snúa sér til Heilbrigðiseftirlits Austurlands, sem starfi í umboði heilbrigðisnefndarinnar, vegna kvartana sinna yfir rekstri tjaldstæðisins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Guðmundur Ingi útskýrir hvers vegna hann fékk fyrrum þingmann Samfylkingar til að aðstoða sig

Guðmundur Ingi útskýrir hvers vegna hann fékk fyrrum þingmann Samfylkingar til að aðstoða sig
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Mamma „kokks Pútíns“ tjáir sig í fyrsta sinn

Mamma „kokks Pútíns“ tjáir sig í fyrsta sinn
Fréttir
Í gær

Ósáttur faðir barns í gámaskóla óttast um forgangsröðun bæjarins – „Enn eitt árið njóta þau ekki allra þeirra kosta sem skólar á Íslandi bjóða almennt upp á“

Ósáttur faðir barns í gámaskóla óttast um forgangsröðun bæjarins – „Enn eitt árið njóta þau ekki allra þeirra kosta sem skólar á Íslandi bjóða almennt upp á“
Fréttir
Í gær

Gufunesmálið: Ekkja Hjörleifs heitins bar vitni – „Þetta er bara eitthvað sem ég horfi á í bíómyndum“

Gufunesmálið: Ekkja Hjörleifs heitins bar vitni – „Þetta er bara eitthvað sem ég horfi á í bíómyndum“