Fyrirtækin Síld og fiskur, sem rekur svínabú í Minni Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, og Stjörnugrís, sem rekur svínabú að Brautarholti á Kjalarnesi, lögðu bæði fyrir nokkrum mánuðum fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Í kærunum var þess krafist að nýlegar ákvarðanir um að fyrirtækjunum væri ekki lengur heimilt eins og áður hafði verið að dæla svokölluðum blauthluta svínamykju út í sjó yrðu felldar úr gildi en það er sá hluti mykjunnar sem situr eftir í lok hreinsunarferlis. Nefndin varð hins vegar ekki við þessum kröfum fyrirtækjanna.
Um málavexti í máli Síld og fisks segir í úrskurði nefndarinnar að í desember 2023 hafi Heilbrigðisnefnd Suðurnesja samþykkt að framlengja starfsleyfi svínabúsins á Vatnsleysuströnd til tveggja ára en starfsleyfið tók fyrst gildi 2010. Eigendur nálægra fasteigna kærðu ákvörðunina til nefndarinnar sem staðfesti hana að öðru leyti en því að grein í endurnýjaða starfsleyfinu um tímabundna heimild til dælingar blauthluta svínamykju í sjó var felld niður.
Í október 2024 óskaði Síld og fiskur eftir því við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja að greininni yrði bætt aftur inn í starfsleyfið en því var hafnað. Þá ákvörðun kærði fyrirtækið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Í kærunni segir Síld og fiskur að þegar endurnýjun starfsleyfisins var fyrst auglýst 2023 hafi ekkert komið þar fram um að fyrirtækinu bæri að hætta að láta blauthluta svínamykjunnar renna út í sjó. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi hins vegar bætt ákvæði við leyfið fyrirvaralaust um þetta yrði framvegis bannað. Fyrirvarinn fyrir nauðsynlegar breytingar hjá fyrirtækinu, vegna þessa, hafi verið of skammur og rökstuðning skort.
Þegar nágrannar búsins kærðu starfsleyfið varð eins og áður segir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamál ekki við því að fella það úr gildi fyrir utan að ákvæði í því um tímabundna heimild til dælingar blauthluta mykju út í sjó var fellt úr gildi. Síld og fiskur lýsti yfir sérstakri óánægju með þetta á þeim grundvelli að málið hafi ekki snúist um þetta ákvæði og krafðist endurupptöku málsins. Nefndin varð ekki við þeirri kröfu. Sagði Síld og fiskur að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi í kjölfarið hafnað því að fella bannið burt úr starfsleyfinu.
Vildi Síld og fiskur meina að grundvallarmisskilnings gætti í málinu varðandi skilgreiningu á fráveitustarfseminni og því þurfi að taka nýja ákvörðun með breytingu á starfsleyfisskilyrðunum á þeim grundvelli að um skólp væri að ræða en ekki búfjárúrgang eða skarn en í umsögn Umhverfisstofnunar var vísað til reglugerða um hið síðarnefnda. Sagði Síld og fiskur að í áraraðir hafi flórar svínabúsins verið tæmdir í safnþró og úrgangi grísanna svo dælt í gegnum tæki sem skilji föst efni úr mykjunni. Fasta efnið hafi verið notað sem áburður og blauthluta mykjunnar svo dælt í annan tank og látinn standa þar sem þurra efnið sem ekki hafi áður nást að aðskilja úr mykjunni botnfalli. Vökvinn sem eftir standi renni svo í gegnum 100 metra langt rör sem nái út fyrir stórstreymisfjöru á 11 metra dýpi og út í sjó. Þetta fyrirkomulag sé í samræmi við fyrirmæli reglugerðar um fráveitu og skólp.
Vildi Síld og fiskur meina að fráveita þess og hreinsun á úrgangi væri með sambærilegum hætti og þegar kemur að skólpi frá þéttbýli. Þessi breyting á starfsleyfisskilyrðum hafi í för með sér verulegan kostnað og valdi því að flytja verði svínamykju um langan veg og myndi það valda aukinni lyktarmengun og koltvísýringslosun. Sagði fyrirtækið skjóta skökku við að því væru sett þessi skilyrði á meðan skólpi frá sumum sveitarfélögum sé dælt óflokkuðu í sjóinn.
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja vísaði í sínum andsvörum einkum til reglugerðar um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda og það væri ekki í samræmi við hana að hleypa blauthluta svínamykju út í sjó. Sagði eftirlitið Síld og fisk ekki hafa fært rök fyrir því að ekki ætti að líta til reglugerðarinnar í málinu.
Umhverfisstofnun veitti umsögn um málið og sagði meðal annars það ekki samræmast lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir að losa blauthluta svínaskíts út í sjó.
Í niðurstöðu Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að staðreyndin sé sú að heilbrigðiseftirliti sé ekki heimilt án sérstakar ákvörðunar þess efnis að breyta ákvörðun heilbrigðisnefndar sem hafi jú upphaflega gefið starfsleyfið út. Kærunni var á þeim forsendum vísað frá. Í lok niðurstöðunnar er vísað til fullyrðinga Síld og fisks um að ávallt hafi verið litið á fráveitu svínabúa þannig að um sé að ræða losun skólps en ekki búfjárúrgangs þar til nú og því sé bersýnilega um stefnubreytingu að ræða. Vísar nefndin í þessu samhengi til niðurstöðu sinnar í máli svínabús Stjörnugríss við Brautarholt á Kjalarnesi.
Mál Stjörnugríss er margþættara en mál Síld og fisks. Nágranni búsins kærði starfsleyfi þess ekki síst vegna lyktarmengunar en þegar kemur að banni við mykjulosuninni þá segir í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála að við endurnýjun á starfsleyfinu á síðasta ári hafi Umhverfisstofnun bætt inn nýju ákvæði um bann, auk fleiri nýrra ákvæða.
Stjörnugrís kærði þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að banna losunina til nefndarinnar. Segir í kærunni að svínabúskapur hafi verið starfræktur í Brautarholti í áratugi en umfang rekstursins hafi á síðustu árum dregist saman. Vildi fyrirtækið meðal annars meina að ekkert í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir kallaði á slíkt bann. Vildi fyrirtækið meina að með þessu banni við losun í sjó væri rekstrargrundvelli svínabúsins stefnt í hættu þar sem engin aðgengileg tækni væri til sem leyst geti núverandi fyrirkomulag af hólmi. Það væri ekki til staðar landnæði til dreifingar og aðrar aðferðir við losun yrðu kostnaðarsamar auk þess að óljóst væri hvort þær myndu skila betri árangri í umhverfislegu tilliti. Með starfsemi hreinsivirkis hafi dregið úr magni þess svínaskíts sem safnast hafi upp og verið dreift á land þannig að lyktarmengun hafi minnkað.
Sagði Stjörnugrís að með hreinsivirkinu sé meðhöndlaður blauthluti svínamykju losaður í sjó og sé honum dælt frá landi um lögn út fyrir stórstraumsfjöruborð úti fyrir Músanesi sem sé í Brautarholtslandi. Viðtakinn sé vatnshlot sem teljist ekki til viðkvæms viðtaka í skilningi laga og reglna. Aldrei hafi borist kvartanir frá almenningi vegna fráveitu og losunar frá svínabúinu. Athugasemdir hafi heldur ekki verið gerðar af stjórnvöldum sem hafi eftirlit með starfseminni.
Stjörnugrís færði fleiri rök fyrir máli sínu og vísaði meðal annars til þess að sambærileg losun væri heimiluð í laxeldisstöðvum.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis – og auðlindamála segir að eins og Síld og fiskur hafi Stjörnugrís vísað til þess að alltaf hafi verið litið á fráveitu svínabúa eins og skólp og því hafi verið leyft að láta blauthluta mykjunnar renna út í sjó þar til nú og því væri um stefnubreytingu að ræða. Nefndin tekur hins vegar ekki undir það. Í löngum og ítarlegum niðurstöðum nefndarinnar segir um þennan þátt málsins að samkvæmt reglugerðum um varnir gegn mengun vatns og um fráveitur og skólp, sem báðar eru frá 1999, sé ekkert sem bendi til þess að heimilt sé að telja blauthluta svínamykju til skólps. Þyrfti til slíks skilnings að áliti nefndarinnar skýr sett fyrirmæli í lögum eða reglugerð. Segir nefndin að Stjörnugrís sé heimilt að koma með hugmyndir að lausnum sem samræmist reglugerðum.
Var kröfu Stjörnugríss um að fá að halda áfram losun blauthluta mykjunnar út í sjó þar með hafnað.