fbpx
Fimmtudagur 14.ágúst 2025
Fréttir

Móðir kennir meintum mistökum Landspítalans um miklar kvalir sínar en fær engar bætur

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 14. ágúst 2025 12:00

Landspítalinn við Hringbraut

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur staðfest synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn móður um bætur úr sjúklingatryggingu. Móðirin sagði að við fæðingu þriðja barns hennar á Landspítalanum hefði mænudeyfing mistekist og hún hefði þjáðst af miklum verkjum víða um líkamann alla tíð síðan. Spítalinn neitaði því hins vegar að einkenni konunnar stöfuðu af mistökum við mænudeyfinguna en móðirin gerði meðal annars athugasemd við skráningu í sjúkraskrá hennar þar sem ekkert væri minnst á að þrjár tilraunir þurfti til áður en náðist að leggja mænudeyfinguna.

Úrskurður nefndarinnar féll í lok júní en hann var ekki birtur fyrr en fyrir nokkrum dögum.

Móðirin sótti upphaflega um bætur úr sjúklingatryggingunni í júní 2022 en fékk synjun frá Sjúkratryggingum í nóvember 2024. Umsóknin var því meira en tvö ár í vinnslu. Hún kærði synjunina til úrskurðarnefnd velferðarmála í ferbrúar á þessu ári.

Málavextir eru í megindráttum þeir að við fæðingu þriðja barns móðurinnar óskaði hún eftir mænudeyfingu. Hún sagði í sinni kæru til nefndarinnar að töluverður tími hafi liðið þar til læknir hafi komið að leggja deyfinguna. Fyrst hafi komið sérnámslæknir og reynt að leggja mænudeyfinguna en hafi stungið hana tvisvar án árangurs. Móðirin sagði að við þetta hafi hún fengið sáran sting upp bakið. Að lokum hafi yfirlæknir svæfinga á kvennadeild verið kallaður til og þá hafi loks tekist að leggja deyfinguna.

Lak

Móðirin sagði að eftir útskrift af Landspítalanum hafi hún fundið fyrir töluverðum verkjum frá baki, herðum og hnakka með leiðni fram í höfuð. Morguninn eftir hafi hjúkrunarfræðingur komið á heimili hennar og ráðlagt henni að leita aftur á Landspítala vegna einkenna sinna. Það hafi hún gert og þá hafi  komið í ljós að mænuvökvi hafi lekið úr sárinu og hafi hún því verið lögð inn til frekari aðhlynningar. Framkvæmd hafi þá verið  blóðgjöf á stungusvæðinu. Móðirin sagði hins vegar að þrátt fyrir þessa aðgerð þjáist hún enn af slæmum bakverkjum, höfuðverkjaköstum og taugaverkjum sem hún reki til mænudeyfingarinnar.

Sjúkratryggingar vildu hins vegar meina í sinni synjun að meðferð móðurinnar á Landspítalanum hafi verið hagað eins vel og mögulegt hafi verið. Meiri en minni líkur væru á því að höfuðverkurinn sem hún glímdi við stafaði að einhverju öðru en mænuvökvalekanum í kjölfar mænudeyfingarinnar. Vildi stofnunin enn fremur meina að einkenni móðurinnar væru ekki dæmigerð fyrir fylgikvilla mænudeyfingar.

Móðirin vildi hins vegar meina að ástand hennar mætti rekja til mistaka á Landspítalanum og þar með ætti hún rétt samkvæmt lögum á bótum úr sjúklingatryggingu.

Ekkert minnst á hið mislukkaða

Móðirin gerði sérstaka athugasemd við það í sinni kæru að í sjúkraskrárgögnum væri ekkert minnst á að fyrstu tvær tilraunirnar til mænudeyfingarinnar hefðu mistekist. Hún hafi fundið fyrir sárum sting upp bakið eftir það og það væri þar með ekki hægt að útiloka að þessi mistök hafi valdið varanlegum skaða.

Móðirin andmælti einnig þeim fullyrðingum Sjúkratrygginga að einkenni hennar gætu stafað af langvarandi grindarverkjum sem hún hefði glímt við og hálkuslysi sem hún hefði orðið fyrir. Móðirin benti á að umrædd einkenni hafi fyrst sprottið upp í kjölfar mænudeyfingarinnar. Ekki sé heldur hægt að samsama einkenni grindargliðnunar við þau þrálátu einkenni frá baki og höfði auk taugaverkja sem hún hafi glímt við í kjölfar meðferðarinnar. Ítrekaði móðirin að hún hefði leitað marg sinnis til læknis vegna verkjanna áður en hálkuslysið átti sér stað.

Vísaði móðirin í sjúkraskrár þar sem kom meðal annars fram að verkirnir í baki, höfði og öxlum væru mjög slæmir. Það tækist að draga úr þeim tímabundið með sjúkraþjálfun en þeir versnuðu alltaf fljótlega aftur.

Engu óvæntu lýst

Sjúkratryggingar sögðu meðal annars í sínu andsvörum við kæru móðurinnar að viðurkenndum aðferðum hefði verið beitt við mænudeyfinguna og að engu óvæntu við lagningu deyfingarinnar væri lýst í sjúkraskrárgögnum. Eins og áður segir gerði móðirin athugasemd við það að í sjúkraskrá hafi ekkert verið minnst á að tvær tilraunir til að leggja deyfinguna hefðu mistekist þar til það tókst í þriðju tilraun.

Sögðu Sjúkratryggingar að eftir deyfinguna hafi móðirin upplifað mikinn höfuðverk og hafi því verið grunur um að hún væri með þekktan fylgikvilla mænudeyfingar, svokallaðan „post spinal“ höfuðverk. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi einkennin gengið til baka eftir að hún hafi fengið blóðgjöf á stungusvæðið tveimur dögum seinna.

Hvað varðar aðra verki móðurinnar sögðu Sjúkratryggingar að samkvæmt tiltækri heimild hafi svokallaður „post spinal“ höfuðverkur í för með sér stöðubundinn höfuðverk sem verði verri í uppréttri stöðu en skáni við að leggjast út af. Þessu fylgi gjarnan ógleði og uppköst. Að mati Sjúkratrygginga hafi einkenni móðurinnar ekki samræmst þessari lýsingu.

Lýsti misheppnuðum tilraunum

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála er vitnað í greinargerð áðurnefnds yfirlæknis. Lýsti læknirinn því að hannhefði tekið við eftir að sérnámslækni hefði ekki tekist að leggja mænudeyfinguna. Rakti læknirinn það meðal annars til þess að móðirin hafi átt erfitt með að vera kyrr vegna óbærilegra verkja við fæðinguna.

Í greinargerðinni vildi læknirinn sömuleiðis meina að ekki hefðu verið gerð mistök heldur hafi höfuðverkur móðurinnar verið þekktur fylgikvilli mændudeyfingar. Þegar mænuvökvi hafi farið að leka úr sárinu hafi móðirin fengið blóðgjöf og lagast eftir það. Vildi læknirinn meina að hann og taugalæknir hefðu verið sammála um að verki konunnar annars staðar í líkamanum mætti vart rekja til afleiðingar mænudeyfingarinnar og vísaði þá meðal annars til hálkuslyssins.

Í niðurstöðu nefndarinnar er vitnað í greinargerðina og önnur gögn málsins. Nefndin segir að einkenni móðurinnar eins og mikla bakverki megi vart rekja til mænudeyfingarinnar og lekans eftir hana enda séu það ekki þekkt einkenni eftir slíka aðgerð.

Synjun Sjúkratrygginga á umsókn móðurinnar um bætur var því staðfest

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ósáttur tónlistarmaður fær ekki bætur – Krafðist þess að vita af hverju lögreglan var að elta hann

Ósáttur tónlistarmaður fær ekki bætur – Krafðist þess að vita af hverju lögreglan var að elta hann
Fréttir
Í gær

Myndband: Rán um hábjartan dag í Skipholtinu

Myndband: Rán um hábjartan dag í Skipholtinu
Fréttir
Í gær

Rússar virðast hafa hakkað sig inn í bandarískar tölvur sem innihalda viðkvæm dómskjöl

Rússar virðast hafa hakkað sig inn í bandarískar tölvur sem innihalda viðkvæm dómskjöl
Fréttir
Í gær

Síbrotakonan í Bríetartúni sögð hafa barið karlmann með kúbeini – Á yfir höfði sér útburð úr húsinu

Síbrotakonan í Bríetartúni sögð hafa barið karlmann með kúbeini – Á yfir höfði sér útburð úr húsinu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þúsundir Norður-Kóreumanna sendir til Rússlands í hálfgerða þrælavinnu

Þúsundir Norður-Kóreumanna sendir til Rússlands í hálfgerða þrælavinnu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð: „Þetta er eitt af því sem er að fara með þetta samfélag”

Sigmundur Davíð: „Þetta er eitt af því sem er að fara með þetta samfélag”
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessum bílum er oftast stolið í Bandaríkjunum – Eigendur Tesla í góðum málum

Þessum bílum er oftast stolið í Bandaríkjunum – Eigendur Tesla í góðum málum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögmaður segir algengt að foreldrar misnoti vald sitt og kallar eftir harðari viðurlögum

Lögmaður segir algengt að foreldrar misnoti vald sitt og kallar eftir harðari viðurlögum