Veðurstofa Íslands hefur bent á í umsögn vegna fyrirhugaðra breytinga á deiliskipulagi fyrir Hafnargötu 12 í Reykjanesbæ, sem lagðar hafa verið til í tengslum við áform um að byggja þar nýtt fjölbýlishús, að flóðahætta sé til staðar í næsta nágrenni og vísar í því skyni til til sjávarflóðs í óveðri árið 2020. Í því flóði flæddi meðal annars inn í byggingar og töluvert magn af grjóti flæddi yfir næstu götu við Hafnargötu og í átt að reitnum þar sem húsið á að standa án þess þó að ná alla leið þangað. Sveitarfélagið segist meðvitað um hættuna og að gripið verði til aukinna ráðstafana en ólíklegt sé að ágangur sjávar muni hafa bein áhrif á skipulagsreitinn. Deiliskipulagið hefur þó ekki verið endanlega staðfest.
Málið var tekið fyrir á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar. Í fundargerð segir að JeES arkitektar hafi lagt fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hafnargötu 12. Húsagerð verði að hámarki kjallari, þrjár hæðir og ris. Leyfilegum fjölda íbúða á skipulagsreitnum fjölgi um 18, úr 40 í 58 íbúðir. Auglýsingu tillögu að breytingu á deiliskipulagi sé lokið. Engar athugasemdir hafi borist en nokkrar umsagnir.
Við Hafnargötu 12 stendur í dag hús sem virðist ekki í neinni notkun en í því hefur verið ýmis konar atvinnurekstur í gegnum árin og einnig voru þar um tíma skrifstofur Keflavíkurbæjar, áður en hann rann inn í Reykjanesbæ undir lok síðustu aldar. Utan á húsinu stendur nú skilti þar sem fram kemur að á lóðinni verði byggðar íbúðir en einnig rými fyrir þjónustustarfsemi. Fram kemur á skiltinu að framkvæmdirnar verði á vegum fyrirtækisins Blue sem rekur samnefnda bílaleigu.
Á lóðinni er töluvert af bílastæðum og skáhallt fyrir aftan áðurnefnt hús er önnur bygging þar sem lengi var starfsstöð leigubílafyrirtækisins Aðalstöðin.
Bílar geta ekið alveg upp að húsinu en þar var lengi rekin sjoppa með bílalúgu. Fyrir framan húsið er ágætlega breið gangstétt en hinum megin við Hafnargötu, í norðurátt, er síðan nokkuð stórt og autt svæði sem er grasi lagt. Á svæðinu er til að mynda stórt listaverk en annars er það mestu leyti autt en svæðið hefur verið til dæmis nýtt til að halda stórtónleika á bæjarhátíð Reykjanesbæjar, Ljósanótt sem haldinn er í sumarlok ár hvert.
Hafnargata stendur sunnan megin við þetta svæði en norðan megin við það er Ægisgata, sem er sú gata í þessum hluta bæjarins sem næst er sjónum. Við Ægisgötu eru varnargarðar og síðan tekur sjórinn við. Eins og Veðurstofan bendir á eru fordæmi fyrir því að flætt hafi yfir varnargarðana.
Nái sjór og grjót yfir garðana er í raun ekkert sem myndi verja Hafnargötu 12 en þó er samt um nokkra fjarlægð að ræða en samkvæmt óvísindalegri mælingu, á Já.is, eru 118 metrar frá húsinu í beinni línu til sjávar.
Í fundargerð fundar umhverfis- og skipulagsráðs er umsögn Veðurstofunnar birt ásamt ítarlegu minnisblaði um sjávarflóð sem urðu víða á Suðurnesjum í febrúar 2020, þar á meðal á umræddu svæði.
Í umsögninni segir meðal annars að í deiliskipulagstillögunni séu áhrif vinds og skuggavarps skoðuð, en einnig þurfi að skoða mögulega hættu á sjávarflóðum. Gera þurfi ráð fyrir slíkri hættu á þessu svæði og raunar víðar á Reykjanesi meðal annars vegna landsigs og loftslagsbreytinga, með tilheyrandi hækkun yfirborðs sjávar. Segir í athugasemdinni að ekki sé rakið í deiliskipulagstillögunni hvort eða hvaða tillit hefur verið tekið til hættunnar af sjávarflóðum eða aukningar hennar vegna hækkandi sjávarstöðu. Mikilvægt sé að tekið verði tillit til hættu vegna sjávarflóða og líklegar breytingar á þeim við gerð skipulags.
Í þessu minnisblaði Veðurstofunnar um flóðið í febrúar 2020 er minnt meðal annars á að sjór gekk yfir varnargarð inn við Ægisgötu, grjót barst yfir götuna, bundið slitlag losnaði á hluta hennar fyrir framan auða svæðið en á myndum sést vel að grjótið barst einnig langt inn á auða svæðið og endaði ekki langt frá Hafnargötu 12 en komst þó ekki alla leið inn á götuna sjálfa. Einnig er minnt á að vatn flæddi inn á bílastæði við Hafnargötu og flæddi inn í jarðhæð/kjallara húsa sem standa við götuna, t.d. á veitingastaðnum Ráin en sjórinn flæddi inn í þau hús á bakhliðum þeirra. Veitingastaðurinn og húsin við hlið hans eru þó norðan megin á Hafnargötu og nær sjónum en Hafnargata 12, sem eins og áður segir er hinum megin við götuna. Skammt er frá Ægisgötu að bakhlið Ráarinnar og næstu húsa þar við hliðina.
Með fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar fylgir svar við þessari umsögn Veðurstofunnar. Í svarinu segir að styrkja þurfi varnargarða við Ægisgötu og sé sveitarfélagið og Vegagerðin meðvituð um það. Umræddur skipulagsreitur, á Hafnargötu 12, sé í um 6,5 til 7 metra hæð yfir sjávarmáli og jarðhæð húsa sé á um eins metra stalli yfir þeirri hæð, en gólf bílakjallara neðar. Segir að lokum að þó ágangur sjávar hafi ólíklega bein áhrif á skipulagsreitinn þurfi mögulega að styrkja fráveitu.
Svo fór að umhverfis- og skipulagsráð samþykkti á fundinum að fresta málinu. Ekki er tekið sérstaklega fram í fundargerðinni að starfsmönnum bæjarins hafi verið falið að vinna áfram í því.