Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins segir fjölmiðla hafa ýkt hættuástand í Grindavíkurbæ og að stjórnvöld hafi brugðist of harkalega við eldgosunum með tilheyrandi skaða fyrir atvinnulífið. Þetta kemur fram í pistli sem varaþingmaðurinn, Gísli Stefánsson, birti í morgun hjá Vísi.
„Um leið og gos gerði vart við sig á Reykjanesskaga 16. júlí sl var Grindavík eins og gefur að skilja rýmd en allt of langan tíma tók að opna aftur fyrir heimamenn og svo almenning þegar ljóst var hvert umfang gossins var.“
Gísli segir að í aðdraganda kosninganna í haust hafi hann orðið var við mikla óánægju Grindvíkinga með það hvernig fjölmiðlar mátu og sögðu frá aðstæðum í Grindavík.
„Ekki var allt á þeirri heljarþröm sem haldið hafði verið fram, aðeins lítið hlutfall eigna í bænum er staðsett á eiginlegu hættusvæði og urðu fyrir skemmdum. Atvinnulífið var vængstíft mun lengur en þurfti og það þrátt fyrir að stór hópur fólks væri tilbúinn að koma til vinnu. Sannarlega var mörgum brugðið og vildu flytja frá svæðinu en þeir sem vildu halda áfram fengu ekkert um það að segja þrátt fyrir að skárri aðstæður fyrir atvinnulíf og búsetu í sveitarfélaginu væru fyrir hendi.“
Gísli spurði fjármálaráðherra í maí um áætlaðan kostnað ríkisins vegna fasteignafélagsins Þórkötlu sem annast kaup, umsýslu og ráðstöfun húsnæðis í Grindavík. Ráðherra sagði að kostnaðurinn gæti orðið allt að 2,8 milljarðar á komandi ári vegna kaupa á húsnæði og að tæpur milljarður færi í rekstrarkostnað. Gísli segir þetta gríðarlegan kostnað. Hann spurði ennfremur hvort ráðherra ætlaði að grípa til ráðstafana svo brottfluttir Grindvíkingar gætu snúið aftur heim. Því svaraði ráðherra að það væri í höndum Þórkötlu en það væri markmið fasteignafélagsins að hefja útleigu húsnæðis um leið og aðstæður leyfa.
Varaþingmaðurinn furðar sig á þessum svörum. Það sé undarlegt að fasteignafélagi sé falið að sjá um ákvarðanatöku með þessum hætti. Lífið verði að fá að halda áfram. Gísli telur að það þurfi að horfa til framtíðar, það sé ekki hættulaust að búa í Grindavík frekar en víða annars staðar á landinu, svo sem í Vestmannaeyjum og Hveragerði.
„Við munum alltaf eiga í höggi við náttúruna í einhverjum mæli á meðan við búum hér á þessu landi. Aðlögunarhæfni okkar í aldanna rás hefur sýnt það. Forræðishyggja sem þessi hefur afar takmarkaða getu til að leysa vandamál.“
Eldgos hófst í Sundhnúkagígaröðinni þann 16. júlí og stendur enn yfir. Þetta er tólfta gosið frá því að fyrst gaus í Fagradalsfjalli árið 2021. Þrjár fjölskyldur í Grindavík misstu heimili sín undir hraun þegar gossprunga opnaðist stutt frá Hópshverfinu í Grindavík í janúar 2024 og hraun flæddi inn í götuna Efrahóp. Þann sama mánuð lét einn lífið eftir að hafa fallið ofan í sprungu í Vesturhópi.