fbpx
Fimmtudagur 08.maí 2025
Fréttir

Vopnafjarðarmálið: Jón Þór reyndi að koma sökinni á Hafdísi – „Hann hefur verið mjög duglegur sjálfur að rústa sínu mannorði“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 7. maí 2025 16:49

Hafdís Bára Óskarsdóttir. Skjáskot út Landanum á RÚV.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafdís Bára Óskarsdóttir segir að það hafi verið krefjandi og eitthvað sem hún gerði ekki ráð fyrir að upplifa, að gefa vitnaskýrslu í sakamáli gegn Jóni Þóri Dagbjartssyni, sem ákærður er fyrir stórfelld ofbeldisbrot gegn henni. Aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Austurlands á Egilsstöðum í dag og stendur næstu tvo daga.

Hafdís bar vitni í hádeginu og tók sú skýrslugjöf hátt í tvær klukkustundir, þar sem hún svaraði spurningum saksóknara, dómara og verjanda Jóns Þórs. Hafdís veitti síðan DV símaviðtal um hálftíma eftir að vitnisburði lauk.

Jón Þór er nánar tiltekið ákærður fyrir kynferðislega áreitni og húsbrot með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 13. október 2024 farið í heimildarleysi inn á heimili Hafdísar og síðan inn í svefnherbergi hennar þar sem hún var stödd, haldið henni niðri í rúmi hennar, reynt að kyssa hana, káfað á henni og rifið hana úr buxum og nærbuxum, áður en Hafdís náði að ýta honum af sér og koma honum fram á gang í húsinu, og eftir það neitað að yfirgefa heimilið þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir Hafdísar um það.

Jón Þór reyndi síðan að myrða Hafdísi þremur dögum síðar, síðdegis miðvikudaginn 16. október. Brotið var framið í skemmu við heimili Hafdísar þar sem Jón Þór veittist að henni með rúllubaggateini og notaði hann til að reyna að stinga hana í kviðinn. Hann ýtti við henni þar til hún féll til jarðar og notaði síðan teininn til að þrengja að hálsi hennar með þeim afleiðingum að hún hætti að geta andað og meðvitund hennar skertist. Hlaut Hafdís töluverða áverka af árásinni og var flutt á sjúkrahús á Akureyri.

Ekki í hennar karakter að tálma umgengni

Aðspurð sagðist Hafdís ekki hafa hlustað á vitnisburð hins ákærða, sem gefinn var í morgun. Blaðamaður bar undir hana sumt af því sem haft er eftir Jóni Þóri í þeirri vitnaleiðslu, í frétt RÚV. Samkvæmt þeirri lýsingu dró Jón Þór nokkuð úr alvarleika brota sinna eins og þeim er lýst í ákæru. Hann bar því einnig við að hann hafi verið knúinn áfram af reiði, sem meðal annars stafaði af því að Hafdís hafi sagt honum að hann fengi ekki að sjá son þeirra og annar maður myndi koma honum í föðurstað. Er blaðamaður bar þessa ásökun undir Hafdísi sagði hún:

„Eins og ég sagði inni í dómsal áðan þá er ég ekki þessi týpa sem tálmar umgengni. Ég á eldri strák og er í mjög góðum samskiptum við þann barnsföður minn og stjúpmóður stráksins. Ég vil geta haft svoleiðis samskipti á milli aðila, það er heilbrigðast.“

Hún segir aðspurð að henni hafi Jón Þór sýnt mjög takmarkaða iðrun vegna brota sinna.

Áhugavert að Jón Þór hafi beint vopninu að kvið hennar

Hafdís benti blaðamanni á áhugavert atriði varðandi árásina, atriði sem hafi ekki verið til umfjöllunar og hún hafi ekki hugsað út í, en vinur hennar hafi bent henni á. „Það er mikið búið að fjalla um það að hann hafi fundið þvagprufu inni hjá mér áður en hann réðst á mig úti í skemmu, þar sem hann byrjaði á því að beina járnkarlinum að maganum á mér. Nokkuð rökrétt út frá þessari þragprufu að hann hafi byrjað á að reyna að reka mig á hol eftir að hafa fundið hana.

DV: Heldur þú þá að hann hafi talið þig ganga með barn og viljað gera því mein?

„Ég ætla ekki að fullyrða um það en mér þykir þetta vera áhugaverður vinkill, sem kom mér á óvart, ég hafði ekki hugsað út í þetta.“

Stóðst þolraunina

Sem fyrr segir tók vitnaskýrslan yfir Hafdísi langan tíma og aðspurð viðurkennir hún að þetta hafi verið þolraun. Hún hafi hins vegar að mestu leyti náð að halda jafnvægi allan tímann.

„Já, þetta var þolraun, þetta var krefjandi og ekki eitthvað sem maður áætlar að maður eigi eftir að gera á lífsleiðinni. Það er ekki óskastaða neins.“

Hún segir að saksóknari, dómari og verjandi Jóns Þórs hafi beint mörgum spurningum til hennar. Blaðamanni lék forvitni á að vita um hvernig spurningar verjandans voru:

„Hann spurði meira út frá því hvort ég sé að reyna að sverta mannorð hans og hafi ögrað honum. Jón Þór hefur mikið talað um að ég sé að ögra honum og hafi ýtt undir hegðun hans. En það er ekki þannig. Ég hafna þessu algjörlega. Hann hefur verið mjög duglegur sjálfur að rústa sínu mannorði með framkomu og hátterni. Hann var kominn á þann stað að geta fúnkerað meðal manna og lifað óáreittur í íslensku samfélagi. En hann eyðilagði það sjálfur. Ég hef enga trú á því að hann geti þrifist í þessu samfélagi aftur eftir að hann kemur út. Hann þarf þá að flytja eitthvað til útlanda.“

RÚV hefur einnig eftir vitnisburði Jóns Þórs að það hafi verið mikil vinna á búi Hafdísar. Henni þykir það vera furðuleg athugasemd. „Ég veit ekki betur en við höfum verið saman í næstum tíu ár og þetta hafi verið sameiginlegt. Þetta er bara galið, ég veit ekki betur en hann hafi haft frjálsan aðgang að öllu sem hann vildi gera. Þetta hljómar eins og ég hafi verið með einhverja svipu yfir honum, en það var ekki þannig.“

Ill meðferð á Hjalteyri engin afsökun

Jón Þór segist „hafa verið í slæmu ástandi í aðdraganda árásarinnar um nokkurt skeið. Umfjöllun um brot gegn börnum á Hjalteyri hafi reynst honum erfið en þar hafi hann orðið fyrir grófu kynferðislegu, líkamlegu og andlegu ofbeldi,“ segir í frétt RÚV. Aðspurð um þetta atriði segir Hafdís:

„Það er rétt að hann fór á Hjalteyri en ég vissi ekki um það fyrr en það mál kom upp, þá höfðum við verið saman í um sjö ár. En óháð því þá skiptir ekki máli í hverju við lendum á lífsleiðinni, þá berum við öll þá ábyrgð að vinna með það sjálf og án þess að skaða aðra.“

Hafdís segist hafa verið í nákvæmlega sömu stöðu og Ágústa Ágústsdóttir varaþingmaður Miðflokksins, sem hefur stigið fram í fjölmiðlum og lýst yfir stuðningi við Hafdísi. Ágústa er einnig fyrrverandi sambýliskona Jóns Þór og varði hann á sínum tíma fyrir ásökunum um kynferðisbrot gegn ungum stúlkum á meðferðarheimili sem hann starfaði á. Hann var síðar dæmdur fyrir þau brot.

„Ég var í sömu stöðu og hún varðandi meðvirknina og þetta að maður varð ástfanginn og það er settur upp einstaklingur sem maður verður ástfanginn af en svo kemur í ljós að hann er ekki eins góður maður og ég hefði haldið, raunar er það þveröfugt. Það er bara eitt af því sem ég varð að kyngja, eins og Ágústa,“ segir Hafdís.

Óttast stutta fangelsisvist

„Eins og staðan er núna þá vona ég heitt og innilega að hann fái einhverja refsingu en því miður hafa komið upp mörg atvik upp á síðkastið þar sem okkur finnst dómskerfið ekki vera nógu strangt, að því leyti að fólk fær einhvern dóm en þarf ekki að sitja nema hluta af honum. Þarna spilar líka inn í erfið staða í fangelsismálum, held ég.“

„Fyrir mér er þessum kafla lokið,“ segir Hafdís enn fremur. „Ég á barn með honum og get alveg reiknað með því að ég þurfi að vinna eitthvað í þeim málum gagnvart honum. En því miður er staðan bara þannig að ég treysti honum ekki fyrir fimmeyring. Ég er að vinna að því að tryggja öryggi mitt áfram eftir að hann kemur út.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Spæjarastofa Jóns Óttars sökuð um að nýta stolin gögn frá lögreglu og saksóknara til að selja þjónustu sína

Spæjarastofa Jóns Óttars sökuð um að nýta stolin gögn frá lögreglu og saksóknara til að selja þjónustu sína
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

„Ég væri bara að vinna í banka eða í neyslu ef ég ætti ekki svona gott bakland“

„Ég væri bara að vinna í banka eða í neyslu ef ég ætti ekki svona gott bakland“
Fréttir
Í gær

Faðir Sigurbjargar stígur fram og gefur lítið fyrir svör Sigrúnar: „Mér þótti ég sjá lygina leka niður hökuna á henni“

Faðir Sigurbjargar stígur fram og gefur lítið fyrir svör Sigrúnar: „Mér þótti ég sjá lygina leka niður hökuna á henni“
Fréttir
Í gær

Ekki sátt við það sem hún sá í sundi um helgina – „Mér finnst þetta ógeðslegt!“

Ekki sátt við það sem hún sá í sundi um helgina – „Mér finnst þetta ógeðslegt!“
Fréttir
Í gær

Styttist í að rannsókn Gufunessmálsins ljúki

Styttist í að rannsókn Gufunessmálsins ljúki
Fréttir
Í gær

Framkvæmdastjóri Félagsbústaða um ástandið í Bríetartúni – „Þetta er sannarlega ekki góð staða“

Framkvæmdastjóri Félagsbústaða um ástandið í Bríetartúni – „Þetta er sannarlega ekki góð staða“