Tryggingafélagið VÍS tryggingar hf. hefur verið dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða konu, sem var farþegi í bifreið sem keyrt var aftan á í mars 2022, bætur. Hefur konan glímt við verki alla tíð síðan. Hafði VÍS frá upphafi hafnað bótaskyldu í málinu og neitað að verða við úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem komst að þeirri niðurstöðu að félagið væri bótaskylt gagnvart konunni.
Þegar slysið átti sér stað var bifreiðin kyrrstæð við biðskyldu á aðrein inn á Nýbýlaveg við Breiðholtsbraut. Bifreiðin sem konan var farþegi í er fólksbíll en bifreiðinni sem ekið var aftan á hann er jeppi sem var vátryggður hjá VÍS.
Konan leitaði á heilsugæslu um viku eftir slysið og hefur frá því það varð stundað sjúkraþjálfun og gengist undir lyfja- og verkjameðferð.
Konan tilkynnti VÍS um atvikið í apríl 2022 og aflaði félagið svokallaðra PC-Crash skýrslu um slysið og á grundvelli niðurstöðu hennar um að heilsutjón hafi ekki getað hlotist af atvikinu hafnaði félagið bótaskyldu.
Í mati læknis frá september 2023 kom fram að konan kvartaði yfir verkjum í herðablöðum, öxlum og handleggjum eftir slysið og fyndi fyrir rafstraum um líkamann og dofa fram í fingur. Henni hafi verið gefin verkjalyf og svefnlyf og beint í áframhaldandi sjúkraþjálfun. Hún eigi erfitt með daglegar athafnir og svefn sem hafi slæm áhrif á andlega líðan hennar. Hún hafi farið í verkjameðferð en sé enn mjög verkjuð þrátt fyrir þá meðferð. Verkirnir hafi aukist eftir slysið og erfitt virst að ná þeim niður. Hún þurfi verkjalyf daglega og þá séu batahorfur hennar ekki góðar.
Læknirinn sagði konuna ekki hafa orðið fyrir atvinnutjóni vegna slyssins þar sem hún hefði ekki verið í starfi þegar slysið átti sér stað. Varanleg örorka hennar var hins vegar metin 12 prósent.
Konan skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum í september 2023. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að VÍS væri bótaskylt en félagið neitaði að fara eftir þeim úrskurði og því höfðaði konan mál.
Í málatilbúnaði konunnar fyrir dómi kom meðal annars fram að hún hefði leitað á bráðamótttöku Landspítalans strax eftir slysið en verið vísað frá vegna Covid-ástands og ekki komist að á heilsugæslu fyrr en 6 dögum síðar. Fyrir slysið hafi hún glímt við stoðkerfisvanda en ekki á þeim svæðum sem matsgerð læknisins taki til. Sagði konan PC-Crash skýrslu VÍS einhliða og ekki taka til afleiðinga slyssins fyrir líkamlegt ástand hennar.
VÍS vildi hins vegar meina að það væri ósannað að orsakatengsl væru milli slyssins og þeirra líkamlegu einkenna sem hrjáðu konuna. Sagði félagið gögn sýna fram á að konan hafi glímt við einkennin fyrir slysið. Enn fremur vildi félagið meina að höggið sem kom á bílinn, sem konan var farþegi í, við slysið hafi verið lítið og þar með ekki getað haft þessar afleiðingar. VÍS vísaði því sömuleiðis á bug að umræddrar skýrslu hafi verið aflað einhliða.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir að engin ástæða sé til að draga í efa þær fullyrðingar konunnar að henni hafi upphaflega verið vísað frá Landspítalanum vegna Covid-takmarkana enda liggi vel fyrir að slíkar takmarkanir hafi verið í gildi á þeim tíma. Dómurinn vísar til gagna málsins og útlistana læknis og sjúkraþjálfara um heilsufar hennar en sá síðarnefndi sagði konuna illa stadda vegna verkja í vinstri handlegg. Hún væri hjálparlaus og lítil von væri um bata.
Dómurinn segir að í áðurnefndu mati læknisins komi fram að fyrir slysið hafi konan glímt við einkenni mest hægra megin í líkamanum og eigi sögu um brjósklos í mjóbaki, verki í hægri öxl og máttarminnkun í hægri handlegg og vinstri fótlegg. Eftir slysið hafi hún glímt við versnandi verki og kvartað um verki í vinstri handlegg og máttarminnkun í vinstri handlegg.
Hvað varðar fullyrðingar VÍS um að matsskýrslu læknisins hafi verið aflað einhliða þá segir dómurinn að ekkert í skaðabótalögum mæli fyrir um að fleiri en einn þurfi að afla slíks mats. Dómurinn segir sönnunargildi PC-Crash skýrslu VÍS vera takmarkað þar sem engin vitni hafi verið leidd fyrir dóminn til að svara spurningum um efni hennar. Samkvæmt skýrslunni hafi ökuhraði jeppans, sem keyrði aftan á bílinn sem konan var farþegi í, verið 24 kílómetrar á klukkustund. Ljósmyndir sýni hins vegar skemmdir á farangursloki. Höggið hafi þá komið þar á bifreiðina og gefi myndirnar til kynna að ökukraðinn kunni að hafa verið meiri. Höggið kunni að hafa verið nægilegt til að valda hnykk á hálsi konunnar. Þau einkenni sem reifuð séu í læknisfræðilegum gögnum séu í samræmi við högg sem verði þegar ekið sé aftan á bifreið.
Dómurinn vísar einnig til þess að konan hafi farið í segulómskoðun bæði fyrir slysið og eftir það og síðarnefnda skoðunin sýni fram á þá breytingu að afturbungun hafi orðið á liðþófa milli hálsliða.
Dómurinn telur því konuna hafa sýnt fram á að slysið hafi valdið henni líkamlegu tjóni og fellst á bótakröfur hennar sem miðuðust við lágmarkslaun. Er VÍS dæmt til sð greiða henni um 6 milljónir króna auk vaxta og dráttarvaxta.
Dóminn í heild er hægt að lesa hér.