fbpx
Þriðjudagur 16.desember 2025
Fréttir

Þau eru tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 3. desember 2025 16:40

Tilnefndir höfundar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Blóðdropans. Mynd: Arnþór Birkisson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tilnefningar til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans og Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2025 voru kynntar fyrr í dag  í Eddu, Arngrímsgötu 5.

Bæði verðlaun verða afhent í febrúar á komandi ári af forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur. Formenn dómnefndanna fjögurra, Andri Már Sigurðsson, Ásrún Matthíasdóttir, Dagrún Ósk Jónsdóttir og Davíð Roach Gunnarsson munu koma saman ásamt forsetaskipuðum formanni, Ástráði Eysteinssyni, og velja einn verðlaunahafa úr hverjum flokki. Verðlaunaupphæðin er ein milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk. Félag íslenskra bókaútgefenda kostar verðlaunin.

Íslensku bókmenntaverðlaunin voru fyrst veitt árið 1989 og er ætlað að draga fram athyglisverðustu útgáfubækur hvers árs. Þetta er í 37. sinn sem tilnefnt er til verðlaunanna. Sambærileg verðlaun eru veitt af útgefendafélögum í Svíþjóð og Noregi. Sænsku verðlaunin eru jafn gömul þeim íslensku, voru stofnuð árið 1989, og bera nafnið Augustpriset.  Norsku verðlaunin heita Brageprisen. Þau voru stofnuð árið 1992. Matthías Rúnar Sigurðsson hannaði nýjan koparsteyptan verðlaunagrip, hrafninn Blæng, sem veittur var í fyrsta sinn til verðlaunahafa ársins 2023 í ársbyrjun 2024.

Félag íslenskra bókaútgefenda gerði samkomulag við Íslenska glæpafélagið árið 2022 um að taka yfir verklega framkvæmd Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans ásamt því að kosta verðlaunin með sama hætti og Íslensku bókmenntaverðlaunin. Handhafi Blóðdropans verður, líkt og áður, framlag Íslands til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins. 

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna Blóðdropans:

Dómnefnd skipuðu:

Ásrún Matthíasdóttir, formaður dómnefndar, Brynhildur Björnsdóttir og Ómar Valdimarsson.

Lilja Sigurðardóttir

Alfa

Útgefandi: Mál og menning

Áhugaverð og þéttofin glæpa- og framtíðarsaga, vel úthugsuð og grípandi.  Fléttan er krefjandi með góðri persónusköpun og stíganda sem heldur lesandanum við efnið.

Eva Björg Ægisdóttir

Allar litlu lygarnar

Útgefandi: Veröld

Heillandi bók sem grípur lesandann frá fyrstu síðu með spennandi framvindu. Blekkingar sögunnar eru ögrandi og lesandinn veit stundum ekki hvaðan á hann stendur veðrið. Sannfærandi persónusköpun og góð flétta sem kemur stöðugt á óvart.

Anna Rún Frímannsdóttir

Eftirför

Útgefandi: Salka

Trúverðug og raunsönn lýsing á einelti unglinga og átakanlegum afleiðingum þess með góðri persónusköpun og lifandi frásagnarmáta.  Spennandi og vel uppbyggð saga sem heldur lesandanum vel við efnið.

Reynir Finndal Grétarsson

Líf

Útgefandi: Sögur útgáfa

Átakamikil og hröð frásögn með flókinni fléttu og óhugnanlegu ívafi. Sagan dýpkar eftir því sem á líður og persónur sýna sitt rétta andlit. Kraftmikil og ögrandi.

Margrét S. Höskuldsdóttir

Lokar augum blám

Útgefandi: Vaka Helgafell

Skemmtilegur stíll og  sannfærandi persónur drífa áfram áhugaverða sögu sem heldur spennunni út í gegn. Sögusvið og aðstæður eru ljóslifandi og lesandinn hrífst með upplifun og hugsunum persónanna.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki barna- og ungmennabóka:

Dómnefnd skipuðu:

Andri Már Sigurðsson, formaður dómnefndar, Gunnur Vilborg Guðjónsdóttir og Karitas Mörtudóttir Bjarkadóttir.

Birna Daníelsdóttir

Ég bý í risalandi

Útgefandi: Vaka Helgafell

Hugljúf, falleg og einlæg frásögn þar sem höfundur leikur sér með form, liti og sjónarhorn. Verkið er fagurlega myndskreytt saga frá sjónarhorni barns sem lætur ekkert stoppa sig.

Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir

Rækjuvík: Saga um dularfull skeyti og stuð

Útgefandi: Salka

Fyndin og ómótstæðilega falleg hversdagssaga með skrautlegum, hlýjum og eftirminnilegum persónum. Lesendur eiga vafalaust eftir að njóta sögunnar en einnig vönduðum frágangi bókarinnar, sem býður upp á áframhaldandi skemmtun jafnvel eftir að lestri lýkur.

Sesselía Ólafs

Silfurberg

Útgefandi: Bókabeitan

Frumleg og skemmtileg saga úr heimi íslenskra ævintýra og þjóðsagna. Áhugaverðar og ólíkar persónur vinna saman í baráttu góðs við illt og úr verður hörkuspennandi saga sem hentar breiðum aldurshóp.

Ævar Þór Benediktsson og Elín Elísabet Einarsdóttir myndhöfundur

Skólastjórinn

Útgefandi: Mál og menning

Lífleg saga sem sameinar húmor, spennu og þroskasögu grunnskólanema í krefjandi en oft bráðfyndnum aðstæðum. Mikið fjör og stuð er í sögunni sem hvetur lesendur áfram á næstu síðu.

Arndís Þórarinsdóttir

Sólgos

Útgefandi: Mál og menning

Áhrifarík og spennandi hamfarasaga þar sem lesendur fá að fylgjast með áhugaverðum sögupersónum í ógnvekjandi og spennandi aðstæðum. Höfundi tekst vel að skapa trúverðuga mynd af breyttu samfélagi og fangar athygli lesenda sem hann sleppur ekki fyrr en löngu eftir að lestri lýkur.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki fræðibóka og rita almenns efnis:

Dómnefnd skipuðu:

Björn Teitsson, Dagrún Ósk Jónsdóttir, formaður dómnefndar og Magnús Lyngdal Magnússon

Kristín Svava Tómasdóttir

Fröken Dúlla: Ævisaga

Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Höfundur hefur unnið þrekvirki með því að skrásetja ævisögu Jóhönnu Knudsen (Dúllu). Yfirheyrslum og rannsóknum Jóhönnu á ástandsstúlkum hefur verið lýst sem umfangsmestu persónunjósnum Íslandssögunnar. Dómur sögunnar hefur því óneitanlega verið henni óhagstæður á síðari árum og í því felst mikil áskorun fyrir ævisagnaritara. Í verkinu er áleitnum spurningum svarað af festu og yfirvegun. Bókin byggir á styrkum fræðilegum grunni en frásögnin er lipur, áhugaverð og spennandi.

 Chanel Björk Sturludóttir, Elinóra Guðmundsdóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir

Hennar rödd: Sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi

Útgefandi: Vía útgáfa

Ákaflega metnaðarfullt og mikilvægt verk sem miðlar fjölbreyttum sögum kvenna á Íslandi sem hafa oftar en ekki átt takmarkaða rödd í opinberri umræðu. Ritstjórar hafa með mikilli næmni og virðingu fyrir viðfangsefninu safnað saman ólíkum röddum og sjónarhornum kvenna sem eiga það sameiginlegt að vera af erlendu bergi brotnar, en hafa um leið auðgað íslenskt þjóðlíf svo um munar, hver á sinn hátt. Bókin er bæði skrifuð á íslensku og ensku, hana prýða fallegar ljósmyndir og það tekst afbragðs vel að kynna lesendur fyrir konunum sem deila sögum sínum.

Davíð Ólafsson og Arndís S. Árnadóttir

Mynd & hand: Skólasaga 1939–1999

Útgefandi: Sögufélag

Í bókinni er fjallað með vönduðum og áhugaverðum hætti um 60 ára sögu Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þar er dregin upp ljóslifandi mynd af mikilvægu hlutverki skólans sem var í senn kennaraskóli, listiðna-, hönnunar- og myndlistaskóli. Lifandi frásagnarhátturinn varpar skýru ljósi á söguna en bókin er einnig ríkulega myndskreytt og fangar þannig andrúmsloftið í Mynd&hand. Fallegt og fróðlegt verk sem undirstrikar ómissandi þátt skólans í menningarsögu Íslands.

Gunnar V. Andrésson og Sigmundur Ernir Rúnarsson

Spegill þjóðar: Fréttamyndir í fimmtíu ár og sagan á bak við þær

Útgefandi: Mál og menning

Ákaflega vandað og tímabært verk sem hefur að geyma margar af kunnustu fréttaljósmyndum Gunnars V. Andréssonar. Myndirnar spanna hálfrar aldar farsælan feril Gunnars. . Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur skráð sögurnar, á bak við myndirnar á lifandi hátt, sem gefa þeim samhengi og aukna dýpt. Bókin er áferðarfalleg og skemmtileg. Hún er á sama tíma mikilvægt innlegg í sögu þjóðarinnar og fjölmiðla á Íslandi, enda er þar að finna á annað hundrað myndir af augnablikum sem greypt eru í þjóðarsálina.

Sigrún Alba Sigurðardóttir

Þegar mamma mín dó

Útgefandi: Mál og menning

Einstakt verk sem fjallar um reynslu höfundar af því að fylgja móður sinni síðasta spölinn. Um er að ræða einlæga og opinskáa lýsingu á þeim sterku tilfinningum sem kvikna í tengslum við dauðann og það að kveðja; bæði ást og umhyggju en einnig líðan á borð við samviskubit og vanmátt. Bókin á brýnt erindi við samtímann. Fjallað er um þær aðstæður sem samfélagið hefur búið dauðvona fólki og ekki síst álagið og ábyrgðina sem aðstandendur þurfa að takast á við á óumflýjanlegum tímamótum.

Eftirfarandi höfundar eru tilnefndir í flokki skáldverka:

Dómnefnd skipuðu:

Davíð Roach Gunnarsson, formaður dómnefndar, Guðrún Garðarsdóttir og Gyða Sigfinnsdóttir

Eiríkur Jónsson

Andrými: kviksögur

Útgefandi: Bjartur

Listilega skrifuð bók sem inniheldur frumlegar hugmyndir í einnar blaðsíðna kviksögum um fjölkynngi tilverunnar. Oft hverfast þær um sérkennilegar persónur og störf þeirra; til að mynda mann sem vinnur við að fallprófa lyftur og lækni sem sérhæfir sig í meðferð útdauðra sjúkdóma eins og sullaveiki. Tilvistarspekilegar vangaveltur spretta upp úr lögmálum raunvísindanna en nístandi kímni og lágstemmdur tregi binda sögurnar saman.

Sigrún Pálsdóttir

Blái pardusinn: hljóðbók

Útgefandi: Mál og menning

Stutt saga af öldruðum bókmenntafræðingi með brostna skáldkonudrauma, uppgjafar sagnfræðingi sem er markaðsstjóri sælgætisverksmiðju, og bókelskri flugfreyju sem á erfitt með að fóta sig á fullorðinssvellinu. Þau eiga það sameiginlegt að hlusta á dularfullu hljóðbókina Bláa pardusinn – af mismikilli athygli þó – um íslenska konu sem lendir í ævintýralegum hremmingum í seinni heimsstyrjöld og ku vera byggð á sannsögulegum atburðum. Hér er á ferðinni djörf formtilraun sem gengur upp í æsilegri atburðarás þar sem höfundur þenur mörkin milli sögulegra heimilda, skáldskapar og sannleika.

Þórdís Helgadóttir
Lausaletur

Útgefandi: Mál og menning 

Marglaga skáldsaga á mörkum hins óþekkta þar sem dularfullur faraldur hefur gripið um sig á meðan prentsafnið opnar enn á slaginu níu, sama hvað á dynur. Starfsfólk safnsins tekst á við hversdagsleikann sem smám saman snýst upp  í andhverfu sína þegar undirliggjandi framandleikinn læðist upp á yfirborðið eins og kötturinn sem spígsporar um safnið. Frásögn sem einkennist af næmni og listilega fléttuðum lýsingum ástands þar sem við getum aldrei verið viss og flest getur brugðist, jafnvel minnið.

Haukur Már Helgason

Staðreyndirnar

Útgefandi: Mál og menning

Í heimspekilegri háskerpu framkallar höfundur margbrotna mynd af hverfulleika staðreyndarinnar í upplýsingaóreiðu samtímans. Undirgefni þjóðar við valdhafa kemur berlega í ljós þegar ráðherra setur á fót Upplýsingastofu og ræður smánaðan fyrrum aðstoðarmann ráðherra sem skrifstofustjóra staðreyndagrunns. Haukur Már Helgason kafar hér ofan í óþægilegustu fortíð Íslendinga og veltir okkur upp úr henni með aðstoð hamstola vitlíkisvélar.

Jón Kalman Stefánsson

Þyngsta frumefnið

Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa

Ægifalleg ljóðabók sem lesandi getur nálgast eins og gamlan vin þar sem flakkað er áreynslulaust milli hins háfleyga og hversdagslega. Guð býr nefnilega ekki bara í eilífðinni, heldur líka girðingunni, kaffinu, gæskunni, uppvaskinu, kynlífinu og ekki síst Ikea-sexkantinum. Sorgin er alltumlykjandi þyngsta frumefnið og ljóðmælandi þá eins konar Sísýfos söknuðarins; hífir sokknar sólir úr hafi að morgni og rúllar harminum á undan sér upp stórgrýtta fjallshlíð mannlegrar tilvistar.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Sakar Sjálfstæðismenn um hræsni og segir að af öllum lygum stjórnarandstöðunnar sé þessi sú svæsnasta

Sakar Sjálfstæðismenn um hræsni og segir að af öllum lygum stjórnarandstöðunnar sé þessi sú svæsnasta
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

„Við vorum bara litlir hræddir strákar“

„Við vorum bara litlir hræddir strákar“
Fréttir
Í gær

Fór inn í kvennabúningsklefa í Sundhöllinni og handlék kynfæri sín fyrir framan stúlku í sturtu

Fór inn í kvennabúningsklefa í Sundhöllinni og handlék kynfæri sín fyrir framan stúlku í sturtu
Fréttir
Í gær

Hundur Margrétar lifir enn – „Mér er haldið í hengingaról“

Hundur Margrétar lifir enn – „Mér er haldið í hengingaról“
Fréttir
Í gær

Harpa hvetur fólk til að sleppa hamborgarhryggnum um jólin

Harpa hvetur fólk til að sleppa hamborgarhryggnum um jólin
Fréttir
Í gær

Morðið á Rob Reiner og eiginkonu hans – „Fjölskyldumeðlimur“ yfirheyrður

Morðið á Rob Reiner og eiginkonu hans – „Fjölskyldumeðlimur“ yfirheyrður
Fréttir
Í gær

Þegar lífið fer á bið á „bestu árum ævinnar“

Þegar lífið fer á bið á „bestu árum ævinnar“
Fréttir
Í gær

„Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu“

„Berklar eyddu vonum fólks, eyðilögðu tilhugalíf og ungar fjölskyldur syrgðu“