

Guðni Th. Jóhannesson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Íslands hélt í tilefni fullveldisdagsins 1. desember síðastliðins tvö erindi við Háskólasetur Vestfjarða. Í öðru þeirra sem var meðal annars sérstaklega ætlað erlendum nemendum við setrið fór Guðni meðal annars yfir hvað er ólíkt með Íslandi og mörgum öðrum löndum gagnvart þeim sem sækja um og verða íslenskir ríkisborgarar. Vekja ábendingar Guðna upp spurningar um hvort nóg sé gert til að sjá til þess að fólk af erlendum uppruna, sem verður íslenskir ríkisborgarar, verði virkilega hluti af samfélaginu.
Guðni segir frá þessu í pistli á Facebook.
Fyrra erindið sem hann flutti bar yfirskriftina „Skiptum við máli? Ísland á alþjóðavettvangi.“ Þar ræddi forsetinn fyrrverandi um möguleika Íslands og Íslendinga til að láta gott af sér leiða úti í heimi, með vísan í dæmi úr sögunni og hugleiðingum um frekari skrif í þeim efnum.
Seinna erindið flutti Guðni á ensku en það bar yfirskriftina „What do you need to know about Iceland‘s history to become an Icelander?“. Guðni segir erindið meðal annars hafa verið ætlað erlendum nemum við háskólasetrið og öðrum sem kunni ekki íslensku reiprennandi. Í erindinu fór Guðni yfir það að á Íslandi er ekki vænst grunnþekkingar á sögu og samfélagi þegar fólk sækir um ríkisborgararétt, ólíkt því sem gengur og gerist í mörgum ríkjum. Forsetinn fyrrverandi benti hins vegar á móti á að í íslensku skólakerfi er hvort eð er ekki lögð mikil áhersla á söguþekkingu. Einnig benti Guðni á að þegar fólk fær íslenskan ríkisborgararétt er engin athöfn í boði, ólíkt því sem gerist víða þar sem nýir ríkisborgarar eru boðnir velkomnir í samfélagið með pompi og prakt.
Í pistlinum veltir Guðni því ekki beint upp hvort þetta sé ekki eitthvað sem þurfi að skoða og bæta úr en bara með því að minnast á þetta hlýtur það að ýta undir slíkar spurningar, sérstaklega þegar slíkt kemur frá fyrrverandi forseta lýðveldisins. Ef gera á auknar kröfur til útlendinga sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt um þekkingu á íslensku samfélagi og sögu Íslands situr þó eftir sú spurning, í ljósi erindis Guðna, hvort ekki væri eðlilegra að byrja fyrst á því að leggja aukna áherslu á sögukennslu í íslenskum skólum. Sé slíkt ekki gert þá er ekki annað hægt en að spyrja hvernig nemendur eigi að skilja samtímann ef þeir vita ekkert um fortíðina.